Velferðarráð - Fundur nr. 442

Velferðarráð

Ár 2022, miðvikudagur 21. desember var haldinn 442. fundur velferðarráðs og hófst hann kl.13:09 í Stekk, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þorvaldur Daníelsson. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Sandra Hlíf Ocares. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn Agnes Sif Andrésdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Rannveig Einarsdóttir og Gunnlaugur Sverrisson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 21. desember 2022, um stöðu málaflokks heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir vegna tíðra kuldakasta. VEL22120033.

    Helgi Þór Gunnarsson, deildarstjóri í Vesturmiðstöð, og Soffía Hjördís Ólafsdóttir, félagsráðgjafi í  Vettvangs- og Ráðgjafarteymi, taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Gistiskýli borgarinnar eru neyðarskýli fyrir heimilislaust fólk og eru að jafnaði opin frá 17:00-10:00. Ýmis önnur úrræði sem eru opin yfir daginn, eru ekki opin yfir allan þann tíma sem neyðarskýlin eru lokuð og eru þar að auki ekki alltaf hönnuð í kringum fjölbreyttar þarfir heimilislauss fólks. Reykjavíkurborg verður að útvega lausnir fyrir heimilislaust fólk, það gengur ekki að manneskjur þurfi að dvelja á víðavangi yfir daginn. Mikilvægt er að tryggja að góðar langtímalausnir séu til staðar, þar sem að allir fái skjól sem hentar þeirra þörfum. Viðeigandi húsnæði er ekki til staðar, þar sem langir biðlistar eru eftir húsnæði hjá borginni. Á meðan að staðan er eins og hún er þá verður að tryggja viðeigandi úrræði yfir daginn. Fulltrúi sósíalista lítur á að það sé ábyrgð Reykjavíkurborgar að mæta þörfum heimilislauss fólks, þar sem um mjög viðkvæma stöðu er um að ræða. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til að opnunartíma neyðarskýla verði breytt þannig að þau verði opin að degi til. Undanfarna daga hefur verið hrikaleg kuldatíð með mikilli snjókomu og frosthörku á öllu landinu. Flokkur fólksins telur að neyðaráætlun í málaflokki heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir hafi verið virkjuð of seint. Heimilislaust fólk þurfti að hírast úti í miklu frosti vegna þess að gistiskýlunum var lokað að degi til. Það er ábyrgð sveitarfélaga að annast um þá sem sem eru verst settir og að veita þeim sem eru heimilislausir öruggt skjól þegar veður eru válynd. Það dugir ekki að hafa skýlin opin að degi til einn og einn dag. Það gengur ekki að heimilislaust fólk lifi i stöðugri óvissu um hvort það fái inni þegar veður eru þannig að ekki sé hundi út sigandi. Það veldur heimilislausu fólki angist og kvíða að lifa í slíkri óvissu. Áfram er spáð miklum kulda næstu daga. Flokki fólksins finnst það ómanneskjulegt að meta eigi stöðuna frá degi til dags og telur að opna verði nýtt skjól fyrir heimilislausa ef ekki er hægt að nýta neyðarskýlin að degi til.

    Fylgigögn

  2. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi tillögu

    Velferðarráð felur sviðinu að eiga samtal við þau hjálparsamtök sem sinna þjónustu við heimilislausa um möguleika á að veita hópnum aukna þjónustu eða eftir atvikum aðra aðila. Óskað er eftir upplýsingum um nýtingu þess fjármagns sem velferðarráð hefur veitt félagasamtökunum til að sinna þjónustu við heimilislaust fólk.  Tilkynna skal virkjun neyðaráætlunar og breytingar á opnun neyðarskýla á heimasíðu Reykjavíkurborgar og fara yfir alla upplýsingagjöf til notenda þjónustunnar. Sömuleiðis skal upplýsa velferðarráð um virkjun neyðaráætlunar. Velferðarráð ítrekar að velferðarsviði var falið að fjármagna stofnun neyðarhúsnæðis fyrir heimilislausa karlmenn í miðborginni samanber fundargerð frá fundi velferðarráðs miðvikudaginn 2. nóvember. Tillaga þess efnis skal lögð fram á fundi ráðsins 11. janúar.  Þá skal einnig kynnt fyrirkomulag varðandi strætómiða fyrir notendur þjónustunnar. VEL22120104.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavíkurborg hefur á síðastliðnum árum lagt sérstaklega áherslu á málefni heimilislausra og reyndar er það svo að Reykjavíkurborg tryggir einnig þjónustu við  heimilislausa frá öðrum sveitarfélögum sem sækja til borgarinnar í ríkum mæli og nýta sér þá þjónustu og þau úrræði sem borgin hefur veg og vanda að bjóða upp á.  Lögð er áhersla á skaðaminnkandi hugmyndafræði og boðið er húsnæði, húsnæði fyrst íbúðir, sambýli, íbúðakjarna og áfangaheimili. Aukið álag hefur verið í neyðarskýlum Reykjavíkurborgar fyrir heimilislaust fólk. Það sem af er ári hafa 350 manns nýtt þjónustu skýlanna en stór hluti þeirra sem leita í neyðarskýlin eru í þörf fyrir langtímaúrræði innan heilbrigðiskerfisins. Í undirbúningi er opnun hjúkrunarrýma fyrir þann hluta hópsins sem glímir við mikinn heilsubrest, nýlega var gerður samningur um hjúkrunarþjónustu fyrir þennan hóp og Reykjavíkurborg gerði jafnframt samning við Rauða krossinn um rekstur neyslurýmis. Auk þess styrkir borgin Hjálpræðisherinn, Rauða krossinn, Samhjálp og fleiri hjálparsamtök til að sinna þjónustu við þennan hóp. Mikilvægt er að öll þjónusta sé veitt með skaðaminnkandi nálgun. Ótækt er að ekkert heilbrigðisúrræði standi þessum hópi til boða. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Sjálfstæðisflokks vekja athygli á því að gistiskýlin margumræddu eru neyðargistiskýli sem hugsuð eru sem gististaður fyrir heimilislaust fólk sem ekki getur hallað höfði sínu annars staðar yfir nóttina. Ekki er um að ræða varanlegt búsetuform þar sem viðkomandi aðilar geta búið allan sólarhringinn. Þjónusta í neyðargistiskýlum er einfaldlega ekki þess eðlis, enda þarf að huga að ýmsum atriðum í því samhengi, svo sem þrifum og öryggi þjónustuþega og starfsfólks. Um þriðjungur þeirra sem leita í neyðarskýli Reykjavíkur koma úr öðrum sveitarfélögum eða eru án kennitölu. Reykjavíkurborg hefur ekki rukkað viðkomandi sveitarfélög nema að takmörkuðu leyti fyrir þjónustu sem veitt er íbúum annarra sveitarfélaga en til stendur að breyta því. Mikilvægt er að önnur sveitarfélög og ríkið taki þátt í kostnaði, vegna reksturs neyðarskýla og þjónustu við þennan viðkvæma hóp. 

    Þá skal áréttað að ýmis úrræði og þjónusta eru í boði yfir daginn fyrir heimilislausa og má þar meðal annars nefna Samhjálp, Skjól, Hjálpræðisherinn og Ylju neyslurými en Reykjavíkurborg hefur um langt skeið stutt viðkomandi samtök sérstaklega til þess að geta sinnt heimilislausum á daginn. 

    Enn fremur skal tekið fram, að þegar veðrið er sérstaklega vont og heimilislausir hafa ekki tök á því að færa sig úr neyðargistiskýli yfir í dagúrræði, þá er það mjög skýr stefna borgarinnar að grípa til neyðarráðstafana og halda neyðargistiskýlunum opnum yfir daginn en ekki bara milli 17:00 og 10:00 eins og venjan er. Þetta var til að mynda gert þegar óveðrið og ofankoman gekk yfir borgina um síðustu helgi.

    Eftir að nýtt greiðslukerfi strætó tók við og lausasala miða hætti, skapaðist vandamál fyrir heimilislausa að koma sér á milli staða. Áður hafði starfsfólk neyðarskýla haft tök á að gefa áfram miða til heimilislausra til þess þeir gætu sótt dagúrræði eins og Hjálpræðisherinn við Suðurlandsbraut sem Reykjavíkurborg styrkir til að sjá um þjónustu við hópinn. Unnið hefur verið að því að finna lausn á þessum vanda og Strætó bs. sem hefur fallist á að gefa út farmiða fyrir þá sem eru þjónustuþegar borgarinnar í málaflokki heimilislausra. Vonast er til að miðar komi strax í notkun á nýju ári, enda brýnt að heimilislaust fólk geti farið úr neyðarskýlum í dagúrræði. 

    Að lokum skal það áréttað að langtímastefna borgarinnar í málum heimilislausra er að enginn einstaklingur þurfi að vera í þessari stöðu heldur skuli tryggja öllum varanlegt þak yfir höfuðið í samræmi við verkefnið "housing first".  Unnið er að nýrri aðgerðaáætlun í málefnum heimilislausra í Reykjavíkurborg sem unnin er út frá bestu þekkingu og í samráði við notendur og hagsmunaaðila. Við berum miklar væntingar til þess að í kjölfar vinnu sem er í gangi á vettvangi SSH komi önnur sveitarfélög inn í þessa þjónustu með kraftmeiri hætti. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur það einnig í stefnuskrá sinni að vinna að heildstæðri stefnumótun fyrir Ísland. Velferðarráð leggur áherslu á að sú vinna fari fram hið fyrsta svo fólk í þessari viðkvæmu stöðu fái þjónustu við sitt hæfi. 

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 21. desember 2022, um hækkun gistináttagjalds hjá öðrum sveitarfélögum vegna gistingar í neyðarskýlum Reykjavíkurborgar:

    Lagt er til að velferðarsviði verði heimilað að hækka gistináttagjald hjá sveitarfélögum fyrir gistingu í neyðargistiskýlum Reykjavíkurborgar í kr. 34.000 fyrir hverja gistinótt, þegar einstaklingur á lögheimili utan Reykjavíkur, þannig að gjaldið samsvari raunkostnaði. Gjaldið verði innheimt ársfjórðungslega og fjárhæð taki breytingu miðað við vísitölu neysluverðs.

    Greinargerð fylgir tillögunni. VEL22120034.

    Frestað.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er eðlilegt og sjálfsagt að innheimta  gistináttagjald hjá öðrum sveitarfélögum ef Reykjavík skýtur skjólshúsi yfir einstaklinga með miklar og flóknar þjónustuþarfir, sem tilheyra öðru sveitarfélagi/eru skráðir annars staðar en í Reykjavík. Það breytir því ekki að Reykjavík getur undir engum kringumstæðum neitað að hjálpa fólki þótt það sé ekki skráð með lögheimili í Reykjavík. Skortur á samvinnu milli sveitarfélaga má aldrei bitna á fólki. Þjónustuþeginn á ekki að þurfa að líða fyrir að sveitarfélög geti ekki átt samvinnu. Við eigum að hugsa um okkar minnstu bræður og systur, sama hvar þau eru í sveit sett. 

    Fylgigögn

  4. Fulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Flokkur fólksins óskar upplýsinga um tillögur sem flokkurinn hefur lagt fram í borgarráði og hvernig velferðarsvið hyggst bregðast við þeim. Um er að ræða tillögur Flokks fólksins um að endurskoða skuli ákvörðun meirihlutans um að leggja niður Vin og einnig að endurskoða að leggja niður starfsemi unglingasmiðjanna Traðar og Stígs. Þessar ákvarðanir meirihlutans hafa valdið miklu uppnámi og sorg. Á þessum stöðum er um mikilvæga starfsemi að ræða, þjónustu við okkar allra viðkvæmustu hópa. Vel er hægt að beita niðurskurðarhnífnum annars staðar þar sem ekki er skert bein þjónusta við fólk. Á þessum stöðum er  þjónusta við fólk sem treystir á hana og hefur fundist einmitt þessi þjónusta gefa lífi sínu lit. VEL22120100.

  5. Fulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Flokkur fólksins leggur til að opnað verði nýtt skjól sem opið er allan sólarhringinn ef ekki er hægt að hafa neyðarskýlin opin. Fordæmi eru fyrir slíku athvarfi víða erlendis. Hér er lagt til að opnað verði rými þar sem einstaklingar geta komið inn þegar þeim hentar til að hvílast og borða. Í vetrarhörkunni sem verið hefur undanfarna daga hefur komið í ljós að það úrræði sem nú er í boði er ekki nóg. Vegna þess að fólk er rekið út úr gistiskýlunum að degi til og hefur í engin hús að venda. Hér er ekki um margar krónur að ræða í stóra samhenginu. Hér gæti hins vegar verið um heilsu og jafnvel líf að ræða. Dæmi eru um að þeir sem bíða eftir að komast inn klukkan 5 húki einhvers staðar úti undir vegg. Þetta er ekki boðlegt. Reykjavíkurborg getur gert betur.  Flokkur fólksins telur einnig ótækt að staðan sé metin dag frá degi.  Þetta veldur  miklu óöryggi hjá heimilislausum en þau þurfa öryggi eins og  aðrir borgarbúar. Flokkur fólksins telur mikilvægt að opnað verði  nýtt skjól  fyrir heimilislausa ef ekki er hægt að nýta neyðarskýlin. Slíkt skjól/skýli sem er opið allan sólarhringinn er bráðnauðsynlegt yfir vetrartímann. VEL22120101.

    Frestað.

  6. Fulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Flokkur fólksins leggur til að notkun leigubíla fyrir starfsfólk velferðarsviðs verði eingöngu í undantekningartilfellum. VEL22120102.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Frestað.

    Fylgigögn

  7. Fulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Tillaga um að lækka kostnað vegna utanlandsferða. Flokkur fólksins leggur til að embættismenn velferðarsvið stilli ferðum erlendis í hóf næsta ár vegna fjárhagsstöðu borgarinnar. VEL22120103.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Frestað.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 15:40.

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð velferðarráðs frá 21. desember 2022