Lag Barnamenningarhátíðar frumflutt í Fossvogsskóla

Það var mikið fjör í Fossvogsskóla í dag þegar hljómsveitin Inspector Spacetime frumflutti lagið Hlaupasting fyrir nemendur á sal skólans.
Lag Barnamenningarhátíðar 2025 er komið út og er samið af stuðpinnunum í hljómsveitinni Inspector Spacetime.
Þema Barnamenningarhátíðar í ár er „út að leika“ og fengu nemendur í 4. bekk í borginni það verkefni að svara ýmsum spurningum um hvað felist í orðunum út að leika.
Liðsmenn hljómsveitarinnar Inspector Spacetime þau Egill Gauti Sigurjónsson, Elías Geir Óskarsson og Vaka Agnarsdóttir fengu textann frá börnunum og gerðu söngtexta við lagið Hlaupasting. Þau sögðu að samvinna við börnin hafi verið mjög skemmtileg og gefandi.

Hluti skólakórs Fossvogsskóla kom einnig fram og söng lagið Farfuglar, en þess má geta að kórinn er stærsti grunnskólakór í Reykjavík.
Inspector Spacetime frumflytur lagið svo sérstaklega fyrir fullum sal af 4. bekkingum í Eldborgarsal Hörpu við setningu Barnamenningarhátíðar þann 8. apríl næstkomandi. Hátíðin stendur til 13. apríl og verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá alla dagana og frítt inn á alla viðburði.
Sjá nánari dagskrá á barnamenningarhatid.is

Myndband af laginu Hlaupasting
Myndband af lagi Inspector Spacetime er nú komið út og má nálgast það á Youtube.
Gerð myndbandsins:
Útsetning og höfundar lags: Inspector Spacetime
Kvikmyndataka: Jakob Thor Jörundsson og Róbert Reynisson
Leikstjórn: Erla Stefánsdóttir og Sandra Zeilisa