Stóraukin aðsókn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn, á sundstaði og Borgarsögusafn

Íþróttir og útivist Mannlíf

Geiturnar njóta vinsælda í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum enda gæfar og skemmtilegar. Róbert Reynisson
Fólk stendur við geitabúrið í Húsdýragarðinum

Aðsókn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn jókst verulega eða um rúmlega helming, fyrstu þrjá mánuði ársins, miðað við sama tíma í fyrra. Aðsókn í sundlaugar, á Ylströnd og í Borgarsögusafn jókst einnig mikið.

Tölur um gestafjölda á stofnunum menningar- og íþróttasviðs Reykjavíkurborgar á fyrsta ársfjórðungi sýna umtalsverða aukningu í notkun á þjónustu borgarinnar. Athygli vekur til að mynda að aðsókn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn jókst um rúmlega helming frá því í fyrra þegar rúmlega 12.700 manns sóttu garðinn fyrstu þrjá mánuði ársins, en gestir voru yfir 20.500 talsins janúar-mars á þessu ári. Sérstaka athygli vekur að á fimmtánda þúsund heimsóttu Fjölskyldu- og húsdýragarðinn í mars. Þá sóttu hátt í ellefu þúsund gestir garðinn heim í desember og ljóst að borgarbúar taka vel í nýjungar í þjónustu, á borð við Jóladalinn sem settur var upp í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum fyrir jólin.

Skór sundgesta við Breiðholtslaug, eldri borgarar í sundleikfimi í baksýn

Reykjavíkurborg býður upp á sundleikfimi sem hefur til að mynda verið vel sótt í Breiðholtslaug.

Gestum fjölgaði um 11% á sundstaði borgarinnar

Reykjavíkurborg rekur átta sundlaugar auk Ylstrandarinnar í Nauthólsvík og jókst aðsókn um 11% frá því í fyrra. Er þetta afar jákvætt enda gegna sundstaðirnir mikilvægu hlutverki fyrir andlega, líkamlega og félagslega heilsu fólks. Frítt er í sund fyrir eldri borgara og frá hausti árið 2022 hefur einnig verið frítt fyrir börn til 16 ára aldurs. Tæplega 632 þúsund gestir heimsóttu sundlaugar borgarinnar á fyrstu þremur mánuðum ársins. Mest var aðsóknin í Laugardalslaug í mars, eða 52.437 gestir.

Barnahornið á Landnámssýningunni í Aðalstræti

Barnahornið á Landnámssýningunni í Aðalstræti hefur mikið aðdráttarafl.

15% aukning á aðsókn í Borgarsögusafn

Borgarsögusafn miðlar fjölbreyttri sögu Reykjavíkur með ýmsum hætti en sýningarstaðir safnsins eru Árbæjarsafn, Landnámssýningin í Aðalstræti, Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Sjóminjasafnið í Reykjavík og Viðey. Aðsókn í Borgarsögusafn jókst um 15% á fyrstu mánuðum ársins.

Lítillega dró úr útlánum á Borgarbókasafni milli ára og gestafjöldi í Listasafn Reykjavíkur dróst saman um 16% frá fyrsta ársfjórðungi í fyrra. Tæplega 48 þúsund gestir heimsóttu starfsstaði Listasafnsins fyrstu þrjá mánuði þessa árs, en þeir eru Hafnarhús, Kjarvalsstaðir og Ásmundarsafn.

Aðsóknartölur 2023 og fyrsta ársfjórðungs 2024.

Fimm konur í sjónum í Nauthólsvík. Vetur en fallegt veður og sjórinn sléttur.

Ylströndin í Nauthólsvík er vel sótt allt árið.