Austurstræti verður göngugata

Búið er að merkja svæðið með göngugötubogum og setja upp gróðurker til að skapa grænni ásýnd á svæðinu.
Fólk á gangi á götu, gróður í kerjum.

Austurstræti frá Pósthússtræti og Veltusund verða frá og með deginum í dag varanlegar göngugötur. Þetta þýðir að samfellt göngugötusvæði verður frá Lækjartorgi að Ingólfstorgi. Breytingin er í samræmi við umferðarskipulag Kvosarinnar, sem samþykkt var árið 2020. Búið er að merkja svæðið með göngugötubogum og setja upp gróðurker til að skapa grænni ásýnd á svæðinu. 

Breytingin var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar í sumar og hefur verið auglýst í Stjórnartíðindum, búið er að leita samþykkis lögreglu og tekur þetta nú gildi þar sem umferðarmerkin eru komin upp.

Frekari breytingar standa til á svæðinu

Til stendur að fara í frekari breytingar á þessu svæði. Forhönnun á göngugötu Austurstrætis er lokið og sömuleiðis á Lækjartorgi og hefur hönnunin verið kynnt. Reykjavíkurborg bíður eftir að komast í verkhönnun og framkvæmd á þessu svæði. Verkefnið er í bið á meðan Veitur vinna ofanflóðamat á Kvosinni, sem getur haft nokkur áhrif á hönnun þessara svæða.

Markmið breytinganna er að stuðla að bættu aðgengi og öryggi gangandi vegfarenda, hreyfihamlaðra og þjónustuaðila ásamt því að auðga mannlíf og vöxt miðborgarinnar. Samkvæmt reglulegri könnun Maskínu fyrir Reykjavíkurborg er mikill meirihluti borgarbúa jákvæður í garð göngugatna í miðborg Reykjavíkur. Jákvæðni hefur aukist gagnvart göngugötum og neikvæðum fækkað á síðustu árum og sömuleiðis hefur þeim fjölgað sem telja að göngugötusvæðin megi vera stærri.

Samkvæmt umferðarskipulag Kvosarinnar verður kjarni Kvosarinnar að göngugötusvæði en aðliggjandi götur verða vistgötur. Utan með svæðinu verða hefðbundnar umferðargötur. Á vistgötum og á jaðri göngugötusvæðisins er gert ráð fyrir stæðum fyrir vöruafgreiðslu en innan göngugötusvæðisins verður vöruafgreiðsla bundin við ákveðinn tíma dagsins.

Vörulosun tryggð og neyðarakstur

Undanþegin banni við akstri á göngugötum, umfram þau sem tiltekin eru í umferðarlögum eins og handhafar stæðiskorta hreyfihamlaðra, verður vörulosun klukkan 07-11 á virkum dögum og klukkan 08-11 á laugardögum og sunnudögum. Þá hafa viðbragðsaðilar eins og lögregla, sjúkraflutningar og slökkvilið óskertan aðgang að göngugötusvæðum borgarinnar.

Vistgata er gata þar sem gangandi vegfarendur eru í forgrunni. Vélknúnum ökutækjum er heimilt að aka á að hámarki 15 km/klst hraða og ber að sýna gangandi vegfarendum sérstaka tillitssemi og að víkja fyrir þeim.