Deiliskipulag fyrir Borgarlínu í auglýsingu

Borgarlínan

Svona gæti borgarlínustöð við Hátún litið út. Mynd/Verkefnastofa Borgarlínu
teikning af hátúni

Þrjár deiliskipulagstillögur fyrir Borgarlínu eru nú í auglýsingu, fyrir Nauthólsveg, Laugaveg frá Hallarmúla að Hlemmi og Ártúnshöfða 2 (hluta Stórhöfða). Tillögurnar eru hluti af fyrstu lotu Borgarlínu sem nær frá Hamraborg til Ártúnshöfða. Tilgangurinn er að innleiða Borgarlínu inn í deiliskipulag í samræmi við forhönnun, rammahluta aðalskipulags og umhverfismat.

Markmiðið er að koma innviðum Borgarlínu fyrir í almannarýminu í sem mestri sátt við nærumhverfið. Öll lotan er samtals 14,5 kílómetrar en samhliða þessum framkvæmdum verða lagðir 18,2 kílómetrar af hjólastígum og 9,1 kílómetri af göngustígum.

Deiliskipulag Borgarlínu í Reykjavík er skipt niður í nokkra hluta þar sem leiðin liggur um mörg ólík svæði, hverfi og ólíkar deiliskipulagsáætlanir. Heildarmyndin lögð fram í rammahluta Aðalskipulags Reykjavíkur og heildaráhrifin kynnt í umhverfismati. Haldinn var opinn kynningarfundur vegna þessa í janúar og er upptaka af fundinum aðgengileg á vef Reykjavíkurborgar.

Tilgangur og markmið deiliskipulags Borgarlínu

  • staðsetja sérrými og aðstöðu fyrir Borgarlínu.
  • staðsetja biðstöðvar, aðkomusvæði og nærumhverfi þeirra.
  • staðsetja hjólastíga meðfram sérrými Borgarlínu.
  • staðsetja svigrúm fyrir gróður, safnrásir regnvatns og götugögn.
  • bæta aðkomu hjólandi og gangandi vegfarenda.
  • huga að viðeigandi aðlögun borgarrýmisins.
  • setja fram megin hönnunarreglur.
  • samræma deiliskipulag við hönnun Borgarlínu.

Nauthólsvegur

  • Stöð sunnan við gatnamótin við Flugvallarveg.
  • 12 vagnar í hvora átt á hámarksklukkustund.
  • Verkhönnun er hafin, áætlað að ljúki í apríl 2025.
  • Framkvæmdir áætlaðar 2025 – 2026.
  • Borgarlínan keyrir í miðjunni á sérakreinum
  • Hjólastígar beggja vegna
  • Gönguleiðir og tengingar við stíga

Laugavegur

  • Stöð vestan við gatnamótin við Hátún.
  • 26 vagnar í hvora átt á hámarksklukkustund.
  • Verkhönnun áætluð á árinu.
  • Framkvæmdir áætlaðar 2026-2027.
  • Borgarlínan keyrir í miðjunni á sérakreinum.
  • Hjólastígar beggja vegna, stígurinn norðan megin verður tvöfaldur.
  • Gönguleiðir og tengingar við stíga

Ártúnshöfði

  • Stöð neðarlega, við gatnamótin við Sævarhöfða
  • 32 vagnar í hvora átt á hámarksklukkustund
  • Borgarlínan keyrir í miðjunni á sérakreinum
  • Hjólastígar beggja vegna, samsíða göngustíg

Deiliskipulagstillögurnar hafa verið kynntar fyrir viðeigandi íbúaráðum og geta þau sem vilja kynna sér málið nánar skoðað upptöku af kynningunum hér fyrir neðan. Deiliskipulagstillögur fyrir Laugaveg og Nauthólsveg voru kynntar íbúaráðum miðborgar og Hlíða og Laugardals á fundi í lok janúar og tillagan fyrir Ártúnshöfða var kynnt íbúaráðum Grafarvogs og Árbæjar á fundi fyrr í mánuðinum. Báðir fundirnir hefjast á þessum kynningum.

Opið fyrir athugasemdir

Opið er fyrir athugasemdir á tillögunum fyrir Laugaveg og Nauthólsveg til 20. febrúar og Ártúnshöfða til 6. mars. Íbúar eru hvattir til að kynna sér málið nánar í skipulagsgáttinni.

Tenglar