Áhersla verður lögð á að manna grunnþjónustu í velferðar,- skóla- og frístundastarfi, samkvæmt nýjum tímabundnum ráðningarreglum Reykjavíkurborgar sem borgarráð samþykkti í dag.
Reykjavíkurborg hefur undanfarin misseri lagt áherslu á að skapa og bjóða störf þeim sem glímt hafa við atvinnuleysi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru auk þess sem starfsfólki var bætt við í faraldrinum til að glíma við brýn verkefni. Fjöldi fyrirtækja og þjónustustofnana borgarinnar kallar nú eftir starfsfólki en halli af rekstri Reykjavíkurborgar á fyrri helmingi ársins nemur tæpum níu milljörðum króna, sem er talsvert umfram fjárhagsáætlanir. Launakostnaður er 4,6% umfram fjárheimildir, eða tæpum tveimur milljörðum króna og er því ástæða til að hægja á eða takmarka ráðningar þar sem við á. Verður því á næstu misserum ekki gert ráð fyrir ráðningum í störf sem losna nema brýna nauðsyn beri til og leggja borgaryfirvöld áherslu á að sviðsstjórar og aðrir stjórnendur gæti aðhalds í launaútgjöldum og reyni að finna aðrar leiðir en endurráðningar í laus störf.
Nýjar ráðningarreglur taka gildi 1. nóvember næstkomandi og gilda út árið 2024. Markmið þeirra er að auka yfirsýn með nýráðningum og endurráðningum vegna starfsmannaveltu og draga úr eða fresta ráðningum þar sem færi er á, án þess þó að skapa hik varðandi ráðningar í grunnþjónustu við velferðar,- skóla- og frístundastarf, þar sem mikilvægt átak í ráðningum stendur yfir.