Römpum upp Reykjavík fær aðgengisviðurkenningu

Aðgengis- og samráðsnefnd ásamt borgarstjóra og Haraldi I. Þorleifssyni

Handhafi aðgengisviðurkenningarinnar 2021 er Haraldur Þorleifsson fyrir verkefnið Römpum upp Reykjavík.

Verkefnið hefur skipt sköpum í að bæta aðgengi fatlaðs fólks að miðborginni. Verkefni Haralds hefur staðið fyrir uppsetningu yfir 100 rampa í miðborginni og er því ekki lokið því hann hyggst færa út kvíarnar og Rampa upp Ísland.

Haraldur þakkaði fyrir viðurkenninguna og sagðist hafa fengið aðstoð með verkefnið víða, m.a. hjá borginni en hann vildi sérstaklega þakka þeim sem sá um að setja upp rampana.  Borgarstjóri Dagur B. Eggertsson sagði framtak Haraldar hafa hvatt aðra til dáða og fengið hið opinbera til að gyrða sér í brók og gera betur í aðgengismálum.

Aðgengisviðurkenning Reykjavíkur

Aðgengisviðurkenning Reykjavíkurborgar er veitt þeim einstaklingum, hópum, félagasamtökum, fyrirtækjum eða stofnunum sem á eftirtektarverðan hátt hafa staðið vörð um gott aðgengi með fjölbreyttum hætti. Reykjavíkurborg hefur markað stefnu í aðgengismálum um að vera í fararbroddi hvað varðar viðhorfsbreytingu gagnvart fötluðu fólki og aðgengisþörfum þess. Húsnæði og opin svæði borgarinnar eiga að vera aðgengileg borgarbúum óháð aðgengisþörfum þeirra.

Viðurkenningunni er ætlað að gera aðgengismálum hærra undir höfði og varpa ljósi á það sem vel er gert í málaflokknum. Gott aðgengi í víðum skilningi þess hugtaks er mikilvægt mannréttindamál og undirstaða þess að fólk með fjölbreyttar aðgengisþarfir geti tekið þátt í samfélaginu á jafnréttisgrundvelli.  Aðgengisviðurkenningin er  hvatning til fyrirtækja, félagsamtaka og einkaaðila til að gera enn betur í aðgengismálum.

Aðgengisviðurkenningin er nú veitt í fjórða sinn. Blindrafélagið var fyrst til að fá viðurkenninguna fyrir fjölbreytt starf í þágu blindra og sjónskertra sem hefur bætt aðgengi hópsins að samfélaginu. Áslaug Katrín Aðalsteinsdóttir og Berglind Hallgrímsdóttir hlutu viðurkenninguna þegar hún var veitt í annað sinn fyrir verkefni sem sneri m.a. að gerð handbókar um algilda hönnun í útiumhverfi. Samtök hernaðarandstæðinga og Friðarhús SHA ehf. hlutu viðurkenninguna þegar hún var veitt í þriðja sinn fyrir mikilvægt frumkvæði í aðgengismálum með uppsetningu á hjólastólalyftu í Friðarhúsinu.