Borgarráð - Fundur nr. 5771

Borgarráð - Fundur nr. 5771

Borgarráð

Ár 2025, fimmtudaginn 30. janúar, var haldinn 5771. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:00. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Heiða Björg Hilmisdóttir, Alexandra Briem, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Hildur Björnsdóttir, Kjartan Magnússon, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Helga Þórðardóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Björg Magnúsdóttir, Ebba Schram, Eiríkur Búi Halldórsson og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 27. janúar 2025, þar sem óskað er eftir að borgarráð taki til afgreiðslu stefnu um þolmörk og móttöku skemmtiferðaskipa í Reykjavík, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.
    Vísað til forsætisnefndar.

    Inga Hlín Pálsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti ásamt borgarfulltrúunum Ástu Þórdísi Skjalddal Guðjónsdóttur, Friðjóni R. Friðjónssyni, Hjálmari Sveinssyni, Sabine Leskopf og Skúla Helgasyni. MSS25010171

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í nýrri stefnu um þolmörk og móttöku skemmtiferðaskipa er lögð er áhersla á sjálfbærni og að stuðla að jákvæðum áhrifum skemmtiferðaskipa til framtíðar. Stefnan mætir áhyggjum Reykvíkinga með áherslu á minni mengun, aukna sjálfbærni og viðmið um fjölda skemmtiferðaskipa. Framtíðarsýnin er að áfangastaðurinn Reykjavík sé leiðandi í sjálfbærri þróun, framúrskarandi þjónustu og einstakri náttúru- og menningarupplifun þegar kemur að móttöku skemmtiferðaskipa á norðurslóðum. Með áherslu á sjálfbæra þróun stefnir Reykjavík að því að skapa jafnvægi milli efnahagslegs ávinnings og umhverfisverndar, þar sem hagsmunir íbúa, gesta og fyrirtækja eru hafðir að leiðarljósi. Þá dró vinnan fram ýmislegt sem við viljum leggja áherslu á til framtíðar og beina þeim skilaboðum til stjórnvalda að gerðar verði viðeigandi viðbragðsáætlanir fyrir áfangastaði í heild og að skoða verði álag og þolmörk í samhengi við fjölda ferðamanna á til dæmis höfuðborgarsvæðinu og helstu áfangastöðum á suðvesturhorninu á sama degi. Við þökkum stýrihóp og verkefnastjórn fyrir góða vinnu. Hér er Reykjavíkurborg komin með ítarlegar upplýsingar um skemmtiferðaskip og þá hluta ferðaþjónustunnar.

    Borgarráðsfulltrúi Sosíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sósíalistaflokksins er sammála því að vísa málinu til borgarstjórnar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Umræða um fjölda skemmtiferðaskipa í Reykjavík hefur oft verið nokkuð neikvæð. Helstu áhyggjur fólks eru vegna umhverfisáhrifa og álags á innviði borgarinnar. Þessi umræða hefur leitt til þess að sumir móttökustaðir hafa sett takmarkanir á fjölda farþega sem mega koma í land á sama tíma til að draga úr álagi á innviði. Það er því afskaplega ánægjulegt að mótuð hafi verið stefna um þolmörk og móttöku skemmtiferðaskipa í Reykjavík. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því þessum áfanga um mótun stefnu sem byggir í grunninn á mikilvægi þess að fylgst sé með fjölda skipa og farþega sem svæðið getur tekið á móti án þess að valda óásættanlegum áhrifum á umhverfi, samfélag og innviði. Fjöldi gagnlegra upplýsinga eru í stefnuskjalinu sem mun koma ferðaþjónustunni að góðum notum. Það kom fulltrúa Flokks fólksins á óvart hversu mikill fjárhagslegur ávinningur er af komu skemmtiferðaskipa á íslenskt hagkerfi. Árið 2023 var efnahagslegt umfang vegna skemmtiferðaskipa metið á 37,2 milljarða króna.

    Fylgigögn

  2. Fram fer umræða um stöðu kjarasamningsviðræðna sveitarfélaganna við stéttarfélög kennara.

    Lóa Birna Birgisdóttir og Kolbeinn Guðmundsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. MSS25010040

  3. Lagt fram bréf Samgöngustofu, dags. 9. janúar 2025, varðandi öryggisráðstafanir vegna áhrifa hindrana á notkun flugbrautar 13/31 á Reykjavíkurflugvelli, til Isavia Innanlandsflugvalla og bréf Reykjavíkurborgar, dags. 10. janúar 2025, vegna sama máls. Jafnframt lagt fram bréf Samgöngustofu, dags. 17. janúar 2025, varðandi tilmæli Samgöngustofu vegna hindrana sem brjóta í bága við skipulagsreglur Reykjavíkurflugvallar.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Einnig taka sæti með rafrænum hætti Glóey Helgudóttir Finnsdóttir og Ámundi Brynjólfsson. USK23080128

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavíkurborg hefur sýnt skýran samstarfsvilja til þess að tryggja flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli, nú eins og undanfarin ár. Enda gegnir flugvöllurinn mikilvægu samgönguhlutverki til og frá borginni. Einn liður í því hefur verið að fella tré í Öskjuhlíð sem hefur þurft að fella til að tryggja að flugumferð sé óhindruð og öryggi farþega tryggt. Borgin leggur áherslu á að vanda þarf til verka og uppfylla öll lagaskilyrði þar er svæðið nýtur hverfisverndar sem borgargarður og er á náttúruminjaskrá. Í samvinnu við Isavia og Samgöngustofu er hafin vinna við gerð aðgerðaáætlunar sem tekur til alls þessa sem og þess hvernig hægt er að byggja upp svæðið til framtíðar til að tryggja möguleika íbúa að njóta áfram útivistar á þessum dýrmæta stað í borgarlandinu.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Óviðunandi er að starfsemi Reykjavíkurflugvallar sé stefnt í hættu vegna skeytingarleysis Reykjavíkurborgar í öryggismálum flugvallarins. Samgöngustofa hefur mælt fyrir um að annarri af tveimur flugbrautum Reykjavíkurflugvallar skuli lokað, þar sem borgin hafi ekki fellt þau tré í Öskjuhlíð, sem nauðsynlegt sé í þágu flugöryggis. Með þessu skeytingarleysi vinnur meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar enn og aftur gegn Reykjavíkurflugvelli. Það er pólitísk ákvörðun að bregðast ekki við versnandi aðflugsskilyrðum og þrengja þannig enn frekar að flugvellinum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til á fundi borgarráðs 13. júlí 2023 að Reykjavíkurborg stæði við skuldbindingar sínar um trjágrisjun í Öskjuhlíð í þágu flugöryggis. Tillögunni var vísað til umhverfis- og skipulagsráðs og þaðan til skrifstofu umhverfisgæða. Rúmum mánuði síðar, 17. ágúst 2023, vísaði borgarráð erindi Isavia um sama mál einnig til umsagnar umhverfis- og skipulagsráðs. Þrátt fyrir að átján mánuðir séu liðnir frá því að umrætt erindi Isavia og tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins voru lögð fram hefur engin umsögn um málið verið kynnt á vettvangi Reykjavíkurborgar. Þó hefur komið fram í fréttum að fulltrúar borgarinnar eigi í einhvers konar „samtölum“ um málið við Isavia og Samgöngustofu. Hafa þau ráð borgarinnar sem hafa málið með höndum ekki verið upplýst um þessi samskipti, sem er óviðunandi stjórnsýsla.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að fá innsýn í samskipti borgarstjóra og Samgöngustofu um trjáfellingar í Öskjuhlíð. Það er augljóst af þessum bréfaskriftum að báðir aðilar hafa áhyggjur af flugöryggi og líta það alvarlegum augum ef loka þurfi flugbrautum vegna trjágróðurs. Fram kemur í erindi frá Isavia að í undangengnu samkomulagi milli ríkis og borgar um framtíð og hlutverk Reykjavíkurflugvallar hefur verið ákvæði um að fara þurfi í trjáfellingar í Öskjuhlíð en Reykjavíkurborg hefur aðeins framkvæmt lítinn hluta af því verkefni. Nú er svo komið að trjágróður í Öskjuhlíð er farinn að verða raunveruleg öryggisógn gagnvart loftförum í aðflugi að braut 31 og brottflugi frá braut 13. Þessi staða hefur valdið miklu umróti og skapað óöryggi hjá þjóðinni. Fólk óttast sérstaklega að ekki verði hægt að sinna sjúkraflugi og að það muni hafa áhrif á batahorfur og lífslíkur sjúklinga. Samkvæmt landslögum eiga landsmenn jafnan rétt á aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Til að tryggja jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu er nauðsynlegt að hafa öruggt sjúkraflug sem hægt er að treysta. Í ljósi alvarleika málsins þá hvetur Flokkur fólksins alla málsaðila, Reykjavíkurborg og önnur yfirvöld, að leysa málið sem fyrst.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. janúar 2025, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 22. janúar 2025 á auglýsingu á tillögu um breytingu á deiliskipulagi Laugavegs 168-176 vegna lóðarinnar nr. 176 við Laugaveg, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Einnig tekur Ámundi Brynjólfsson sæti með rafrænum hætti. USK24100337

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 27. janúar 2025, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir vegna viðbyggingar og lóðar ásamt breytingum í eldra húsi leikskólans Funaborgar í Grafarvogi, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Einnig tekur Ámundi Brynjólfsson sæti með rafrænum hætti. USK25010288

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er um að ræða byggingu á nýju 950 m2 húsnæði við leikskólann Funaborg, en í verkefninu er einnig gert ráð fyrir breytingum á eldra húsi og framkvæmdum sem breyta bæði lóð og aðkomu að húsunum. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist vorið 2025 og verði lokið á árinu 2026. Þessi framkvæmd er hluti af metnaðarfullri uppbyggingaráætlun á leikskólahúsnæði sem nú stendur yfir víðs vegar um borgina. Það er mikið kappsmál fyrir borgarstjórn að tryggja að uppbygging leikskóla standi undir þeirri fjölgun plássa sem nauðsynleg er.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins telur afar brýnt að fjölga leikskólaplássum í borginni. Það er því fagnaðarefni að byggja eigi viðbyggingu við leikskólann Funaborg í Grafarvogi. Framkvæmdin felst í smíði á 950 m2 viðbyggingu og framkvæmdum á lóð leikskólans Funaborg, Funafold 42. Breytingar í eldra húsi fela m.a. í sér aðlögun að viðbyggingu og lagfæringar í aðgengismálum. Þá verður eldhús og starfsmannarými flutt yfir í viðbyggingu. Leikskólinn stækkar um fjórar deildir og leikskólabörnum fjölgar um 70. Vonandi munu áætlanir ganga eftir en gert er ráð fyrir að hefja framkvæmdir vorið 2025 og er stefnt að því þeim verði lokið á árinu 2026.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 27. janúar 2025, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir vegna endurnýjunar á þaki miðálmu Vesturbæjarskóla, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. Einnig tekur Ámundi Brynjólfsson sæti með rafrænum hætti. USK25010287

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 30. janúar 2025, varðandi tíma- og verkáætlun vegna undirbúnings og afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2026-2030, ásamt fylgiskjölum.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS25010023

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 27. janúar 2025, varðandi áætlaðar tímasetningar vegna mánaðar- og árshlutauppgjöra á árinu 2025, ásamt fylgiskjölum.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS24120008 

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 27. janúar 2025, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að vísa til borgarstjórnar nýrri samþykkt um gatnagerðargjald í Reykjavík. Komi til samþykktar á nýrri samþykkt um gatnagerðargjald fellur núgildandi samþykkt nr. 725/2007 með síðari breytingum samhliða úr gildi, með tveimur undantekningum sem koma fram í ákvæðum I og II til bráðabrigða í nýrri samþykkt. Ný samþykkt felur í sér að gatnagerðargjald verður eftirfarandi sem hlutfall af verðgrunni sem Hagstofa Íslands uppfærir með mældri breytingu vísitölu byggingakostnaðar í næstliðnum mánuði: a) Fjölbýlishús 10% b) Annað íbúðarhúsnæði en fjölbýlishús 15% c) Bílastæðahús ofanjarðar og hjólaskýli 5% d) Aðrar byggingar en samkvæmt a), b) og c) lið 13%. Skrifstofu borgarstjóra og borgarritara verði falið að annast ferli vegna birtingar nýrrar samþykktar í Stjórnartíðindum. Ný samþykkt tekur gildi við birtingu í Stjórnartíðindum með þeirri undantekningu sem fram kemur í ákvæði II til bráðabirgða er varðar gildistöku á breyttu hlutfalli álagningar gatnagerðargjalda af verðlagsgrunni Hagstofu Íslands.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Vísað til borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir, Oddrún Helga Oddsdóttir og Jóhanna Kristrún Birgisdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS24100046

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er mikilvægt að gatnagerðargjöld standi undir þeim kostnaði sem fellur á sveitarfélag vegna uppbyggingar og viðhalds nauðsynlegra innviða. Of mörg sveitarfélög, bæði hérlendis og erlendis, hafa búið sér til ósjálfbært sjálfskaparvíti með því að byggja of mikið, oft of dreift, án þess að tryggja sér nægar tekjur til að standa undir þeim kostnaði sem fellur til vegna innviða. Það getur búið til hættulegar aðstæður sem getur verið mjög erfitt að vinna úr. Það er nauðsynlegt að álagning gatnagerðargjalda og annarra innviðagjalda séu sanngjörn, dragi ekki úr hvötum til að byggja, en tryggi jafnframt nauðsynlega innviði og sjálfbærni þeirrar uppbyggingar sem ráðist er í. Því ber að halda til haga að gatnagerðargjöld Reykjavíkur hafa verið í flestum flokkum verið jafnhá eða lægri en í öðrum sveitarfélögum á landinu. Þrátt fyrir þessa breytingu verða gatnagerðargjöld Reykjavíkur ennþá að mestu leyti jafnhá eða lægri en hjá öðrum sveitarfélögum, þó finna megi einstaka dæmi um lægri gjöld í einhverjum flokkum hjá einstaka sveitarfélögum.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fyrirliggjandi tillaga felur í sér mikla hækkun gatnagerðargjalda og er í raun viðbótarskattur á húsbyggjendur. Með því er verið að hækka byggingarkostnað, sem líklegt er að hafi neikvæð áhrif á húsnæðismarkaðinn í borginni.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins telur þessa nýju samþykkt um gatnagerðargjöld í Reykjavík í raun eðlilega. Þarna er verið að breyta álagningargrunni og samræma orðalag og efnistök við lögin. Einnig kemur fram í samþykkt að þrátt fyrir hækkun standi gatnagerðargjöld varla undir kostnaði borgarinnar vegna viðhalds gatna og gatnagerðar. Í samanburði gatnagerðargjalda á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu virðist Reykjavíkurborg vera á svipuðum stað og önnur sveitarfélög.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 27. janúar 2025, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að heimila Leigufélagi aldraðra hses. að selja allar íbúðir félagins að Vatnsholti 1 og 3 til Brákar íbúðafélags hses. og að Brák íbúðafélag hses. yfirtaki þau stofnframlög sem Reykjavíkurborg veitti Leigufélagi aldraðra við byggingu hússins. Reykjavíkurborg setur skilyrði fyrir þessari sölu að íbúðirnar verði vistaðar í sérdeild hjá Brák íbúðafélagi sem leigi eingöngu til tekju- og eignalítilla eldri borgara í Reykjavík sem uppfylla skilyrði um búsetu í almennum leiguíbúðum skv. lögum nr. 52/2016. Jafnframt leggur Reykjavíkurborg áherslu á samstarf um að velja umsækjendur til búsetu í íbúðunum til framtíðar. Gerður er fyrirvari við samþykkt borgarráðs um að breytingar á samþykktum Brákar íbúðafélags gangi eftir er varðar starfssvæði félagsins, þ.e. að það nái yfir allt landið að höfuðborgarsvæðinu meðtöldu og að ofangreind skilyrði Reykjavíkurborgar gangi jafnframt eftir. Fjármála- og áhættustýringarsviði er falið að fylgja því eftir að skilyrðin gangi eftir.

    Samþykkt. FAS24120007

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Verið er að heimila Leigufélagi aldraðra hses. að selja allar íbúðir félagsins að Vatnsholti 1 og 3 til Brákar íbúðafélags hses. og að Brák íbúðafélag hses. yfirtaki þau stofnframlög sem Reykjavíkurborg veitti félaginu við byggingu hússins. HMS hefur samþykkt söluna og er það mat HMS að ekki sé rekstrargrundvöllur fyrir íbúðunum innan Leigufélags aldraðra hses. Verði salan ekki samþykkt er hætt við því að íbúðirnar fari úr almenna íbúðarkerfinu sem mun valda raski á húsnæðisöryggi leigjenda íbúðanna. Fulltrúi Flokks fólksins er sérstaklega ánægður með að Reykjavíkurborg setji þau skilyrði sölu að íbúðirnar verði vistaðar í sérdeild hjá Brák íbúðafélagi sem leigi íbúðirnar eingöngu til tekju- og eignalítilla eldri borgara í Reykjavík sem uppfylla skilyrði um búsetu í almennum leiguíbúðum.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram minnisblað fjármálaskrifstofu, dags. 21. janúar 2025, varðandi álagningu fasteignagjalda fyrir árið 2024, ásamt fylgiskjölum.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS24100011 

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf menningar- og íþróttasviðs, dags. 27. janúar 2025, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 22. nóvember 2024 varðandi gjaldskrá meindýravarna Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum.
    Vísað til borgarstjórnar.

    Steinþór Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MIR24110007

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 27. janúar 2025, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs sama dag, á breytingu á reglum um leikskólaþjónustu ásamt breyttum reglum um leikskólaþjónustu og núgildandi reglum um leikskólaþjónustu, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir og Ólafur Brynjar Bjarkason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS25010095

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í reglunum kemur fram að umsókn um leikskóla borgarinnar fari fram í gegnum rafræna skráningar- og upplýsingakerfið Völu og að hægt sé að fá aðstoð við að fylla út rafræna umsókn um leikskóladvöl í öllum miðstöðvum borgarinnar og í Þjónustuveri Reykjavíkurborgar. Fulltrúi Sósíalista telur mikilvægt að það sé einnig valmöguleiki að geta lagt fram umsókn á pappír. Í reglum kemur fram að skilyrði fyrir leikskóladvöl barns er að foreldrar barnsins séu ekki í vanskilum við skóla- og frístundasvið vegna leikskólagjalda. Þó að ákveðinn verkferill sé til staðar um vangoldin gjöld og að foreldrar í vanskilum geti leitað úrlausna hjá félagsráðgjöfum á þjónustumiðstöðvum og sótt um aðstoð vegna greiðslu vangoldinna gjalda, þá telur fulltrúi Sósíalista mikilvægt að afnema skilyrðin um að foreldrar séu ekki í vanskilum, svo þau hafi ekki fráhrindandi áhrif þegar leitast er við að sækja um leikskóladvöl. Aðstæður foreldra geta verið alls konar og mikilvægt er að reglur séu ekki fráhrindandi hvað varðar leikskóladvöl barna. Ekki er fjallað um þetta í núverandi reglubreytingum en fulltrúi Sósíalista telur mikilvægt að gera breytingar þar á.

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 27. janúar 2025, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs sama dag, varðandi endurnýjun þjónustusamninga við sjálfstætt starfandi leikskóla, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir og Ólafur Brynjar Bjarkason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22100084

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samningsmarkmið fyrir samstarf við sjálfstætt starfandi leikskóla tóku gildi þann 1. janúar 2025 og eru niðurstöður ítarlegs samráðs og viðræðna. Þessi mikla vinna skilar hér sterkum grunni fyrir fjölbreytt leikskólastarf í borginni og gott samstarf við sjálfstætt starfandi leikskóla sem bjóða mikilvægt gæðastarf í þágu barna og fjölskyldna í borginni. Samstarfsnefndinni er ekki ætlað að breyta þeim niðurstöðum eða þeim markmiðum sem lagt er upp með heldur mun hún fylgja eftir innleiðingu á samþykktum samningsmarkmiðum varðandi innritun á grundvelli kennitalna barna og lögheimilis í Reykjavík og styðja skólana í því ferli á aðlögunartíma.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hinn 21. nóvember 2024 var samþykkt samhljóða í borgarráði að veita sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs heimild til að gera samninga við sjálfstætt starfandi leikskóla. Við þessa samþykkt í dag, um endurnýjun þjónustusamninga við sjálfstætt starfandi leikskóla í Reykjavík, vilja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja á það ríka áherslu að það getur verið málefnalegt, vegna sérstakra aðstæðna, bæði faglega og fjárhagslega, að vikið sé frá meginreglunni um að veiting leikskólaplássa fari eftir kennitöluröð umsækjenda. Frávik af slíku tagi eiga ekki síst við vegna reksturs sjálfstætt starfandi leikskóla sem teljast smáir. Kostur þess að hafa flóru sjálfstætt starfandi leikskóla er ótvíræður þar eð starfsemi þeirra ýtir undir fjölbreytni og aukna gerjun á þessu stigi menntakerfisins. Mikilvægt er því að sameiginleg nefnd frá skóla- og frístundasviði og Samtökum sjálfstæðra skóla, sem taka á til starfa eftir 15. apríl næstkomandi, móti sanngjörn og eðlileg viðmið um frávik frá áðurnefndri meginreglu um inntöku í leikskóla eftir kennitöluröð. 

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 27. janúar 2025, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs sama dag, varðandi breytingu á rekstrarleyfi Skerjagarðs ehf., ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir og Ólafur Brynjar Bjarkason taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS23080157

    Fylgigögn

  16. Lagt fram að nýju bréf velferðarsviðs, dags. 23. janúar 2025, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 15. janúar 2025 um að leiga Félagsbústaða verði hækkuð um 1,5% frá og með 1. maí 2025, sem samþykkt var og fært í trúnaðarbók borgarráðs, sbr. 15. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. janúar 2025.
    Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins.
    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. VEL25010021

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hefðu talið eðlilegra að fyrirliggjandi tillaga kæmi til samþykktar, samhliða formlegri ákvörðun um að ráðist yrði í algjöra endurskipulagningu á rekstri Félagsbústaða. Stjórn Félagsbústaða hefur þegar lýst þungum áhyggjum af rekstri félagsins, en í ársreikningi fyrir 2023 sagði eftirfarandi: „Langtímaáætlanir um rekstur og sjóðstreymi Félagsbústaða bera með sér að félagið mun ekki geta staðið undir aukinni greiðslubyrði lána sem tekin eru til fjármögnunar endurbóta og meiriháttar viðhalds eins og sakir standa“. Hefur stjórnin ítrekað kallað eftir viðbrögðum velferðarráðs Reykjavíkurborgar vegna málsins, án árangurs. Vinnubrögð meirihlutans í málinu hafa verið verulega ámælisverð en lengi hefur legið fyrir að bregðast þurfi við ósjálfbærum rekstri Félagsbústaða.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands lagði fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sósíalista samþykkir ekki hækkun á leigu hjá leigjendum Félagsbústaða. Um er að ræða leigjendur sem að stórum hluta hafa lítið á milli handanna enda um að ræða íbúðir ætlaðar þeim sem eru undir ákveðnum eigna- og tekjumörkum. Leigan hefur tekið mánaðarlegum breytingum í takt við breytingar á vísitölu neysluverðs, þrátt fyrir að tekjur leigjenda hafi ekki gert það. Það á ekki að vera hlutverk fátækra leigjenda að viðhalda rekstri félagsins, aðrar aðgerðir þurfa að koma til. Þá gengur ekki að draga úr kaupum á íbúðum líkt og gert er ráð fyrir hér þar sem margir eru í þörf fyrir húsnæði. Endurskoða þarf skipulag Félagsbústaða þannig að ekki verði gert ráð fyrir því að leigjendur beri einna helst ábyrgð á því að viðhalda fjárhagslegri sjálfbærni félagsins. Jákvætt er að verið sé að endurskoða viðskiptalíkanið.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram svohljóðandi bókun:

    Lagt er til að samþykkt verði að hækka leigu Félagsbústaða um 1,5% frá og með 1. maí 2025. Fulltrúi Flokks fólksins getur ekki samþykkt að hækka leigu Félagsbústaða enda munar um hverja krónu hjá þessum viðkvæma hópi. Finna þarf aðrar leiðir. Fulltrúi Flokks fólksins vill nefna að óhagnaðardrifin leigufélög í Reykjavík og Mosfellsbæ eru með lægra leiguverð en Félagsbústaðir. Hvað í rekstrinum gerir þeim kleift að hafa lægri leigu en Félagsbústaðir? Tekið er undir þá tillögu stýrihóps að viðskiptamódel Félagsbústaða verði endurskoðað. Óljóst er með öllu hvaða niðurstöður verða fundnar í þeim efnum og hvernig þær niðurstöður munu koma við leigjendur. Flokkur fólksins lagði til 5. desember sl. að fallið yrði alfarið frá leiguverðshækkunum hjá Félagsbústöðum og þess í stað yrðu fundnar mótvægisaðgerðir s.s. í formi styrkja til Félagsbústaða sem er bæði einfaldara og ódýrara fyrir borgina. Flokkur fólksins lagði til að setja 300 m.kr. til Félagsbústaða sem mótvægisaðgerð sem fjármögnuð yrði af liðnum ófyrirséð en því miður fékk sú tillaga ekki afgreiðslu í borgarráði. 

    Fylgigögn

  17. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 14. janúar 2025, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 15. janúar 2025, ásamt fylgiskjölum, sem samþykkt var og færð í trúnaðarbók borgarráðs, sbr. 8. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. janúar 2025:

    Lagt er til að borgarráð staðfesti samþykkt velferðarráðs frá 15. janúar sl. um að fela sviðsstjóra velferðarsviðs að láta framkvæma og útfæra breytingu á stjórnskipulagi málaflokks fatlaðs fólks. Breytingin felur í sér að fagleg og rekstrarleg stýring og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, n.t.t. búsetuþjónusta, stuðnings- og stoðþjónusta, vinna og virkni og NPA- og beingreiðslusamningar, verði á ábyrgð einnar starfseiningar í stað fjögurra líkt og nú er. Tilgangur breytinganna er að auka gæði þjónustu við fatlað fólk með því að einfalda stjórnskipulag, skýra verkaskiptingu, auka yfirsýn og eftirlit, einfalda verklag, draga úr töfum og einfalda ákvörðunartöku. Breytingin á að stuðla að aukinni skilvirkni við framkvæmd þjónustu með betri nýtingu fjármuna og mannauðs. Gert er ráð fyrir að breytingin taki gildi frá og með 1. febrúar 2025. Ráðgjöf við fatlað fólk og ýmis umsýsla, til að mynda vegna umsókna þjónustu, verður áfram á miðstöðvum.

    Greinargerð fylgdi tillögunni.

    Heiða Björg Hilmisdóttir og Rannveig Einarsdóttir tóku sæti á fundinum undir þessum lið. MSS25010084

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands lagði fram svohljóðandi bókun:

    Sósíalistar telja mikilvægt að hægt verði að taka tillit til mögulegra ábendinga sem kunna að koma frá starfsfólki í framlínu eftir samtal við það um breytingarnar. 

    Fylgigögn

  18. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags 27. janúar 2025, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að Reykjavíkurborg taki áfram þátt í markaðsverkefninu Inspired by Iceland Norður-Ameríka næstu þrjú árin, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    -     Kl. 11:45 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og tekur sæti með rafrænum hætti. MSS25010149

    Fylgigögn

  19. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 27. janúar 2025, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða auglýsingu um starf sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs, erindisbréf um skipan ráðgefandi hæfnisnefndar vegna ráðningar í starf sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs, auk áætlunar um ráðningarferil vegna starfs sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs. MSS25010170

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt. 
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Fylgigögn

  20. Lagt fram trúnaðarmerkt ársfjórðungslegt minnisblað borgarlögmanns um málaferli Reykjavíkurborgar. MSS25010172

  21. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-5931/2023 dags. 16. desember 2024. MSS23100062

  22. Lagt til að Dóra Björt Guðjónsdóttir taki sæti í stýrihóp um Evrópusamstarf um kolefnislausar og snjallar borgir 2030 í stað Dags B. Eggertssonar.
    Samþykkt. MSS21120238

  23. Lögð fram að nýju fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um skýrslu vegna Hvassahrauns, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. júní 2024. Einnig lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 28. janúar 2025. MSS24060063

    Fylgigögn

  24. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 29. janúar 2025
    3. liður fundargerðarinnar er staðfestur. MSS25010030

    Fylgigögn

  25. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Vesturbæjar frá 20. janúar 2025. MSS25010017

    Fylgigögn

  26. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 23. janúar 2025. MSS25010016

    Fylgigögn

  27. Lögð fram fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 15. janúar 2025. MSS25010026

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar:

    Í fundargerð kemur fram að forsvarsmenn hestamannafélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa átt í viðræðum við stjórnendur SORPU vegna hárrar gjaldskrár fyrir móttöku á hrossataði í Álfsnesi. Gjald fyrir hvert kíló af hrossataði er 25,68 krónur. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta líka mjög hátt skilagjald og skilur vel að forsvarsmenn hestamannafélaganna hafi fundið hrossataðinu annan farveg. Á hitt ber að líta að það hlýtur að vera mikilvægt að SORPA haldi sig við hófsamt gjald svo hún missi ekki góða viðskiptavini.

    Fylgigögn

  28. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 13 mál (MSS25010023, MSS25010023, MSS24010004, MSS25010150, MSS24100050, MSS25010045, MSS24100076, MSS24100076, MSS25010184, MSS25010185, MSS23080029, MSS25010186, MSS25010186). MSS25010057

    Fylgigögn

  29. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS25010062

    Fylgigögn

  30. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að leynd verði aflétt af skýrslu vinnuhóps um sjálfbærni og rekstur Félagsbústaða, sem skilað var í mars 2024. Vinnuhópinn skipuðu fulltrúar frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar, fjármála- og áhættustýringarsviði Reykjavíkurborgar og Félagsbústöðum. Eðlilegt er að skýrslan verði gerð opinber í ljósi mikilvægis félagsins, sem og í þágu upplýstrar umræðu um málefni þess.

    Frestað. MSS25010214

  31. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir því að greinargerð verði lögð fyrir borgarráð um afdrif þeirra tillagna sem lagðar voru fram á sameiginlegum fundi borgarstjórnar og Reykjavíkurráðs ungmenna 27. febrúar 2024. Í greinargerðinni komi fram með skýrum hætti með hvaða hætti viðkokmandi tillögur voru afgreiddar og hvort þær hafi komist efnislega til framkvæmdar. MSS25010215

  32. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir upplýsingum um fjárhagsleg áhrif fyrirliggjandi tillögu um hækkun gatnagerðargjalds í Reykjavík. Hver er áætlaður ábati Reykjavíkurborgar af hækkuninni á ársgrundvelli? Hversu hátt gatnagerðargjald er greitt af íbúð í eftirfarandi stærðarflokkum nú og hve hátt verður gjaldið ef tillagan nær fram að ganga: 60 fermetra íbúð? 90 fermetra íbúð? 120 fermetra raðhús/parhús? 160 fermetra raðhús/parhús? MSS25010216

  33. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir skýringum á því afhverju húsnæðiskostnaður þjónustu- og nýsköpunarsviðs hefur hækkað úr 985 milljónum árið 2020 yfir í rúmlega tvo milljarða í árslok 2024. Einnig vill fulltrúinn fá að vita hvort þarna gæti verið á ferðinni eitthvað annað en húsnæðiskostnaður. Ef svo er, gæti þá mögulega verið um endurgreiðslu á fjármögnun frá eignasjóði vegna einhverra verkefna sviðsins sem þarna er verið að skrá sem húsnæðiskostnað? Ef svo er, er óskað eftir yfirliti yfir öll þau verkefni sem eignasjóður hefur fjármagnað með þessum hætti frá árinu 2020 og í framhaldi hver sé þá heildarupphæð þessarar fjármögnunar eignasjóðs til sviðsins yfir sama tímabil. Ef þarna er ekki um að ræða endurgreiðslu á fjármögnun verkefna eða einhvers annars en húsnæðiskostnaðar, vill fulltrúinn fá að vita hvaða húsakostur það er sem sviðið er farið að borga slíkar upphæðir fyrir og til hvers hann er notaður.

    Greinargerð fylgir fyrirspurninni.

    Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs. MSS25010212

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 12:05

Heiða Björg Hilmisdóttir Alexandra Briem

Árelía Eydís Guðmundsdóttir Hildur Björnsdóttir

Kjartan Magnússon Sanna Magdalena Mörtudottir

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 30.01.2025 - prentvæn útgáfa