Leggja til fjölda aðgerða til að sporna gegn ofbeldi barna og ungmenna
Fjölbreyttar tillögur um það hvernig megi vinna gegn ofbeldi barna og ungmenna er að finna í nýútkominni skýrslu sem kynnt var á fundi borgarráðs síðastliðinn fimmtudag. Skýrslan er afrakstur vinnu stýrihóps um forvarnir og aðgerðir gegn ofbeldi barna og ungmenna.
Borgarráð samþykkti þann 10. júlí að fela stýrihópnum að vinna skýrsluna og fólst vinnan meðal annars í því að kynna sér kortlagningu á þeim verkefnum sem borgin sinnir gegn ofbeldi, gera tillögur að því hvernig best megi vinna með þeim sem beita börn og ungmenni ofbeldi og greina hvort og þá hvernig megi auka samstarf á milli aðila, bæði innan og utan borgar, með það að augnamiði að bæta þjónustu við börn og ungmenni sem beitt eru ofbeldi.
Skýrsluna í heild og allar tillögurnar má lesa í fundargögnum borgarráðs. Þar eru jafnframt að finna kortlagningu á vinnu borgarinnar gegn ofbeldi og fleira efni.
Þjónusta fyrir börn er samkvæmt farsældarlögunum veitt á þremur stigum og er tillögum hópsins forgangsraðað innan þeirra: 1. Forvarnir og vinna á fyrsta stigi. 2. Viðbragð – vinna á öðru stigi. 3. Meðferð – Vinna á þriðja stigi.
Forvarnir og vinna á fyrsta stigi
Þrettán tillögur stýrihópsins eiga við um fyrsta stigið en undir það fellur grunnþjónusta við börn. Meðal annars er lagt til að innleitt verði skipulagt og markvisst fræðsluefni um ofbeldi fyrir allt starfsfólk leikskóla. Einnig er lagt til að stuðningur til foreldra leikskólabarna verði aukinn með innleiðingu uppeldisnámskeiðsins Föruneyti barna. Þá er lagt til að boðið verði upp á fjölbreytt virkniúrræði fyrir ungmenni á aldrinum 16–18 ára sem ekki eru í skóla, vinnu eða virkniþjálfun og að sumarstörf fyrir 17 ára ungmenni í viðkvæmri stöðu verði tryggð.
Viðbragð og vinna á öðru stigi
Á öðru stigi þjónustu er veittur einstaklingsbundinn og markviss stuðningur. Þjónusta á öðru stigi er veitt þegar úrræði á fyrsta stigi duga ekki til. Fjórar tillögur snúa að viðbragði og vinnu á öðru stigi. Sú fyrsta miðar að því að unnið verði að sértæku hópastarfi fyrir miðstig í samstarfi við grunnskóla, félagsmiðstöðvar og miðstöðvar. Önnur tillagan snýr að fjölgun úrræða fyrir börn sem beita ofbeldi. Þriðja tillagan er að stofnað verði stuðningsteymi vegna barna á flótta með mikla áfallasögu og sú fjórða að innleiða áfram tengsla- og áfallamiðaða nálgun með börnum og ungmennum.
Meðferð og vinna á þriðja stigi
Á þriðja stigi er veittur sérhæfðari stuðningur en á fyrri tveimur stigunum en barn sem nýtur þjónustu á því stigi hefur að jafnaði flókinn og fjölþættan vanda og mikla umönnunarþörf. Megintillaga hópsins felst í því að brugðist verði fyrr við áhættuhegðun ungmenna, í ljósi þess að vandi ungmenna er orðinn flóknari og alvarlegri en áður. Mál þróist oft hratt í alvarlega stöðu og erfitt reynist að ná utan um fjölskyldur. Því sé mikilvægt að skoða hvort auka þurfi úrræði á þriðja stigi þjónustu, til að mæta þessum vaxandi áskorunum.
Tillögunum vísað til viðeigandi sviða
Formaður stýrihópsins var Sabine Leskopf frá Samfylkingunni en í honum sátu jafnframt Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir frá Sósíalistaflokknum og Einar Þorsteinsson frá Framsóknarflokknum. Starfsmaður hópsins var Guðrún Halla Jónsdóttir, forvarnafulltrúi Reykjavíkurborgar.
Borgarráð samþykkti að vísa tillögum stýrihópsins til meðferðar skóla- og frístundaráðs, velferðarráðs og mannauðs- og starfsumhverfissviðs, eftir því sem við á. Fjármögnun einstakra verkefna tekur mið af fjárhagsáætlun viðkomandi sviða hverju sinni.