Framkvæmdir hefjast á Vatnsstíg

Vatnsstígur á milli Laugavegs og Hverfisgötu verður göngugata að framkvæmdum loknum.
Teikning af göturými og húsum sitt hvorum megin við.

Framkvæmdir eru að hefjast á Vatnsstíg á milli Laugavegs og Hverfisgötu en gatan verður göngugata að framkvæmdum loknum. Reykjavíkurborg og Veitur vinna saman að því að endurnýja innviði og umhverfi. Áætlað er að framkvæmdum ljúki í lok sumars.

Reykjavíkurborg jarðvegsskiptir í götunni og leggur nýtt yfirborð með hellulögnum og gróðurbeðum. Framkvæmdirnar eru í samvinnu við Veitur, sem leggja nýjar lagnir í fráveitu, hitaveitu, vatnsveitu og rafveitu. 

Endurhönnnun í takt við umhverfið

Teikning af göturými með tré, húsum og fólki.

Mikil uppbygging hefur átt sér stað við austari hlið götunnar. Þar er lítið torgsvæði innan lóðar sem opnast mót vestri og út í göturýmið en samráð hefur verið haft við uppbyggingaraðila varðandi hönnun þess þannig að úr verði samfella í ásýnd og yfirbragði.

Einnig verður lýsing uppfærð með ljósastaurum sem eru lægri en nú eru þarna í takt við önnur svæði í miðborginni. Gert er ráð fyrir auknum gróðri við götuna og blágrænum ofanvatnslausnum. Þær eru leið til að veita ofanvatni í jarðveg á náttúrulegan hátt, eins og með því að hafa ekki allt yfirborðið hellulagt heldur bæta við beðum sem vatni verður beint í.

Samráð og virkt samtal við hagsmunaaðila

Í undirbúningsferlinu hefur verið haft samráð við hagsmunaaðila. Áhersla verður lögð á góða upplýsingamiðlun til nærumhverfis framkvæmdarinnar á meðan þær standa yfir og allt gert til að hagsmunaaðilar og íbúar verði fyrir sem minnstum óþægindum.

Aðgengi á framkvæmdatíma

Á verktímanum verður lokað fyrir bílaumferð, en aðgengi gangandi og hjólandi vegfarenda verður tryggt allan tímann. Áhersla er lögð á öryggi vegfarenda og starfsfólks.