Búið að velja þær hugmyndir sem verða á kjörseðlum í kosningunum í Hverfið mitt næsta haust.
Eftir yfirferð hugmynda tók við uppstilling kjörseðla í öllum hverfum Reykjavíkur. Einungis hugmyndir sem uppfylltu reglur og skilyrði verkefnisins komust á kjörseðil síns hverfis.
Eiríkur Búi Halldórsson, verkefnisstjóri, segir að uppstilling kjörseðla hafi farið fram með nýjum hætti í ár.
„Við ákváðum að prufa nýja leið til að stilla upp hugmyndum á kjörseðli og þá kemst ákveðinn fjöldi hugmynda á kjörseðil út frá vinsældum í hugmyndasöfnun. Íbúaráð hverfanna fá svo tækifæri á að velja 10 hugmyndir til viðbótar“ segir Eiríkur.
Kjörseðlum fyrir Hverfið mitt er stillt upp með 25 hugmyndum í hverju hverfi Reykjavíkur, þar af 15 vinsælustu hugmyndirnar og svo 10 hugmyndir sem íbúaráð hvers hverfis valdi.
Meðal hugmynda sem verða í kosningu næsta haust eru útiklefar í Breiðholtslaug, útiæfingatæki í kringum Grafarvog, kastali í Hljómskálagarð og margt fleira skemmtilegt.
Á heimasíðu Reykjavíkurborgar er hægt að sjá þær hugmyndir sem verða á kjörseðli hvers hverfis Uppstilling kjörseðla – Hverfið mitt.
Næst tekur við frumhönnun hugmyndanna en í því felst að skrifa verkefnalýsingu og verðmerkja hugmyndirnar til að gefa rétta mynd af verkefninu fyrir kosninguna sem fram fer dagana 14. - 28. september 2023.