Vatnsstígur - Endurnýjun frá Laugavegi að Hverfisgötu
Verkkaupar eru Reykjavíkurborg og Veitur.
Myndir
Hvað verður gert?
Jarðvinna:
Jarðvegsskipta á í götunni og því töluverður uppgröftur sem leiðir til þess að lokað verður á umferð bíla um götuna á framkvæmdatíma. Líklegt er að fleyga þurfi töluvert af klöpp. Aðgengi gangandi að lóðum og inngöngum verður tryggt.
Veitur:
Gatan verður upphituð og snjóbræðsla lögð í allt göturýmið. Borgarlýsing verður uppfærð; nýir götuljósastrengir, stólpar og lampar. Lögð verður tvöföld fráveita sem tengd verður núverandi fráveitukerfi í Laugavegi og Hverfisgötu. Lagðar verða nýjar kaldavatnslagnir og hitaveitulagnir. Rafveita verður uppfærð að einhverju leiti.
Yfirborðsfrágangur:
Nýtt yfirborð götu verður hellulagt ásamt gróðurbeðum og blágrænum ofanvatnslausnum. Gatan verður göngugata en aðgengi bíla að lóðum verður tryggt.
Hvernig gengur?
Janúar 2025
Þann 9. janúar 2025 heimilaði borgarráð umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir vegna endurgerðar Vatnsstígs. Útboð til framkvæmda er nú í gangi og verða tilboð opnuð í lok janúar. Eftirlit með framkvæmdum verður einnig boðið út í janúar. Samið hefur verið við Fornleifastofnun Íslands um sérstakt eftirlit tengt menningarminjum vegna jarðvegsrasks.
Áætlað er að verktaki hafi aðstöðu og vinnubúðir á lóð við Skúlagötu 11. Verkinu verður skipt niður í þrjá megin áfanga. Til að tryggja aðgengi íbúa og þjónustuaðila að öllum inngöngum á verktíma verður þessum þremur áföngum skipt frekar niður á verktíma í samráði við eftirlit og verkkaupa. Áætlun framkvæmda má sjá á mynd úr teiknisetti hér að ofan og er eftirfarandi:
- Áfangi 1 - Vatnsstígur og Laugavegur - frá 17. mars til 4. maí 2025 (7 vikur)
- Jarðvegsskipti, fráveita og vatnsveita
- Áfangi 2 - Vatnsstígur og Laugavegur - frá 5. maí til 22. júní 2025 (7 vikur)
- Jarðvegsskipti, hitaveita, snjóbræðslustofn og rafmagn
- Áfangi 3 - Vatnsstígur, Laugavegur og Hverfisgata - frá 23. júní til 22. ágúst (10 vikur)
- Snjóbræðsla og yfirborðsfrágangur
Ágúst 2024
Verkkaupar hafa í samvinnu ákveðið að fresta útboði á verkinu. Verkhönnun tók lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir og spilaði sumarfrí bæði ráðgjafa og verkkaupa aðeins inn í. Því var það metið þannig að ekki þótti skynsamlegt að hefja framkvæmdir á þessu ári því óvissa var með það að ná að klára lagnavinnu þeirra veitna sem fara í götustæði ásamt tilheyrandi jarðvinnu.
Stefnt er að bjóða verkið út í haust og að framkvæmdir hefjist þegar veður leyfir á nýju ári.
Júní 2024
Verkhönnun er í gangi. Þegar henni lýkur verður verkið boðið út til framkvæmda. Stefnt er á að framkvæmdir hefjist eftir Menningarnótt og ljúki að mestu leyti á þessu ári. Vonandi verður gróðursetning nánast það eina sem teygir sig inn í 2025.