„Er glöð og jákvæð eftir að vera í unglingasmiðjunni“
Í unglingasmiðjunum Stíg og Tröð, sem Reykjavíkurborg starfrækir, er markvisst ýtt undir og unnið með sjálfstraust og félagsfærni ungmenna. Ný könnun sem gerð var meðal forsjáraðila þátttakenda í smiðjunum sýnir mikla ánægju með þær.
Öruggur vettvangur fyrir unglinga
Unglingasmiðjurnar Stígur og Tröð eru öruggur vettvangur fyrir unglinga á aldrinum 13–16 ára til að stíga út fyrir þægindarammann og æfa sig í samskiptum við jafningja, styrkja sjálfsmynd sína, tjá sig af einlægni, setja sig í spor annarra og læra að treysta. Brúin er svo unglingasmiðja sem er sérstaklega ætluð ungmennum á aldrinum 16–18 ára.
Könnunin var gerð í maí síðastliðnum en hún var send með tölvupósti á forráðamenn þeirra tuttugu og fimm ungmenna sem voru á þeim tíma þátttakendur í Stíg og Tröð. Fimmtán forráðamenn svöruðu könnuninni og var svarhlutfall því 60%. Svarendum bar öllum saman um að þátttaka í unglingasmiðjunum hafi haft áhrif á félagslega virkni ungmennanna. Nær öll sögðust hafa fundið jákvæðar breytingar í fari barnsins eftir að það hóf þátttöku í unglingasmiðjunum. Þá sögðu allir svarendur líklegt eða mjög líklegt að þeir myndu mæla með unglingasmiðjunum fyrir aðra foreldra.
Ánægja með samskipti við starfsfólk
Öll þau sem svöruðu því játandi að hafa verið í samskiptum við starfsfólk unglingasmiðjanna höfðu mjög góða eða frekar góða reynslu af þeim samskiptum. Í unglingasmiðjunum starfar hópur fólks með afar fjölbreyttan bakgrunn. Í hópnum eru meðal annars tómstunda- og félagsmálafræðingar, sálfræðingur, félagsráðgjafi, listmenntað fólk og nemar í greinum sem fjalla meðal annars um félagslega einangrun hjá ungmennum. Katerina Inga Antonsdóttir, forstöðumaður unglingasmiðjanna, er með grunnpróf í sálfræði og er að ljúka meistaragráðu í lýðheilsuvísindum. Hún hefur líka mikla reynslu af störfum í félagsmiðstöðvum ungmenna.
Forsenda fyrir þátttöku er að ungmennið vilji taka þátt
Það eru ráðgjafar á miðstöðvum Reykjavíkurborgar eða hjá Barnavernd Reykjavíkur sem hafa það hlutverk að sækja um þátttöku í unglingasmiðjum fyrir hönd forráðamanna og ungmennanna. Forsenda þess að umsókn sé samþykkt er að ungmennið sjálft samþykki þátttöku. Katerina segir að stundum hjálpi til að ungmennin komi fyrst í heimsókn, hitti starfsfólk og kynni sér dagskrána: „Það getur virkað fráhrindandi fyrir þau að taka þátt í „félagslegu úrræði“ en þegar þau koma og sjá aðstæður fá þau betri tilfinningu fyrir því hvað við erum að gera. Þá eru þau oft fljót að láta til leiðast.“
Öruggt rými númer 1, 2 og 3
Katerina segir eitt af mikilvægustu hlutverkum unglingasmiðjanna að skapa öruggt rými, þar sem ungmennin fá margskonar tækifæri til að taka þátt í félagslegum samskiptum við jafningja og fá þar rými til að gera mistök og læra af þeim. Hún bætir við: „Þau koma til okkar úr alls konar áttum og með misjafna reynslu að baki.“
„Sum eru að koma úr mikilli einangrun og skólaforðun. Önnur eru virk í skólanum en eiga erfitt með að halda í félagsleg tengsl og viðhalda vinskap. Aðstæður og þarfir eru ólíkar og við erum þess vegna með einstaklingsmiðaða nálgun fyrir hvert og eitt og byggjum hóp í kringum þeirra þarfir. Markmiðið er að styrkja þeirra sjálfsmynd, sjálfstraust, félagsfærni og trú á eigin getu þannig þau geti tekið þátt í annarri félagslegri virkni á sínum forsendum, eins og til dæmis félagsmiðstöðvastarfi.“
Vinsælt að spila og taka þátt í listrænum verkefnum
Í unglingasmiðjunum hittast ungmenni tvisvar í viku, eitt stutt kvöld og eitt langt kvöld. Lengra kvöldið hefst með því að hópurinn fer saman í matvöruverslun og kaupir í matinn. Svo eldar hópurinn máltíð sem þau hafa komið sér saman um. Dagskrá kvöldanna er margvísleg og fer eftir óskum ungmennanna sjálfra en þau sjá sjálf um að setja hana saman í samstarfi við starfsfólk. Vinsælt er að spila og vinna listræn verkefni af ýmsu tagi. Oft er farið út fyrir aðstöðuna til að gera eitthvað skemmtilegt saman, eins og að fara í pílu. „Stundum fáum við líka einstaklinga til að koma og kenna þeim eitthvað. Um daginn fengum við til dæmis Lóu Hjálmtýsdóttur teiknara til að vera með teiknimyndasmiðju fyrir þau, sem var mjög gaman,“ segir Katerina.
Nokkur dæmi um áhrif unglingasmiðjanna samkvæmt foreldrum:
„Félagsleg færni hefur batnað.“
„ Vinátta við jafnaldra, tilhlökkun til einhvers. Allt jákvæð áhrif og ég (faðir) og barnið mitt erum að því sem ég best veit mjög ánægðir.“
„Er glöð og jákvæð eftir að vera í unglingasmiðjunni.“
„Það er margt sem hefur áhrif á minn ungling en kannski það sem hafði bestu áhrifin var þegar var farið í skotæfingar og bogaæfingar.“
Þessu vildu foreldrar meðal annars koma á framfæri:
„Ég vildi óska að það væri meiri aðstoð fyrir krakka sem eiga erfitt með íslenskuna.“
„Ég get bara hrósað starfsfólkinu í einu og öllu.“
„Erum ánægð með starfið og að vel hefur verið tekið á þeim málum sem hafa komið upp.“
Þróun þjónustu byggir á könnunum meðal notenda hennar
Unglingasmiðjurnar heyra undir Keðjuna, þar sem stuðningsþjónusta fyrir börn og fjölskyldur í Reykjavík er skipulögð og þróuð. Könnunin var unnin af teymi árangurs- og gæðamats á velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Í allri þjónustu velferðarsviðs er lögð áherslu á að gera reglulega kannanir, með það að markmiði að þróa þjónustuna og bæta hana.