Fjögur þúsund störf í lífvísindum

Störf í lífvísindum

Lífvísindaiðnaður á Íslandi er farinn að taka á sig afgerandi mynd og með þróun á nýrri tækni innan lífvísinda eru nýir möguleikar að koma inn á sjónarsviðið.  Dr. Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch segir að árlega myndi fyrirtæki í þessari grein umtalsverðar tekjur og skapi yfir fjögur þúsund sérfræðistörf. 

Lífvísindaþorpið í Vatnsmýri

Sandra Mjöll fjallar um Lífvísindaþorpið í Vatnsmýri á árlegum kynningarfundi borgarstjóra -  Athafnaborgin, föstudaginn 10. október nk.  Sandra Mjöll hefur kortlagt stöðu fyrirtækja í þessari grein fyrir Íslandsstofu og markaðsverkefnið Reykjavík Science City, með það að markmiði að kynna og auka sýnileika íslenskra lífvísinda erlendis. 

Í heildina eru um 130 fyrirtæki í þessari grein og eru flest þeirra í Reykjavík og nágrenni. Þau mynda ásamt háskólunum, Landspítalanum og Vísindagörðum Háskóla Íslands óformlegan lífvísindaklasa. Alls eru yfir 4.000 störf í þessari grein. 

Fjöldi fyrirtækja í  líf og heilbrigðisvísindum

 

Iðnaðurinn á Íslandi fór að taka á sig mynd upp úr aldamótum og hefur verið í örum vexti undanfarin ár, sérstaklega stafrænar lausnir til að efla heilsu,“ segir Sandra. Meðalaldur íslenskra fyrirtækja í greininni er um 12 ár og oft er talið að það taki um 10 – 15 ár fyrir fyrirtæki innan lífvísinda að koma vöru á markað. Því má ætla að lífvísindageirinn á Íslandi sé á mikilvægum tímapunkti þar sem verðmætt hugverk kemst brátt í hagnýtingu sé haldið rétt á spilunum.

Styrkir skila sér 35-falt til baka

Sandra bendir á mikilvægi þess að hjálpa litlu fyrirtækjunum af sprotastigi og yfir í vöxt svo þau geti skapað störf og tekjur. 

„Það hefur sýnt sig og sannað að opinberar fjárfestingar í lífvísindum skila sér margfalt til baka. Þegar teknar eru saman heildarfjárhæðir allra styrkja sem núverandi fyrirtæki geirans hafa hlotið úr samkeppnissjóðum undanfarin 20 ár, sést að fyrirtæki í lífvísindum á Íslandi skila þeirri upphæð 35 falt til baka á hverju ári í formi veltu,“ segir í samantekt Söndru. 

Hún bendir á að sá opinberi stuðningur sem hafi gefið besta raun í nágrannalöndum sé skýr stefna yfirvalda, aðgengi að fjármagni í gegnum samkeppnissjóði, samstarf hins opinbera við einkageirann, uppbygging innviða, skýr umgjörð um klasa og skattaívilnanir. „Ísland stendur frammi fyrir miklum tækifærum, en til að efla líkur á árangri er mikilvægt að aðilar innan lífvísinda nýti samlegðaráhrif sín á milli og eigi í góðu samtali við stjórnvöld um framgang lífvísinda á Íslandi,“ segir Sandra. 

Byggja upp alþjóðlegt tengslanet

Íslandsstofa mun nýta og byggja á niðurstöðum skýrslunnar í markaðssetningu og uppbyggingu alþjóðlegs tengslanets, meðal annars með þátttöku í viðburðum erlendis og framleiðslu kynningarefnis um íslensk lífvísindi.

„Það er einstakt að sjá hversu hratt lífvísindageirinn á Íslandi hefur vaxið. Við sjáum mikla möguleika í að tengja íslenska nýsköpun við alþjóðlega samstarfsaðila og fjárfesta. Kortlagningin sem Sandra vann er mikilvægt verkfæri til að sýna þessa stöðu og byggja ofan á með markaðsaðgerðum,“ segir Erna Björnsdóttir, fagstjóri hugvits og tækni hjá Íslandsstofu.

Tengt efni