Spennandi deiliskipulag samþykkt fyrir Vogabyggð 3

Skipulagsmál

Vogabyggð 3

Nýtt deiliskipulag fyrir Vogabyggð 3 hefur verið samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði. Markmið skipulagsins er að varðveita og styrkja hið heildstæða yfirbragð sem byggðin býr yfir í dag og stuðla að heilsteyptu umhverfi innan svæðisins í Kænuvogi, með áherslu á aukinn gróður og vandaða hönnun þegar byggt er við eða ofan á byggingar.

Hverfisvernd verður lögð á á samstæður húsa og heildir á skipulagssvæðinu. Borgarlína mun hafa áhrif á fyrirkomulag gatna við sunnanverðan Súðarvog og þar með á athafnasvæði framan við húshliðar að Súðarvogi. Borgarbragur og nálægð við náttúru mun einkenna svæðið.

Verður miðsvæði og blönduð byggð

Svæðið „Vogabyggð 3“ afmarkast af Dugguvogi til vesturs, Tranavogi til norðurs, Súðarvogi og strandsvæði Elliðaárvogs frá austur til suðurs. Í nýju deiliskipulagi felst breytt landnotkun frá því að vera iðnaðar- og athafnasvæði en verður nú miðsvæði og íbúðarbyggð.

Atvinnustarfsemi á svæðinu sem samræmist ekki íbúðabyggð þarf að víkja en henni verður þó gefið svigrúm til að bæta mengunarvarnir sínar. Einnig verður henni gefið tímarúm til að finna starfseminni betri staðsetningu.

Rík áhersla verður á fjölbreytta byggð, góð almenningsrými og tengsl við aðliggjandi útivistarsvæði. Þannig verður hverfið eftirsóttur valkostur fyrir fólk sem kýs að búa og starfa í umhverfi sem einkennist af borgarstemningu og náttúruupplifun.

Svæði fyrir íbúðir og vinnustofur

Skipulagssvæðið þróaðist í athafnasvæði upp úr miðri 20. öld. Þar byggðist upp fjölbreyttur iðnaður og atvinnurekstur. Upp úr síðustu aldamótum jókst ásókn í að nýta iðnaðarhúsnæði fyrir íbúðir og vinnustofur. Samhliða breyttri nýtingu húsnæðis dróst grófari atvinnustarfsemi saman. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 var skref tekið til að þetta gæti orðið að veruleika.

Deiliskipulagið var unnið eftir hugmyndasamkeppni og rammaskipulagi fyrir Vogabyggð. Áformin eru í takt við það markmið að þétta byggð, m.a. með endurnýtingu gamalla iðnaðarsvæða. Skipulagshöfundar eru JVST, Felixx og Teiknistofan Tröð. Skipulagssvæði Vogabyggðar er hluti af stærra þróunarsvæði við Elliðaárvogs og Ártúnshöfða.

Svipsterkt svæði við Vogana

Skipulagssvæðið er svipsterkt í landslagi sínu, einkum þegar horft er frá Ártúnshöfða í vesturátt. Þetta birtist einkum í samfelldri byggð þessa svæðis sem stendur tignarlega ofan við vogana.

Gatnakerfi mun í grunninn ekki breytast á skipulagssvæðinu en heimilað verður að breyta frágangi á götum, gangstéttum og bílastæðum. Þær breytingar verða gerðar að í nánu og góðu samstarfi við íbúa og eigendur á svæðinu.

Göngu- og hjólastígar

Svæðið nýtur góðs aðgengis að hjóla- og göngustígum sem og almenningssamgöngum. Heimilt verður að reisa einföld mannvirki til að geyma hjól og áhöld. Áhersla er lögð á að skapa aðlaðandi gönguleiðir ásvæðinu, m.a. með auknum gróðri í umhverfinu. Neðan við svæðið, í námunda við Vogana, er gert ráð fyrir hjólastíg sem liggur út á Geldingarnes.

Deiliskipulag gerir ekki ráð fyrir bílastæðum á lóðum en áætlað að fjöldi bílastæða verði nægur á svæðinu ef bættar almenningssamgöngur með tilkomu Borgarlínu eru teknar með í útreikninga.

Deiliskipulagstillagan var auglýst frá 22. desember 2022 til og með 28. febrúar 2023. Hún var kynnt hlutaðeigendum á fundi fyrr á þessu ári þar sem kallað var eftir viðbrögðum. Níu athugasemdir bárust og brugðist var við þeim með svörum og breytingum.

Þar kemur meðal annars fram að

  • Heimilt verður að lyfta upp þaki og skapa þannig eina hæð í viðbót.
  • Ákvæðum í nýju deiliskipulagi er ætlað að vernda heildaryfirbragð eldri byggðar í Vogabyggð 3 og tryggja samræmi í þróun hennar.
  • Telji aðilar þörf á að breyta húsnæði til að ná þeim markmiðum ber að sækja um byggingarleyfi fyrir þeim og ber að leita álits Minjastofnunar Íslands og Borgarsögusafns þar sem svæðið mun njóta hverfisverndar.
  • Áætlanir um legu Borgarlínu munu óhjákvæmilega hafa áhrif á fyrirkomulag gatna við sunnanverðan Súðarvog og þar með á athafnasvæði framan við húshliðar að Súðarvogi. Lega götunnar mun taka breytingum með tilkomu Borgarlínu án þess að rýra möguleika atvinnustarfsemi.

Málefnalegar athugasemdir bárust og var þeim svarað og komið til móts við þær sem hægt var og var tillagan samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði með þeim breytingum.