Árið í Tilraunaborgum

Við Reykjavíkurtjörn

Tilraunaborgir er tveggja ára rannsóknar- og nýsköpunarverkefni leitt af Reykjavíkurborg, sem snýr að venjum og hindrunum íbúa og fyrirtækja í borginni hvað varðar samgöngur og flokkun úrgangs. Á haustmánuðum var verkefnið hálfnað og er því kjörið að líta um öxl á þessum tímapunkti en margt hefur verið gert á fyrsta árinu. 

Byrjað var á að framkvæma spurningakönnun þar sem íbúar voru spurðir út í venjur og hindranir tengdar samgöngum og flokkun. Þátttaka í könnuninni var langt umfram væntingar og verða niðurstöður nýttar til að greina áskoranirnar sem mæta íbúum og skoða hvað megi betur fara. Þetta er í takt við megintilgang verkefnisins, sem er að greina venjur og hindranir íbúa og fyrirtækja til að nýta græna ferðamáta og flokkunarkerfi og til að þróa, prófa og leggja mat á aðferðir og lausir sem styðja við breyttar venjur. 

Kolefnishlutleysi fyrir árið 2030

Síðast en ekki síst er verkefninu ætlað að styðja við markmið Reykjavíkurborgar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2030. Niðurstöður vinnustofu með þátttakendum loftslagsborgarsamnings Reykjavíkurborgar voru mikilvægt innlegg til að ákvarða fyrstu skref í vegferðinni að kolefnishlutleysi fyrir árið 2030. 

Áhersla hefur verið lögð á samstarf milli evrópskra borga með því markmiði að miðla þekkingu. Sú þekking og reynsla sem ávinnst í verkefninu er einnig miðlað með öðrum borgum.  Reykjavíkurborg var pöruð sérstaklega við Jakobstad í Finnlandi sem svokölluð „tvíburaborg".

Sjálfbærnifræðsludagur fyrir kennara

Haldinn var sjálfbærnifræðsludagur fyrir kennara á haustmisseri. Viðburðurinn var tilraunaverkefni og samstarf umhverfis- og skipulagssviðs annars vegar og skóla- og frístundasviðs hins vegar. Markmið með deginum var að auka vitund um sjálfbærnimál og sýna fjölbreyttar leiðir til að fjalla um sjálfbærni gegnum sköpunargleði, gagnrýna hugsun, virka þátttöku, listir og bókmenntir. Um 300 kennarar í sjö skólum, Vesturbæjarskóla, Austurbæjarskóla, Hlíðaskóla, Háteigsskóla, Hagaskóla, Grandaskóla og Melaskóla, tóku þátt í fræðsludeginum og voru viðtökur góðar.

Verkefnið var samstarfsverkefni borgarinnar og Háskóla Íslands þar sem fræðifólk úr ólíkum deildum háskólans hélt fræðsluna. Það voru þau Katrín Ólafsdóttir, lektor á menntavísindasviði, Ole Martin Sandberg, nýdoktor á hugvísindasviði og Auður Aðalsteinsdóttir, forstöðukona rannsóknarseturs HÍ í Þingeyjarsveit.

Fjallað var um sjálfbærni út frá loftslagsmálum, heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, jafnrétti, lýðræði, skapandi hugsun, listum og bókmenntum og hvernig hægt er að tengja sjálfbærni inn í allar faggreinar.