Aðgerðir gegn ofbeldi barna samþykktar einróma í borgarstjórn
Borgarstjórn samþykkti einróma fjölbreyttar tillögur borgarstjóra um forvarnir og aðgerðir gegn ofbeldi barna og ungmenna á fundi sínum í vikunni. Tillögurnar byggja á nýútkominni skýrslu sem er afrakstur vinnu stýrihóps um forvarnir og aðgerðir gegn ofbeldi barna og ungmenna.
Skýrslan byggir á ítarlegri greiningu, víðtæku samráði og mati á stöðu mála. Tillögur hennar snúa meðal annars að því hvernig best megi vinna með þeim sem beita börn og ungmenni ofbeldi og greina hvort og þá hvernig megi auka samstarf, bæði innan og utan borgar, með það að markmiði að bæta þjónustu við börn og ungmenni sem beitt eru ofbeldi.
Með tillögunum er lögð áhersla á heildstæða nálgun í forvörnum, snemmtæka íhlutun og viðbrögð þegar vandi er kominn upp, ásamt úrræðum fyrir flókin og alvarleg mál. Sérstök áhersla er lögð á börn og ungmenni í áhættuhópum, með barnvænni og áfallamiðaðri nálgun, samþættri þjónustu og auknu samstarfi milli kerfa.