Velferðarráð
Ár 2022, miðvikudagur 2. nóvember var haldinn 437. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:07 í Hofi, Borgartúni 12-14. Á fundinn mættu: Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Sandra Hlíf Ocares, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þorvaldur Daníelsson. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Anna Sigrún Baldursdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir og Randver Kári Randversson sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. VEL22050007.
-
Fram fer kynning á bundnum liðum fjárhagsáætlunar velferðarsviðs 2023. VEL22100266.
Inga Borg, fjármálasérfræðingur á skrifstofu fjármála og rekstrar tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 2. nóvember 2022, um hækkun grunnfjárhæðar fjárhagsaðstoðar, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að grunnfjárhæðir fjárhagsaðstoðar til framfærslu hækki sem hér segir:
- Grunnfjárhæð fyrir einstakling sem rekur eigið heimili hækkar úr 217.799 kr. í 224.333 kr. á mánuði.
- Grunnfjárhæð til hjóna/sambúðarfólks hækkar úr 348.476 kr. í 358.933 kr. á mánuði.
- Grunnfjárhæð til einstaklings sem býr með öðrum, leigir húsnæði án þinglýsts leigusamnings eða hefur ekki aðgang að húsnæði hækkar úr 183.507 kr. í 189.012 kr. á mánuði.
- Grunnfjárhæð til þeirra sem búa í foreldrahúsum hækkar úr 108.898 kr. í 112.167 kr. á mánuði.
- Fjárhæð vegna barna í 16 gr. a hækki úr 17.481 kr. í 18.005 kr. á mánuði.
Fjárhæðir fjárhagsaðstoðar verða hækkaðar um 3%. Breyting þessi taki gildi frá og með 1. janúar 2023.Greinargerð fylgir tillögunni. VEL22090234.
Frestað.Inga Borg, fjármálasérfræðingur á skrifstofu fjármála og rekstrar tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi tillögu:
Velferðarráð felur sviðsstjóra að skipa stýrihóp til að endurskoða reglur um fjárhagsaðstoð frá grunni.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL22110033.
Samþykkt.Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 2. nóvember 2022, um stofnun neyðarhúsnæðis fyrir heimilislausa karlmenn í miðborginni, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að velferðarráð samþykki að verja alls 155 m.kr. til reksturs neyðarhúsnæðis í miðborginni fyrir heimilislausa karla sem dvalið hafa í langan tíma í neyðarskýlum borgarinnar. Kostnaður rúmast ekki innan fjárheimilda sviðsins.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL22070032.
Vísað til fjárhagsáætlunargerðar.Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 2. nóvember 2022, um stöðu samnings við Rauða krossinn vegna reksturs neyslurýmis, ásamt fylgiskjölum. VEL22100424.
Velferðarráð leggur fram svohljóðandi tillögu:
Velferðarráð felur sviðinu að halda áfram viðræðum við ríkið um mikilvæga þjónustu neyslurýmis. Fjármagn frá ríkinu er forsenda þess að þessi þjónusta haldi áfram. Í minnisblaði velferðarsviðs um stöðu samnings við Rauða krossinn vegna reksturs neyslurýmis er talað um aukna þörf á neyslurými, fast húsnæði, frekari heilbrigðisþjónustu og svo framvegis. Þá er mikilvægt að starfsmönnum Reykjavíkurborgar sé veitt fræðsla um skaðaminnkun og skaðaminnkandi nálgun í allri þjónustu. Tryggja verður að almannarými okkar séu fyrir allan almenning, t.d. með því að setja upp sprautubox á almenningssalernum.
Samþykkt.
Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Vesturmiðstöðvar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 2. nóvember 2022, um samstarfssamning sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um samráð og samstarf á sviði velferðarþjónustu, ásamt fylgiskjölum. VEL22100226.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er kynntur samstarfssamningur stjórnenda í velferðarþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Markmið samningsins er einkum að efla velferðarþjónustu á höfuðborgarsvæðinu með samtali, samráði og samstarfi sveitarfélaganna. Flokki fólksins líst almennt vel á þennan samstarfssamning og vonar að hann stuðli að samræmingu og hagkvæmni þjónustunnar. Sérstaklega er æskilegt að vinna sameiginlega að því að nýta mjög sérhæfða þjónustu sem mun einkum bæta þjónustu við fatlað fólk.
Fylgigögn
-
Lagt fram uppfært erindisbréf stýrihóps um mótun stefnu í málefnum eldra fólks til ársins 2026, dags. 2. nóvember 2002. VEL22070013.
Eftirtaldir fulltrúar sitja í hópnum:
Heiða Björg Hilmisdóttir, fulltrúi meirihluta í velferðarráði Reykjavíkurborgar, formaður.
Unnur Þöll Benediktsdóttir, fulltrúi meirihluta í velferðarráði Reykjavíkurborgar.
Helga Þórðardóttir, fulltrúi minnihluta í velferðarráði Reykjavíkurborgar.
Sara Björg Sigurðardóttir, formaður öldungaráðs Reykjavíkur.
Ingibjörg H. Sverrisdóttir, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni.
Anna Sigrún Baldursdóttir, skrifstofustjóri, skrifstofu málefna eldra fólks.
Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri, skrifstofu málefna eldra fólks, verkefnastjóri hópsins.Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 2. nóvember 2022, um sameiningu stýrihópa um mótun virknistefnu og stefnu í félagsstarfi Reykjavíkurborgar undir einn hóp um mótun virknistefnu, ásamt uppfærðu erindisbréfi, dags. 2. nóvember 2022:
Lagt er til að stýrihópur um mótun stefnu um félagsstarf í Reykjavík og stýrihópur um mótun virknistefnu til ársins 2026, sem skipaðir voru á fundi velferðarráðs 10. ágúst 2022, verði sameinaðir í einn stýrihóp undir heitinu stýrihópur um mótun virknistefnu. Hópurinn geri drög að nýrri heildstæðri virknistefnu Reykjavíkurborgar í málefnum einstaklinga sem mæta hindrunum í atvinnuleit og virkni og þurfa á þjónustu velferðarsviðs að halda. Markmiðið er að styðja við nýsköpun, virkni (störf, nám, þjálfun) og heilbrigði til að stuðla að aukinni þátttöku og virkni í samfélaginu. Í nýrri virknistefnu skulu jafnframt vera tillögur að endurskoðun á félagsstarfi Reykjavíkurborgar, með það að markmiði að félagsstarf verði skilgreint sem virkni, að blöndun verði milli kynslóða og félagsstarfið verði í samfélagshúsum, sniðið að þörfum allra aldurshópa.
Greinargerð fylgir tillögunni. VEL22070012.
Samþykkt. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.Eftirtaldir fulltrúar sitja í hópnum:
Þorvaldur Daníelsson, fulltrúi meirihluta í velferðarráði Reykjavíkurborgar sem jafnframt er formaður.
Ásta Björg Björgvinsdóttir, fulltrúi meirihluta í velferðarráði Reykjavíkurborgar.
Rannveig Ernudóttir, fulltrúi meirihluta í velferðarráði Reykjavíkurborgar.
Sandra Hlíf Ocares, fulltrúi minnihluta í velferðarráði Reykjavíkurborgar.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, fulltrúi minnihluta í velferðarráði Reykjavíkurborgar.
Heiðar Kristján Grétarsson, fulltrúi notenda.
Birna Guðmundsdóttir, fulltrúi Pepp Ísland, samtaka fólks í fátækt.
Þóra Kemp, teymisstjóri Virknihúss.
Sigríður Arndís Jóhannsdóttir, verkefnastjóri, Vesturmiðstöð.
Guðlaug Jóna Hilmarsdóttir, teymisstjóri atvinnu- og virknimiðlunar, starfsmaður hópsins.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Árið 2020 var skipaður stýrihópur um stefnumótun í þróun félagsmiðstöðva fyrir fullorðið fólk. Fulltrúi Flokks fólksins átti sæti í þeim hópi sem var um það bil að skila af sér þegar einn fulltrúi meirihlutans stöðvaði ferlið. Nú er stofnaður nýr hópur. Fulltrúa Flokks fólksins þótti þetta miður og var aldrei upplýstur um ástæðu þess að hópurinn fékk ekki að kynna niðurstöður sínar. Hópurinn 2020 var byggður á tillögu Flokks fólksins frá 2019, sennilega þeirri einu sem fékk hlustun að heitið geti á síðasta kjörtímabili. Tillagan hljóðaði svo: Lagt er til að Reykjavíkurborg skoði nýjar leiðir með því að beita nýsköpun við uppsetningu og þróun félagsmiðstöðva í þjónustu við aldraða. Flestar þær félagsmiðstöðvar sem nú eru starfræktar í borginni eru með svipuðu sniði og þjóna sínum tilgangi. Því hefur þó verið fleygt fram að karlmenn sæki þær síður en konur. Hafa ber í huga að þeir sem nú eru aldraðir eru með annars konar reynslu en eldri borgarar fyrir 20-30 árum. Flokkur fólksins leggur til að settur verði á laggirnar stýrihópur sem skoði að beita aðferðum nýsköpunar við þróun nýrra þjónustuleiða og afþreyingar fyrir eldri borgara Reykjavíkur og leiti leiða til að veita notendum meiri lífsfyllingu og ánægju á efri árum.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um vinnureglu varðandi fyrirspurnir til velferðarráðs, sbr. 20. lið fundargerðar velferðarráðs frá 5. október 2022. VEL22100134.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:
Lagt er til að velferðarráð samþykki að setja sér eftirfarandi vinnureglu sem varðar fyrirkomulag funda og erindi sem lögð eru fram í ráðinu. Lagt er til að viðhaft verði það vinnulag að ráðið yfirfari í sameiningu öll ný mál sem berast á fundinum og að þeim fyrirspurnum og tillögum sem varða ekki verksvið ráðsins verði þá þegar vísað frá eða vísað á réttan stað. Hið sama mun eiga við um fyrirspurnir sem snúa að upplýsingum sem eru nú þegar auðveldlega aðgengilegar kjörnum fulltrúum á vefsíðu Reykjavíkurborgar og/eða auðsóttar á veraldarvefinn. Einnig er lagt til að þess verði gætt að fyrirspurnir séu í samræmi við ákvæði samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, að þær skuli að jafnaði ekki vera lengri en 200 orð.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt. Fulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
Tillagan er samþykkt svo breytt.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur til að settar verði vinnureglur um fyrirspurnir þannig að formanni ráðsins verði heimilt að vísa frá fyrirspurn þar sem fyrirspurnir snúa að aðgengilegum upplýsingum. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta mjög sérkennileg tillaga, sérstaklega þar sem hún kemur frá minnihluta fulltrúa. Tillaga sem þessi er til þess gerð að skerða hlutverk minnihlutans sem hefur þá skyldu að veita aðhald og eftirlit. Óvenjulegt er að minnihluta fulltrúar leggi til að skerða tjáningarfrelsi minnihlutans. Fulltrúi Flokks fólksins minnir á réttindi minnihlutans sem er að leggja fram fyrirspurnir, tillögur og bókanir á fundum borgarinnar. Flokkur fólksins er eins og aðrir flokkar kosinn til að vinna fyrir borgarbúa að málefnum flokksins og eru fyrirspurnir, tillögur og bókanir aðaltækið til þess. Eins og vitað er eru allir fundir lokaðir fundir og því eru samtöl og samræður sem þar fara fram ekki aðgengilegar borgarbúum. Framlögð mál fara hins vegar í fundargerðir og koma fyrir augu borgarbúa. Mikilvægt er því að loka ekki á þessa leið sem borgarbúar hafa til að afla sér upplýsinga um störf borgarfulltrúa.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um nýtt húsnæði fyrir starfsemi Mánabergs, sbr. 19. lið fundargerðar velferðarráðs frá 5. október 2022, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 2. nóvember 2022. VEL22100133.
Velferðarráð leggur fram svohljóðandi breytingartillögu:
Velferðarráð felur velferðarsviði í samráði við Eignaskrifstofu Reykjavíkurborgar að finna hentugra og hagkvæmara húsnæði fyrir starfsemi Mánabergs til að brúa bilið þar til framtíðarhúsnæði sem er á fjárhagsáætlun er tilbúið.
Samþykkt.
Tillagan er samþykkt svo breytt.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur Fólksins er sammála tillögu Sjálfstæðisflokksins þar sem lagt er til að Eignaskrifstofu Reykjavíkurborgar verði falið að finna nýtt og stærra húsnæði fyrir starfsemi Mánabergs þar til búið verður að byggja nýtt framtíðarhúsnæði fyrir starfsemina. Í ársskýrslu Barnaverndar Reykjavíkur kemur fram að húsnæði Mánabergs á Laugarásvegi er að þrotum komin. Starfsemin er rekin í húsnæði sem dugði starfseminni fyrir 30 árum síðan. Umtalsverðar breytingar hafa orðið á starfsháttum Barnaverndar, úrræðum og málum hefur fjölgað. Nú dvelja foreldrar með börnum sínum í Mánabergi til að efla foreldra í uppeldishlutverki sínu, styðja þau í tengslamyndun við börn sín. Þegar Mánaberg var tekið í notkun 1993 var almennt ekki gert ráð fyrir foreldrum í húsinu. Nýting Mánabergs hefur undanfarin ár verið um 130% Af þessu er ljóst að starfsemin hefur breyst mikið með auknum kröfum um bætta þjónustu og því er brýnt að bregðast við og leysa vanda Mánabergs eins fljótt og auðið er.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um skilgreiningu lágmarksframfærsluviðmiðs, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs, sbr. 14. lið fundargerðar borgarráðs 11.ágúst 2022, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 2. nóvember 2022. MSS22070051.
Tillagan er felld með fimm atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Ekki eru til neinar opinberar skilgreiningar á lágmarksframfærsluviðmiði. Tekið er undir mat velferðarsviðs að eðlilegra sé að ríkisvaldið setji fram skilgreiningu á lágmarksframfærsluviðmiði í stað þess að Reykjavíkurborg setji fram slíkt viðmið.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillögu Sósíalistaflokks Íslands um að skilgreina lágmarksframfærsluviðmið var vísað frá borgarráði til velferðarsviðs. Flokkur fólksins vonar að það verði tekið vel á móti þessari tillögu því að það ætti að vera fyrir löngu búið að skilgreina lágmarksframfærsluviðmið sem miði að því að einstaklingar og fjölskyldur búi ekki við fátækt. Athyglisvert er að lesa skýrslu Velferðarvaktarinnar um fátækt frá árinu 2015 en þar hvetur Velferðarvaktin bæði ríki og og sveitarfélög að hefja sameiginlega vinnu með hagsmunaaðilum þannig að ná megi sem víðtækastri samstöðu um hvaða viðmið eigi að liggja að baki þegar ákvarðanir um lágmarksbætur eru teknar. Velferðarvaktin telur að hafa megi skýrslu um „Íslensk neysluviðmið“ sem velferðarráðuneytið gaf út árið 2011 til hliðsjónar í starfinu. Skoðað verði hvort slík viðmið eigi að vera lögbundin eða hvort þau eigi að vera til hliðsjónar (leiðbeinandi) eins og nú er varðandi fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Þetta eru vissulega gömul gögn en á sama tíma segja þau mikið um máttleysi stjórnvalda. Okkur hefur ekki enn tekist að koma okkur saman um lágmarksframfærsluviðmið. Nú er lag fyrir velferðarsvið að koma þessu í lag og sporna við fátækt.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að mæta þörfum þeirra sem vísað er úr landi, sbr. 5. lið fundargerðar velferðarráðs frá 21. september 2022. VEL22050035.
Tillögunni er vísað frá með sex atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Flokks fólksins gegn einu atkvæði fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Tekið er undir þau sjónarmið sem fram koma í tillögu sósíalista. Mikilvægt er að taka vel á móti fólki á flótta og mun Reykjavíkurborg ekki láta sitt eftir liggja hvað það varðar og halda áfram því góða starfi.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um kynningarátak á snjallforritum fyrir bílastæði borgarinnar, sbr. 19. lið fundargerðar velferðarráðs frá 14. september 2022, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 2. nóvember 2022. VEL22090106.
Felld með fimm atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Þann 29. september 2019 lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram svohljóðandi tillögu í skipulags - og samgönguráði um kynningarátak á bílahúsum: Lagt er til að Reykjavíkurborg og Bílastæðasjóður ráðist í kynningarátak á bílahúsum miðborgar og frekari þróun á viðeigandi snjallforritum með það fyrir augum að gera miðborgina aðgengilegri. Tillögunni var vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, þann 6. nóvember 2019. Umsögn barst 31. mars 2022 https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/tillaga_fulltrua_sjalfstaedisflokksins_um_kynningaratak_a_bilhusum_us190312.pdf Þann 29. júní sl. var tillagan lögð fram að nýju í Umhverfis- og skipulagsráði og var hún samþykkt. Athygli vekur að Flokkur fólksins bókaði við tillöguna og studdi hana, að hún skuli vera lögð fram sem ný tillaga. Lagt er til að tillögu Flokki fólksins sé vísað frá þar sem afgreiðslu á þessari tillögu er lokið og hún komin í ferli innan borgarinnar.
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi sósíalista tekur undir mikilvægi þess sem er fjallað um hér.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins leggur til að farið verði í kynningarátak á þeim snjallforritum sem eru notuð í bílastæðahúsum borgarinnar og almennt í bílastæðum Reykjavíkur. Margir eru mjög óöruggir við notkun á þessum forritum og þá einkum eldri kynslóðin. Það er reyndar ekki bara eldra fólk sem lendir í vandræðum í bílastæðum borgarinnar því þar er vandamálið að erfitt getur verið að tengjast réttri staðsetningu í gegnum svokallað GPS kerfi. Þannig getur einstaklingur haldið að hann hafi borgað fyrir bílastæði en fær sekt því að hann var að borga fyrir bílastæði á öðru svæði þar sem staðsetningartæki bílastæðahússins náði ekki réttri tengingu við bílinn. Það er hægt að koma í veg fyrir þetta með betri merkingum í húsunum og hreinlega upplýsa fólk um þessa hættu. Flokkur fólksins gerir sér grein fyrir því að Bílastæðasjóður heyrir undir skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar á umhverfis- og skipulagssviði. Fulltrúi Flokks fólksins taldi það ekki skipta máli hvaða ráð myndi senda áskorun til Bílastæðasjóðs um að standa að góðri kynningu á þessum málaflokki. Tillagögunni var vísað frá. Tillagan er á ferli annars staðar.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um rafknúin farþegahjól fyrir fatlað fólk, sbr. 18. lið fundargerðar velferðarráðs frá 14. september 2022, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 2. nóvember 2022. VEL22090105.
Vísað frá. Fulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins lagði til að Reykjavíkurborg kaupi rafknúin farþegahjól fyrir fatlað fólk í Reykjavík. Tillögunni er vísað frá. Þessi hjól hafa verið keypt í Hafnarfirði og hafa veitt gleði og frelsi þar sem þau koma fólki milli staða með auðveldum hætti. Þau eru rafknúin og auðveld í notkun. Komin er ákveðin reynsla á þessi hjól og hafa þau sem nota þau fundist þetta bæta lífsgæði þeirra. Þessi hjól eru sögð hjálpa til við að efla þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu. Reykjavíkurborg ætti að skoða þessa tillögu í stað þess að fella hana enda er hún góð og í þágu fólks sem glímir við hreyfivandamál. Reykjavík má alveg horfa meira til annarra sveitarfélaga sem eru að gera góða hluti í ýmsum málum. Reykjavík sem ætti að vera leiðandi vegna stærðar sinnar er eftirbátur með margt.
Fylgigögn
-
Lögð fram drög að fundaáætlun velferðarráðs fyrir tímabilið janúar - júní 2023. VEL22100470.
-
Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 2. nóvember 2022, við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað vegna smáhýsa, sbr. 20. lið fundargerðar velferðarráðs frá 14. september 2022. VEL22090107.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 2. nóvember 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna í borgarráði um stöðu tillögu um hækkun viðmiðunarfjárhæðar sérstaks húsnæðisstuðnings, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. september 2022. MSS22070052.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 2. nóvember 2022, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um sundurliðun biðlista eftir félagslegri heimaþjónustu, sbr. 11. lið fundargerðar velferðarráðs frá 21. september 2022. VEL22090222.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins spurði um fólkið sem bíður eftir félagslegri heimaþjónustu en þeir voru 118 þegar fyrirspurnin var lögð fram. Spurt var um hvar þetta fólk er statt? Hvað margir eru heima að bíða? Hvað margir eru hjá aðstandendum? Hvað margir eru á hjúkrunarheimilum, þjónustukjarna og hvað margir eru fastir á Landspítala - háskólasjúkrahúsi vegna þess að þeir geta ekki farið heim því enga heimaþjónustu er að fá. Árið 2019 biðu 271. Fyrirspurninni er ekki svarað heldur aðeins reglur skýrðar. Flokkur fólksins er hér að hugsa um fólkið, einstaklinga. Gæta þarf þess að verða ekki of kerfislægur í svona málum. Hér er um að ræða einstaklinga sem gætu verið að líða kvalir vegna biðar og spurt er um hvort velferðarsvið viti hver staðan er hjá fólki sem bíður eftir þessari þjónustu. Gott er þó að fá það fram skýrt að þeir sem eru að útskrifast af sjúkrahúsi eru í forgangi að fá þjónustu og fara ekki á biðlistann. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þeim 118 sem bíða samkvæmt tölfræðinni og svar sviðsins léttir ekki þær áhyggjur.
Fylgigögn
Fundi slitið kl. 15:37
Heiða Björg Hilmisdóttir (sign)
Sanna Magdalena Mörtudóttir (sign) Magnea Gná Jóhannsdóttir (sign)
Þorvaldur Daníelsson (sign) Helga Þórðardóttir (sign)
Magnús Davíð Norðdahl (sign) Sandra Hlíf Ocares (sign)