Nú hafa verið gefin út myndbönd sem fjalla um margar af helstu stefnum Reykjavíkur og tilgang þeirra. Myndböndin tilheyra Torginu, sem er nýtt stafrænt fræðslukerfi fyrir starfsfólk borgarinnar, en eru einnig aðgengileg fyrir öll sem vilja kynna sér málið.
Innan Reykjavíkur eru til ýmsar samþykktar stefnur, en þar er átt við tímasett skjal þar sem sett er fram hugmyndafræði, framtíðarsýn og markmið sem fylgt er eftir með mælikvörðum og fjármögnuðum aðgerðum. Velferðarstefnan er til að mynda hugsuð sem vegvísir fyrir borgarbúa og starfsfólk í velferðarþjónustu og samkvæmt stefnu í íþróttamálum er framtíðarsýnin sú að árið 2030 stundi sem flestir Reykvíkingar reglulega íþróttir, líkamsrækt eða aðra hreyfingu. Græna planið er heildarstefna Reykjavíkurborgar til ársins 2030, sóknaráætlun sem dregur saman á einn stað helstu lykilverkefni og grænar fjárfestingar í borginni og mannauðsstefna fjallar um hvernig Reykjavík ætlar að þróa og efla mannauðinn.
Búin hafa verið til myndbönd sem kynna stefnur borgarinnar og tilgang þeirra. Myndböndin eru á Torginu, sem er nýtt stafrænt fræðslukerfi fyrir starfsfólk Reykjavíkur. Torgið er mikilvægur áfangi í stafrænni vegferð borgarinnar og þar munu myndböndin birtast í sérsniðinni nýliðafræðslu sem tekur mið af því hvar fólk starfar.
Framfaraskref á stærsta vinnustað landsins
En aðeins nánar um Torgið. Torgið heldur utan um fræðslu og þjálfun starfsfólks, þar á meðal skyldufræðslu, nýliðaþjálfun og stjórnendaþjálfun. Í kerfinu getur starfsfólk sótt stafræna fræðslu á formi myndbanda eða texta, eða skráð sig í rauntímafræðslu sem ýmist fer fram með stað- eða fjarnámskeiðum. Torgið stórbætir aðgengi að fræðslu sem og eftirfylgni og yfirsýn stjórnenda. Reykjavíkurborg er stærsti vinnustaður landsins en hefur hingað til ekki haft aðgang að fræðslukerfi af þessu tagi og er því um að ræða mikið framfaraskref. Verkefnið er eitt af fjárfestingarverkefnum í stafrænni vegferð borgarinnar og því hluti af Græna planinu. Verkefnið er samvinnuverkefni þjónustu- og nýsköpunarsviðs og mannauðs- og starfsumhverfissviðs.
Torgið er aðeins opið starfsfólki Reykjavíkurborgar en myndböndin um stefnur borgarinnar eru öllum opin og hægt er að nálgast þau með íslenskum, enskum eða pólskum texta.