Staða heimilislausra rædd á aukafundi í velferðarráði

Velferð

Hlutlaus mynd af kuldatíð, efsti bútur af trégirðingu í nærmynd, óskýrt í bakgrunni klaki og snjór. Strá sjást líka.

Velferðarráð kom saman á aukafundi í gær til að ræða stöðu heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir.

Rædd var sérstaklega Viðbragðsáætlun - Neyðaráætlun vegna veðurs og fyrirkomulag upplýsingagjafar þegar neyðaráætlun er virkjuð. Mikil samstaða hefur verið innan borgarstjórnar um stefnu borgarinnar í þessum málaflokki og var eftirfarandi tillaga samþykkt samhljóða í ráðinu:

„Velferðarráð felur sviðinu að eiga samtal við þau hjálparsamtök sem sinna þjónustu við heimilislausa um möguleika á að veita hópnum aukna þjónustu eða eftir atvikum aðra aðila. Óskað er eftir upplýsingum um nýtingu þess fjármagns sem velferðarráð hefur veitt félagasamtökunum til að sinna þjónustu við heimilislaust fólk.  Tilkynna skal virkjun neyðaráætlunar og breytingar á opnun neyðarskýla á heimasíðu Reykjavíkurborgar og fara yfir alla upplýsingagjöf til notenda þjónustunnar. Sömuleiðis skal upplýsa velferðarráð um virkjun neyðaráætlunar. Velferðarráð ítrekar að velferðarsviði var falið að fjármagna stofnun neyðarhúsnæðis fyrir heimilislausa karlmenn í miðborginni samanber fundargerð frá fundi velferðarráðs miðvikudaginn 2. nóvember. Tillaga þess efnis skal lögð fram á fundi ráðsins 11. janúar.  Þá skal einnig kynnt fyrirkomulag varðandi strætómiða fyrir notendur þjónustunnar.“

Áhersla lögð á skaðaminnkandi nálgun

Í greinargerð ráðsins segir að Reykjavíkurborg hafi á síðastliðnum árum lagt áherslu á málefni heimilislausra og raunar tryggi borgin einnig þjónustu við heimilislausa frá öðrum sveitarfélögum sem sæki til borgarinnar í ríkum mæli. Í bókuninni kemur jafnframt fram að það sem af er ári hafi 350 manns nýtt þjónustu skýlanna: „en stór hluti þeirra sem leita í neyðarskýlin eru í þörf fyrir langtímaúrræði innan heilbrigðiskerfisins. Í undirbúningi er opnun hjúkrunarrýma fyrir þann hluta hópsins sem glímir við mikinn heilsubrest, samningaviðræður við Sjúkratryggingar Íslands um hjúkrunarþjónustu fyrir þennan hóp eru á lokametrunum og Reykjavíkurborg hefur jafnframt gert samning við Rauða krossinn um rekstur neyslurýmis. Auk þess styrkir borgin Hjálpræðisherinn, Rauða krossinn, Samhjálp og fleiri hjálparsamtök til að sinna þjónustu við þennan hóp“. Ráðið taldi mikilvægt að öll þjónusta væri veitt með skaðaminnkandi nálgun og taldi ótækt að ekkert heilbrigðisúrræði stæði þessum hópi til boða.

Mikilvægt að önnur sveitarfélög og ríkið taki þátt í kostnaði

Um þriðjungur þeirra sem leita í neyðarskýli Reykjavíkurborgar koma úr öðrum sveitarfélögum eða eru án kennitölu og í bókuninni er vakin athygli á að „Reykjavíkurborg hefur ekki rukkað viðkomandi sveitarfélög nema að takmörkuðu leyti fyrir þjónustu sem veitt er íbúum annarra sveitarfélaga en til stendur að breyta því. Mikilvægt er að önnur sveitarfélög og ríkið taki þátt í kostnaði, vegna reksturs neyðarskýla og þjónustu við þennan viðkvæma hóp.“

Áréttað er að ýmis úrræði og þjónusta séu í boði yfir daginn fyrir heimilislausa, þar á meðal Samhjálp, Skjól, Hjálpræðisherinn og Ylja neyslurými en Reykjavíkurborg hefur um langt skeið stutt viðkomandi samtök sérstaklega til að sinna heimilislausum á daginn. Þá er tekið fram að þegar veður sé sérlega vont og heimilislausir hafi ekki tök á að færa sig úr neyðargistiskýlum yfir í dagúrræði, sé skýr stefna að grípa til neyðarráðstafana og halda neyðargistiskýlunum opnum yfir daginn. Þetta var til að mynda gert þegar óveðrið og ofankoman gekk yfir borgina um síðustu helgi. Jafnframt kom fram í minnisblaði sviðsstjóra velferðarsviðs að veikustu einstaklingunum í gistiskýlinu við Lindargötu sem glímdu við sjúkdóma eða mjög slæma heilsu væri aldrei aldrei vísað út þegar veðurskilyrði væru slæm og þeir treystu sér ekki til útiveru.

Langtímastefna að tryggja öllum varanlegt þak yfir höfuðið

Velferðarráð ræddi líka vanda sem skapaðist fyrir heimilislausa við að koma sér á milli staða, eftir að nýtt greiðslukerfi strætó tók við og lausasala miða hætti. Unnið er að lausn og hefur Strætó bs. fallist á að gefa út farmiða fyrir þjónustuþega borgarinnar í málaflokki heimilislausra.

Loks er áréttuð sú langtímastefna í málum heimilislausra að tryggja öllum varanlegt þak yfir höfuðið í samræmi við verkefnið „housing first“ og segir loks í bókuninni: „Unnið er að nýrri aðgerðaáætlun í málefnum heimilislausra í Reykjavíkurborg sem unnin er út frá bestu þekkingu og í samráði við notendur og hagsmunaaðila. Við berum miklar væntingar til þess að í kjölfar vinnu sem er í gangi á vettvangi SSH (Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu) komi önnur sveitarfélög inn í þessa þjónustu með kraftmeiri hætti. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur það einnig í stefnuskrá sinni að vinna að heildstæðri stefnumótun fyrir Ísland. Velferðarráð leggur áherslu á að sú vinna fari fram hið fyrsta svo fólk í þessari viðkvæmu stöðu fái þjónustu við sitt hæfi.“

„Á réttri braut þótt enn sé margt eftir“

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs segir að ráðið hafi viljað eiga gott samtal við starfsfólk velferðarsviðs fyrir hátíðarnar til að fara yfir þjónustu við heimilislaust fólk með miklar og flóknar stuðningsþarfir, virkjun neyðaráætlunar, upplýsingagjöf og fleira. „Þrátt fyrir aukna þjónustu og fjölgun búsetukosta hefur verið aukið álag í neyðarskýlum sem bjóða næturgistingu. Stór hluti þeirra einstaklinga sem nýta neyðarskýlin er fólk sem ekki á lögheimili í Reykjavík og við berum miklar væntingar til þess að sú vinna sem er í gangi á vegum SSH leiði til þess að nágrannasveitarfélög okkar komi með öflugum hætti inn í þjónustuveitinguna,“ segir Heiða. „Eins munum við á nýju ári kalla eftir landsstefnumótun um hvernig við ætlum að koma í veg fyrir að fólk verði heimilislaust á Íslandi og hvernig við ætlum að þjónusta það fólk sem lendir í þeim erfiðu aðstæðum. Það var full samstaða í ráðinu um að halda áfram að innleiða stefnu borgarinnar og leggja áherslu á skaðaminnkandi hugmyndafræði og fjölgun búsetukosta með „húsnæði fyrst þjónustu“. Við erum á réttri braut þótt enn sé margt eftir.“

-Fundargerð frá aukafundi velferðarráðs 21. desember 2022