Breytt deiliskipulag við Suðurhóla samþykkt
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur hefur samþykkt breytingu á deiliskipulagi við Suðurhóla í Breiðholti sem felur í sér nýja íbúðabyggð með áherslu á fjölskylduvænar íbúðir í raðhúsum sem og tvíbýlishús með minni íbúðum.
Skipulagssvæðið er 1,2 hektarar að stærð og gert er ráð fyrir um 40 íbúðum í tveggja til þriggja hæða húsum. Bílakjallari er undir hluta svæðisins sem þjónar öllum íbúðum og gert er ráð fyrir eitt bílastæði á íbúð. Auk þess eru átta bílastæði við vistgötu sem gengur gegnum svæðið. Skipulagið leggur mikla áherslu á fjölbreytt græn svæði allt frá einkagörðum, sameiginlegum görðum og görðum í borgarlandi sem tilheyra hverfinu ásamt tveimur leikvöllum. Heildarbyggingarmagn er um 7.800 fermetrar.
Helstu breytingar frá fyrri tillögu eru að íbúðir fækka úr 42 í 40 og eru þá bílastæðin 49 nú en voru áður 53. Þá færist fyrirhuguð byggð og gata um fimm metra fjær Suðurhólum 35 til að móta grænt rými milli nærliggjandi byggðar og nýju byggðarinnar sem eykur birtuskilyrði og lífsgæði íbúa.
Breytingar gerðar í kjölfar auglýsingar í samráðsgátt
Tillagan var auglýst í samráðsgátt og bárust alls 17 athugasemdir, þar af 16 frá íbúum og ein frá opinberum umsagnaraðila. Þær lutu meðal annars að bílastæðum, umferð, birtu og áhrifum á græn svæði. Í kjölfarið voru gerðar nokkrar breytingar á tillögunni, meðal annars færsla á innkeyrslu og nýrri götu, mótun græns svæðis milli húsa og aukin áhersla á gróður og líffræðilega fjölbreytni.
Í skipulaginu er jafnframt kveðið á um að hluti núverandi leiksvæða verði nýttur áfram og að fjöldi trjáa verði aukinn verulega á borgarlandi.
Uppbyggingin í Suðurhólum er hluti af áframhaldandi uppbyggingu í Breiðholti þar sem lögð er áhersla á fjölbreytta íbúðagerð, bætt umhverfi og góð tengsl við nærumhverfi og græn svæði.