Alþjóðlega friðarráðstefnan The Imagine Forum: Nordic Solidarity for Peace fer nú fram í Hörpu, en þar er rætt um framtíðarsýn Norðurlanda um sjálfbæran frið.
Markmið ráðstefnunnar er að leiða saman öflugan hóp skapandi hugsuða til að taka þátt í samtali milli kynslóða um hvernig má efla norrænt samstarf í þágu friðar. Meðal gesta voru Andriy Sadovyi, borgarstjóri úkraínsku borgarinnar Lviv og Juhana Vartiainen, borgarstjóri Helsinki. Sátu þeir meðal annars pallborðsumræður ásamt Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra Reykjavíkur, þar sem rætt var hlutverk borga í að stuðla að friði. Var þeim umræðum stýrt af Evu Bergþóru Guðbergsdóttur, samskiptastjóra Reykjavíkur og sköpuðust áhugaverðar umræður.
Áhugaverðar umræður sköpuðust í borgarstjórapallborði á ráðstefnunni.
Samstarfi við Össur fylgt eftir
Andriy Sadovyi, borgarstjóri Lviv, kom að þessu sinni til Reykjavíkur með sex manna sendinefnd en hann og borgarstjóri Reykjavíkur undirrituðu samkomulag um samvinnu borganna í Ráðhúsinu í Lviv í maí síðastliðnum. Á sama tíma var undirritað rammasamkomulag milli heilbrigðistæknifyrirtækisins Össurar og endurhæfingarsjúkrahússins Unbroken sem rekið er af Lviv borg og notaði sendinefndin nú tækifærið og heimsótti Össur. Borgaryfirvöld í Lviv hafa, með aðstoð alþjóðlegra stofnana, fyrirtækja og einstaklinga, lyft grettistaki í að byggja upp Unbroken sjúkrahúsið en þörfin á þjónustu og endurhæfingu er gríðarleg vegna stríðsátakanna þar í landi og er samstarfið við Össur liður í uppbyggingu þessarar starfsemi.
Frá heimsókn úkraínsku sendinefndarinnar til Össurar.
Þörf á að rampa upp Lviv og því horft til Reykjavíkur
Úkraínska sendiefndin hitti líka Harald Þorleifsson, sem stendur fyrir verkefninu Römpum upp Reykjavík sem stórbætt hefur aðgengi fatlaðs fólks víða og er enn í fullum gangi. Þá skoðuðu Andriy og samstarfsfólk hans borgina með Ólöfu Örvarsdóttur, sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur, meðal annars til að kynna sér uppbyggingu í Úlfarsárdal og skoða rampa í miðborginni, en til stendur að rampa upp Lviv og sýndi hópurinn því rampaverkefninu hér á landi mikinn áhuga. Þá skoðaði úkraínska sendinefndin Listasafn Reykjavíkur og heimsótti Hafnarhaus, þar sem skapandi fólk hefur aðstöðu, snæddi hádegisverð í Höfða í boði borgarstjóra Reykjavíkur og var viðstödd athöfn þar vegna tendrunar friðarsúlunnar.
Sendinefndin ræddi við Harald Þorleifsson, meðal annars um verkefni hans Römpum upp Reykjavík.
Friðarráðstefnunni lýkur í dag en upplýsingar um hana og beint streymi frá ráðstefnunni eru aðgengileg á netinu.