
Lögð er áhersla á sjálfbærni og að stuðla að jákvæðum áhrifum skemmtiferðaskipa til framtíðar, í nýrri stefnu um þolmörk og móttöku skemmtiferðaskipa í Reykjavík. Margt hefur áunnist í lágmörkun umhverfisáhrifa og ekki er gert ráð fyrir fjölgun skipa eða farþega á næstu árum.
Vorið 2024 var samþykkt verkefnatillaga um stefnu og þolmörk vegna móttöku skemmtiferðaskipa í Reykjavík og skipan stýrihóps sem heldur utan um verkefnið. Hópurinn hefur nú skilað stefnuramma til ársins 2030 sem tilgreinir framtíðarsýn þar sem sjálfbærni er lykilþáttur. Með sjálfbærni að leiðarljósi er horft til þess að stuðla að jákvæðum áhrifum skemmtiferðaskipa og byggir stefnan á fjórum sjálfbærnivíddum: efnahag, samfélagi, gestum og umhverfi. Skýrsla stýrihópsins var afgreidd í borgarráði í dag. Þaðan fer hún til meðferðar forsætisnefndar sem vísar henni til borgarstjórnar. Skýrslan er sameiginlegt stefnuskjal helstu hagaðila og nýtist sem grunnur við frekari skilgreiningu aðgerða og við álagsstýringu. Meðal annars var horft til Græna plans Reykjavíkurborgar, auk þess sem stefnan hefur beina vísun í aðgerð C.7 í ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda. Var stefnan unnin að ósk Reykjavíkurborgar í samvinnu við Faxaflóahafnir og framkvæmdaraðili verkefnisins er Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins.
Stefnan byggir í grunninn á að mikilvægt sé að fylgjast með og meta þann fjölda skipa og farþega sem svæðið getur tekið á móti án þess að valda óásættanlegum áhrifum á umhverfi, samfélag og innviði. Skilgreining á því getur hins vegar breyst í takti við breytingar á innviðum og lagt er til að stefnuramminn verði endurskoðaður reglulega. Framtíðarsýnin er að áfangastaðurinn Reykjavík sé leiðandi í sjálfbærri þróun, framúrskarandi þjónustu og einstakri náttúru- og menningarupplifun þegar kemur að móttöku skemmtiferðaskipa á norðurslóðum. Með áherslu á sjálfbæra þróun stefnir Reykjavík að því að skapa jafnvægi milli efnahagslegs ávinnings og umhverfisverndar, þar sem hagsmunir íbúa, gesta og fyrirtækja eru hafðir að leiðarljósi.
"Með áherslu á sjálfbæra þróun stefnir Reykjavík að því að skapa jafnvægi milli efnahagslegs ávinnings og umhverfisverndar"
Farþegum fjölgi ekki en hlutfall skiptifarþega aukist
Stefnan byggir einnig á því að ekki er gert ráð fyrir fjölgun skipa eða farþega á næstu árum. Á árinu 2024 tóku Faxaflóahafnir á móti 259 skipum, sem felur ekki í sér aukningu milli ára. Bókunarstaðan fram í tímann gefur til kynna að ekki verði heldur um aukningu að ræða á komandi árum og er viðmiðið að fjöldi skipa og farþega haldi sér á svipuðum stað og síðustu tvö ár, með um 230-260 skipakomur og 250-320 þúsund farþega. Hins vegar er gert ráð fyrir að aukning verði í hlutdeild farþegaskipta. Gestir sem fljúga til eða frá landinu, gista í landinu og nýta afþreyingu fyrir eða eftir ferð með skemmtiferðaskipi, skilja eftir sig mun meiri verðmæti en aðrir skipafarþegar.
Umtalsverður fjárhagslegur ávinningur
Niðurstöður skýrslunnar sýna að fjárhagslegur ávinningur íslenska hagkerfisins af komum skemmtiferðaskipa er umtalsverður. Efnahagslegt umfang er metið á 37,2 milljarða króna árið 2023 og tekjur hafna á Íslandi vegna skemmtiferðaskipa voru 3,4 milljarðar sama ár. Heildarneysla farþega skemmtiferðaskipa er 22-30 milljarðar en mikill munur er á útgjöldum almennra skipafarþega og skiptifarþega, sem eyða 2,8 sinnum meira en þeir fyrrnefndu. Gert er ráð fyrir að móttaka farþega skemmtiferðaskipa í Reykjavík verði stórbætt með byggingu nýrrar fjölnota farþegamiðstöðvar við Skarfabakka sem mun geta sinnt 3500 til 4000 farþegum á dag.

Ýmislegt gert til að lágmarka umhverfisáhrif
Mörg hafa lýst yfir áhyggjum af mengun frá skemmtiferðaskipum og fjallað er um þetta í skýrslunni. Á vefsíðu Umhverfisstofnunar kemur fram að vöktun á loftgæðum fyrir árið 2023 sýnir að í öllum tilvikum eru mælingar undir skilgreindum viðmiðunarmörkum, líkt og árið áður. Þá sjást engin tengsl styrks brennisteinsdíoxíðs, sem verður til við bruna á eldsneyti, við viðveru skipa við Skarfabakka.
Margt hefur áunnist undanfarin ár hjá skipaútgerðum til að lágmarka neikvæð áhrif skemmtiferðaskipa á umhverfið. Sem dæmi má nefna að mörg skip eru með sérstakar síur til varnar því að sót berist út í andrúmsloftið. Ný lofthreinsikerfi farþegaskipa minnka losun brennisteinstvíoxíðs um 98% og sífellt fleiri farþegaskip eru útbúin sólarrafhlöðum. Þá leggja útgerðir áherslu á að skipin losi hvergi ómeðhöndlað skólp og að þau flokki allan úrgang sem komið er til móttökuaðila í höfn. Faxaflóahafnir tóku árið 2023 upp umhverfiseinkunnarkerfi að norskri fyrirmynd, Environmental Port Index (EPI), með ívilnun eða álögum hafnargjalda eftir umhverfishegðun skipa á hafnarsvæði. Markmiðið með þessu fjárhagslega hvatakerfi er að hvetja til komu umhverfisvænni og sjálfbærari skemmtiferðaskipa. Faxaflóahafnir voru fyrstu hafnir utan Noregs sem tóku upp þetta kerfi og eru þær einnig í hópi fyrstu hafna heims sem geta landtengt skemmtiferðaskip með rafmagni, sem er stór áfangi fyrir umhverfismál Reykjavíkurborgar. Miðað við núverandi innviði geta Faxaflóahafnir tekið á móti 10-12 þúsund farþegum á dag, eða að hámarki fimm skipum og með skýra framtíðarsýn sem byggir á sjálfbærni má innleiða álagsstýringu á áhrifaríkan hátt.
"Markmiðið með þessu fjárhagslega hvatakerfi er að hvetja til komu umhverfisvænni og sjálfbærari skemmtiferðaskipa"
Mælst til þolmarkagreiningar fyrir álagssvæði
Stýrihópurinn kemur með ábendingar til stjórnvalda sem fela í sér að gerð verði þolmarkagreining fyrir landið í heild varðandi komur ferðamanna. Einnig meðal annars að stjórnvöld og Almannavarnir geri og kynni viðbragðsáætlanir vegna skemmtiferðaskipa, að fylgst verði með því að skip fylgi reglum um starfsumhverfi starfsfólks og að skattspor við móttöku skemmtiferðaskipa og áhrif þess á efnahag verði greint.
Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, fagnar aðkomu hagaðila að stefnumótuninni. „Stefnan setur starfseminni mörk sem við hyggjust miða við í okkar áætlunum og markaðssetningu. Aðgerðir okkar á undanförnum árum, sem flestar miða að betri loftgæðum eða bættri þjónustu, rýma vel við þessa stefnu og við hyggjumst halda áfram á þeirri braut,“ segir hann. „Helstu fjárfestingar á næstu árum fyrir þennan geira eru áframhaldandi uppbygging landtenginga, bygging miðstöðvar fyrir farþegaskipti og þróun upplýsingatæknilausna sem bætir nýtingu innviða og auðveldar samfélaginu að auka viðskipti við útgerðir skemmtiferðaskipa.“
"Aðgerðir okkar á undanförnum árum, sem flestar miða að betri loftgæðum eða bættri þjónustu, rýma vel við þessa stefnu"
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður stýrihópsins, segir stefnuna mæta áhyggjum Reykvíkinga með áherslu á minni mengun, aukna sjálfbærni og viðmið um fjölda skemmtiferðaskipa. „Vinnan dró einnig fram ýmislegt sem hópurinn vill leggja áherslu á og beina til stjórnvalda, svo sem að gerðar verði viðeigandi viðbragðsáætlanir fyrir landið í heild og að skoða verði álag og þolmörk í samhengi við fjölda ferðamanna á til dæmis höfuðborgarsvæðinu og helstu áfangastöðum á suðvesturhorninu á sama degi,“ segir Þórdís.
