Haraldur opnar Hafnarhaus, hús skapandi greina

Opið Hafnarhaus. Frá vinstri; Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Haraldur Þorleifsson athafnamaður, Magnea Einarsdóttir fathönnuður og Paul Bennett yfirmaður skapandi greina og meðframkvæmdastjóri IDEO

Haraldur Þorleifsson, athafnamaður og hópurinn sem stendur að rekstri nýrrar aðstöðu fyrir listafólk í Hafnarhúsinu bauð í opið hús og tilkynnti formlega að þar væri nú hægt að sækja um aðstöðu til listsköpunar. Rýmið hefur fengið heitið Hafnarhaus.

Hópurinn sem er með Haraldi að stofnun Hafnarhaus eru; Davíð Helgason, Elísabet Ronaldsdóttir Magnea Einarsdóttir, Melanie Ubaldo, Nanna Bryndís Hilmarsdóttir, Ólafur Arnalds, Paul Bennett, Ragnar Kjartansson og René Boonekamp en öll hafa þau náð árangri á sínu sviði skapandi greina.

Reykjavíkurborg, sem á húsið, stofnaði um það sjálfseignarfélag um útleigu á hluta hússins sem leigurýmis fyrir vinnu- og lærdómsaðstöðu skapandi greina í miðborg Reykjavíkur og var samið við Harald Inga Þorleifsson um rekstur aðstöðunnar.

Hafnarhaus er staðsett á tveimur efstu hæðum hússins og er yfir 3000 fermetra. Þar er einstakt útsýni og fullkomin staður til sækja í innblástur að skapandi verkum.

Haraldur Ingi opnaði í dag heimasíðuna, https://hafnar.haus/ en þar geta þeir sem hafa áhuga á rými fyrir skapandi greinar sótt um aðstöðu. Það kostar 5000  krónur á mánuði að vera hluti að samfélagi Hafnarhaus og síðan kostar hver leigður fermetri 2500 krónur á mánuði. Innifalið í aðildinni er sólarhringsaðgangur að rýminu, nettenging og kaffi.

Reykjavíkurborg stefnir að því að endurbyggja og innrétta húsið á næstu árum þar sem gert er ráð fyrir listasafni Nínu Tryggvadóttir ásamt aðstöðu fyrir aðrar listgreinar. Þar til að því kemur á að nýta húsnæðið til bráðabirgða fyrir vinnu- og lærdómsaðstaða þar sem mismunandi skapandi greinar svo sem listgreinar, hönnun, forritun og önnur nýsköpun komi saman.