Fjölgun íbúða og fjölbreyttari íbúðasamsetning í Breiðholti

Í Krummahólum er lagt til að byggðar verði sex nýjar íbúðir og að þær verða í formi rað- og parhúsa á tveimur hæðum þar sem áhersla er lögð á fjölskylduvænar íbúðir.
Í Krummahólum er lagt til að byggðar verði sex nýjar íbúðir og að þær verða í formi rað- og parhúsa á tveimur hæðum þar sem áhersla er lögð á fjölskylduvænar íbúðir.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar í gær voru kynnt áform um fjölgun íbúða í Breiðholti í tengslum við uppbyggingu í grónum hverfum borgarinnar.

Lóðartillögurnar er framhald af vinnu hverfisskipulags sem samþykkt var árið 2022. Í Breiðholti er stefnt að fjölbreyttari íbúðasamsetningu með áherslu á fjölskylduíbúðir eftir þarfagreiningu á svæðinu, en verkefnið er hluti af stærra átaki Reykjavíkurborgar sem miðar að því að flýta uppbyggingu um allt borgarsvæðið og mæta brýnni þörf fyrir húsnæði. 

Fjörutíu og tvær nýjar íbúðir við Suðurhóla 

Í Suðurhólum er gert ráð fyrir byggingu 42 nýrra íbúða, raðhúsabyggðar og lítilla fjölbýla. Tillagan gerir ráð fyrir lágreistri byggð á tveimur til þremur hæðum sem fellur vel inn í umhverfið. Áhersla er á fjölskylduvænar íbúðir með góðum útirýmum og sérafnotasvæðum til suðurs. Miðað er við að íbúðir séu fjölbreyttar að gerð með meðalstærðum 120-148 m2. Á milli raðhúsanna verður inngarður í sameign fyrir íbúa ásamt leikvelli í sameign sem snýr að vistgötu á borgarlandi. 

Lóð fyrir íbúðarbyggð er samtals 5.095 m² að stærð, með byggingarmagni alls 7.125 m². Innan skipulagssvæðisins er einnig borgarland alls 6.940 m² og þar verður vistgata, fjölbreytt græn svæði með leikvelli og göngustígum og er áhersla lögð á blágrænar ofanvatnslausnir við útfærslu svæðisins. Fjöldi trjáa verður aukinn verulega á borgarlandi. Fjölbreyttur gróður í regnbeðum, votlendi og trjárækt mun auka líffræðilegan fjölbreytileika svæðisins.

Ný innkeyrsla og útkeyrsla verður inn á svæðið frá Suðurhólum. Bílastæði fyrir íbúa er í bílageymslu sem er undir nýrri byggð að hluta til og er unnin inn í landslagið. Bílastæði fyrir hreyfihamlaða og gesti verða staðsett meðfram vistgötu. Uppbyggingin tengist vel við nærumhverfi, skóla og þjónustu og fellur að staðaranda svæðisins. 

Sex nýjar íbúðir við Krummahóla 

Á lóð við Krummahóla sem skilgreint er í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 sem íbúðarsvæði og nú er stórbílastæði og opið svæði, er lagt til að minnka byggingarmagn, íbúðafjölda og lóðarstærð frá þeim heimildum sem hverfisskipulagsuppdráttur gerir ráð fyrir. Lagt er til að byggðar verði sex nýjar íbúðir í stað tólf og að þær verða í formi rað- og parhúsa á tveimur hæðum þar sem áhersla er lögð á fjölskylduvænar íbúðir. Byggingarreitir verða tveir í stað eins vegna kvaða um lagnir sem liggja í jörðu og ganga í gegnum byggingarlóð. Lögð er áhersla á vistvæna hönnun og að byggðin falli vel að núverandi byggð með það að leiðarljósi að skapa fallega götumynd.  Samkvæmt nýju deiliskipulagi verður byggingarmagn allt að 810 m² en er í dag 1472 m² samkvæmt hverfisskipulaguppdrætti. Gert er ráð fyrir einu bílastæði fyrir hverja íbúð ásamt einu stæði sem er í sameign alla íbúa lóðarinnar. 
 

Sextán íbúðir við Austurberg og Hraunberg 

Við gatnamót Austurbergs og Hraunbergs, þar sem nú er grasbakki, er fyrirhugað að reisa nýtt fjölnota hús á þremur hæðum. Tillagan leggur áherslu á að minnka byggingarmagn og lækka nýtingarhlutfall lóðar sem er í gildi samkvæmt hverfisskipulagsuppdrætti frá 2022. Á jarðhæð, að horni Austurbergs og Hraunbergs, verður gert ráð fyrir verslunarrými eða annarri þjónustu sem nýtist íbúum hverfisins og eflir samfélagslega tengingu svæðisins. Á efri hæðum hússins verða 16 íbúðir af fjölbreyttri stærð, þar á meðal rúmgóðar fjölskylduíbúðir, allt að 130 m² að stærð. 

Bílastæði verða staðsett í bílastæðahúsi innan byggingarreitsins og ofan á því verður sameiginlegt garðrými fyrir íbúa hússins, en nýtist einnig íbúum Austurbergs 28. Stærð og lögun garðs ákvarðast af afstöðu byggingar við nærliggjandi byggð sem og mælikvarði og form byggingar. Hönnun skipulagsins miðar að því að nýta landið á hagkvæman hátt, bæta götumyndina og styrkja byggðarmynstur svæðisins. Lóðin er innan miðsvæðis sem skilgreint er í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Í hverfisskipulagi er fyrirhugað að Austurberg breytist í borgargötu með rými fyrir fjölbreytta samgöngumöguleika svo sem borgarlínu,hjóla og göngustíga. Deiliskipulagið tekur mið af þessum breytingum og er byggingarreitur dregin til baka frá lóðarmörkum til þess að skapa rými fyrir nýjar stíga sem og útisvæði á jarðhæð hússins við horn Austurbergs og Hraunbergs. 

Heildarbyggingarmagn tillögu er áætlað 3.537 m² og nýtingarhlutfall allt að 1,8 en var samkvæmt hverfisskipulagsuppdrætti 6.400 m² og nýtingarhlutfall var 3,85.

Samráð við íbúa og hagaðila 

Verkefnið er unnið í samráði við íbúa og hagaðila í Breiðholti. Áhersla hefur verið lögð á að kalla fram sjónarmið þeirra sem vel þekkja hverfið og tryggja að uppbyggingin taki mið af þörfum og væntingum samfélagsins á svæðinu. Kynningarfundir og samtöl við íbúa nærliggjandi húsa hafa átt sér stað og nærumhverfið því upplýst um tillögurnar. 

Stuðlar að fjölbreyttari íbúðasamsetningu 

Með framkvæmdunum verður stigið mikilvægt skref í átt að markmiðum uppbyggingar í grónum hverfum og nýting borgarlands og innviða verður aukin og  græn svæði styrkt. Breytingarnar stuðla einnig að fjölbreyttari stærð íbúða í hverfinu. Við skoðun á stærð íbúða út frá herbergjafjölda innan Efra-Breiðholts þótti mikilvægt að auka við fjölskylduvænar íbúðir til að fjölga barnafjölskyldum innan hverfisins. Því var áhersla lögð á að fjölga þriggja til fimm herbergja íbúðum.

Unnið verður að því að uppbyggingin styðji við líffræðilega fjölbreytni og græn svæði, bæði innan og utan uppbyggingarsvæða. Áhersla verður lögð á vistvæna hönnun og byggingarmáta með lágmörkun kolefnisspors, blágrænum ofanvatnslausnum og fjölbreyttri gróðurþekju.