Ráðgjafahópur í verkefninu Fjölmenningarborgir undir Evrópuráði hefur tekið til starfa. Reykjavík á fulltrúa í hópnum, en honum er ætlað að auka skilvirkni og gagnsemi verkefnis um Fjölmenningarborgir svo árangur þess verði sem mestur.
Evrópuráðið var stofnað í kjölfar hörmunga síðari heimsstyrjaldarinnar og gerðist Ísland aðili að því árið 1950. Er því ætlað að efla samvinnu aðildarríkja meðal annars til að standa vörð um mannréttindi, styrkja lýðræðislega stjórnarhætti og efla mannleg gildi. Verkefnið Fjölmenningarborgir (e. Intercultural Cities programme, ICC) er rekið af Evrópuráðinu, en verkefnið styður borgir í að móta og innleiða virka fjölmenningarstefnu með inngildingu og samþættingu (e. inclusive integration) að markmiði. Hefur Reykjavík verið hluti af verkefninu frá árinu 2014.
„Vandinn með fjölmenningu er að fá hlutina til að virka í raun og veru“
Fyrr á þessu ári var stofnaður ráðgjafahópur fyrir verkefnið og kom hann saman í fyrsta sinn í sumar. Er honum meðal annars ætlað að yfirfara niðurstöður úttektar á ICC-verkefninu sem lauk í fyrra og gera tillögur að aðgerðum út frá henni. Markmiðið með vinnu hópsins er að gera ICC-verkefnið hagnýtara fyrir þátttökuborgir þess. „Við munum meta mögulegar aðgerðir og móta tillögur um hvernig verkefnið getur nýst betur og skilað enn meiri árangri,“ segir Joanna Marcinkowska, verkefnastjóri fjölmenningar og inngildingar hjá mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkur, en hún situr í ráðgjafahópnum fyrir hönd Reykjavíkur. „Sumar tillögur að breytingum sem urðu til við úttektina verða aldrei að veruleika en í öðrum tilfellum útfærum við hvernig væri best að innleiða þessar breytingar. Það er svo margt sem er hugmyndafræðilega rétt en vandinn með fjölmenningu er að fá hlutina til að virka í raun og veru og það er meðal annars okkar hlutverk.“
Alþjóðlegt verkefni
Um 130 borgir eru aðilar að verkefninu Fjölmenningarborgir en aðeins sjö fulltrúar eiga sæti í ráðgjafahópnum og var Joanna valin úr stórum hópi umsækjenda. „Ég sótti um af því að ég vil að við náum árangri og ég vil verða betri í mínu starfi. Í valinu felst líka ákveðin viðurkenning. Í gegnum verkefnið öðlumst við mikla þekkingu sem nýtist vel í mínu starfi en kemur sér líka vel fyrir aðra sérfræðinga sem fást við inngildingu og fjölmenningu hjá borginni,“ segir Joanna. Verkefnið er víðtækt því þótt það heyri undir Evrópuráðið teygir það anga sína um allan heim og meðal þátttökuborga eru borgir í til dæmis Japan, Mexíkó og Ástralíu.
Þurfum að hætta að hugsa „þau“ og „við“
Joanna brennur greinilega fyrir verkefnum sínum og hún segir starfið skemmtilegt en jafnframt stundum erfitt. „Fólk hugsar oft um inngildingu sem eitthvað sem það gerir aukalega, en við þurfum að fá öll til að líta á þetta sem sjálfsagðan hlut,“ segir hún með áherslu. „Ég held við séum komin langt á Íslandi með hugsun um fjölmenningu og inngildingu og varðandi að fá fólk til að taka þátt í samfélaginu, en við þurfum að vinna meira í til dæmis samskiptum. Við eigum ekki að líta svo á að við séum alltaf að gera eitthvað fyrir þá hópa sem um ræðir, til dæmis innflytjendur, heldur tileinka okkur þann hugsunarhátt að við séum að gera hlutina saman. Þetta er kallað „meaningful interactions“ hjá ICC. Íslenskt samfélag var lengi mjög aflokað og því er skiljanlegt að þessi þróun taki tíma, en við þurfum að hætta að hugsa „þau“ og „við“. Við færumst stöðugt í rétta átt.“
Nánari upplýsingar um verkefni mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar um fjölmenningu og inngildingu.