Borgarráð - Fundur nr. 5680

Borgarráð

Ár 2022, fimmtudaginn 20. október, var haldinn 5680. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru Einar Þorsteinsson, Alexandra Briem, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Kjartan Magnússon og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Baldursdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram, Pétur Krogh Ólafsson, Þorsteinn Gunnarsson og Hulda Hólmkelsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

 1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. október 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. október 2022 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Starhaga-Þormóðsstaðavegar vegna lóðarinnar nr. 11 við Starhaga, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  -    Kl. 09:07 tekur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir sæti á fundinum. MSS22100145

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Hér er verið að samþykkja að auglýsa breytt deiliskipulag fyrir leikskólann við Starhaga með stækkun í huga til þess að geta komið fyrir fleiri deildum, starfsfólki og börnum. Þessi breyting er hluti af Brúum bilið verkefninu sem gengur út á að geta boðið 12 mánaða gömlum börnum leikskólapláss í sínu hverfi. 

  Fylgigögn

 2. Lagt fram að nýju bréf umhverfis- og skipulagssviðs varðandi útnefningar til fegrunarviðurkenninga fyrir árið 2022, dags. 15. september 2022, sbr. 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. september 2022 sem fært var í trúnaðarbók fram yfir afhendingu þeirra þann 19. október sl.

  Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  -    Kl. 9:10 tekur borgarstjóri sæti á fundinum. MSS22090122

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar lögðu fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsins:

  Fegrunarviðurkenningar borgarinnar ganga út á að lyfta þeim verkefnum í endurgerð húsa og lóða þar sem vandað hefur verið verka. Eins og gefur að skilja eru flest húsaverkefnin í miðborginni þar sem elstu húsin eru. Þá eru einnig veittar viðurkenningar fyrir endurgerð lóða og lóðafrágang sem miðast ekki endilega við miðborgina. Til að mynda hafa Hádegismóar 8 fengið viðurkenninguna, Hilton Nordica við Suðurlandsbraut, Hátún og fleiri staðir. Borgarráð þakkar dómnefnd fyrir vel unnin störf.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsins:

  Fulltrúi Flokks fólksins finnur sig knúinn til að bóka aftur sömu gagnrýnina þegar kemur að fegrunarviðurkenningum og fyrirkomulaginu í því sambandi. Fulltrúi Flokks fólksins telur að leggja eigi áherslu á að dreifa vali á viðurkenningum þannig að viðurkenningar fari í fleiri hverfi en miðbæinn. Það hefur verið lenska meirihlutans að einblína á ákveðinn miðsvæðis hring og hér er það enn og aftur gert. Reykjavík er stærri en einn miðsvæðisblettur. Aftur er spurt af hverju ekki megi horfa til annarra hverfa, t.d. Breiðholts, Árbæjar og Grafarvogs, ekki síst þegar kemur að vali fyrir falleg hús og lóðir. Áður hefur fulltrúi Flokks fólksins lagt til og gerir hér aftur að fjölga þessum viðurkenningum þar sem enginn kostnaður felst í því, nema kannski að kaupa blómvönd. Að fá viðurkenningu af þessu tagi er hvatning fyrir fólk til að fegra umhverfi sitt. Hugmynd Flokks fólksins um að velja mætti eitt hús í hverju hverfi til að veita viðurkenningu hefur í tvígang verið lögð fram en hefur ekki náð eyrum skipulagsyfirvalda. Virkja mætti íbúðaráðin í þessu sambandi eða kalla eftir með skýrari hætti tilnefningum úr öllum hverfum.

  Fylgigögn

 3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 14. október 2022, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð samþykki að í fyrirhugaðri umbreytingu og uppbyggingu á skipulagsreit í Vogabyggð 3, sem afmarkast af Tranavogi – Súðarvogi – Dugguvogi, gildi samningsmarkmið Reykjavíkurborgar á uppbyggingarsvæðum, sem samþykkt voru á fundi borgarstjórnar 1. febrúar 2022. Vegna viðbygginga og breyttrar nýtingar húsa á skipulagsreitnum skal gefa út nýja lóðarleigusamninga við þá lóðarhafa. Á svæði sem afmarkast Dugguvogi – Súðarvogi – Sæbraut gildir áfram samningsrammi Reykjavíkurborgar í fyrirhuguðum samningum við lóðarhafa á svæðum 1, 2 og 3 í Vogabyggð.

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22100137

  Fylgigögn

 4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 17. október 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð hafni að þessu sinni að nýta forkaupsrétt sinn í fiskiskipið Mars RE-270, ásamt fylgiskjölum.
  Samþykkt.

  Ívar Örn Ívarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22100109

  Fylgigögn

 5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 18. október 2022, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð samþykki að fela innkaupaskrifstofu að hefja samantekt gagna til undirbúnings útboði á ytri endurskoðunarþjónustu í samvinnu við stjórnir félaga innan samstæðu Reykjavíkurborgar með vísan í hjálagt bréf endurskoðunarnefndar, dags. 12. október 2022.

  Samþykkt. MSS22090174

  Fylgigögn

 6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 18. október 2022, ásamt fylgiskjölum:

  Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að samningi aðildarfélaga Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) um samráð og samstarf á höfuðborgarsvæðinu um velferðarþjónustu með vísan í bréf framkvæmdastjóra SSH, dags. 10. október 2022.

  Samþykkt. MSS22100144

  Fylgigögn

 7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 18. október 2022:

  Lagt er til að borgarráð samþykki að fela íþrótta- og tómstundasviði (ÍTR) að gera samkomulag við Farfugla ses. um afnot langtímagesta að tjaldstæðinu í Laugardal ásamt því að kanna möguleika á staðsetningu fyrir langtímastæði fyrir húsbíla með íbúum sem nú búa á svæðinu í Laugardal. Tillögunum verði skilað fyrir 1. desember 2022. Jafnframt er lagt til að borgarráð samþykki að ÍTR gangi frá endanlegu uppgjöri við íbúa fyrir tímabilið maí til ágúst 2022 og að ÍTR geri samkomulag við Farfugla um uppgjör á leigu fyrir tímabilið maí til desember 2022. Gert verði ráð fyrir fjárveitingu í viðauka fjárhagsáætlunar ÍTR vegna 2022 þegar endanlegt uppgjör liggur fyrir.

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Frestað.

  Kl. 9:26 víkur Kjartan Magnússon af fundinum og Marta Guðjónsdóttir tekur sæti. MSS22080038

 8. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 17. október 2022, varðandi tímabundnar ráðningarreglur hjá Reykjavíkurborg, ásamt fygliskjölum. Greinargerð fylgir tillögunni.

  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

  Lóa Birna Birgisdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS22100142

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Eins og fram kemur í tillögunni eru markmiðin með henni að auka yfirsýn með nýráðningum, draga úr eða fresta ráðningum þar sem við á og draga úr launakostnaði. Um leið er tillögunni ætlað að tryggja að ekki verði hik í ráðningum vegna grunnþjónustu við velferð, skóla- og frístundastarf. 

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Ekki veitir af því að breyta ráðningarreglum eins og tillagan gengur út á. Auka þarf yfirsýn með nýráðningum og fyrirkomulag eftirfylgni með þeim. Draga úr og fresta ráðningum. Sum svið hafa verið nánast stjórnlaus og ráðið fólk eins og enginn sé morgundagurinn. Þetta á sérstaklega við um þjónustu- og nýsköpunarsvið sem hefur ráðið tugi manns, þ.m.t. hóp lögfræðinga m.a. úr einkageiranum með tilheyrandi kostnaði. Flokkur fólksins hefur spurt um þetta því í ársskýrslu þjónustu- og nýsköpunarsviðs er talað um að sviðið hafi sérstaka lögfræðiþjónustu. Ekki er alveg séð nauðsyn sérstakrar lögfræðiþjónustu á stafrænu sviði til að skoða einhver álitaefni sem kunna að koma upp í umbótaverkefnum. Þess vegna er því fagnað að skoða eigi nánar ráðningarreglur borgarinnar.

  Fylgigögn

 9. Lagt fram trúnaðarmerkt minnisblað borgarlögmanns, dags. 17. október 2022, um þau málaferli sem Reykjavíkurborg á aðild að fyrir dómstólum. MSS22040188

 10. Lagt fram minnisblað skóla- og frístundasviðs, dags. 18. október 2022, varðandi laus pláss og stöðu mönnunar í leikskólum Reykjavíkurborgar.

  Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS22080136

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Staðan á mönnun á leikskóla í október er að það vantar 83 stöðugildi á leikskólana. Fyrr í haust vantaði 122 stöðugildi sem þýðir að búið er að ganga frá ráðningum á um 40 manns. Staðan á vinnumarkaði er með þeim hætti að erfiðara reynist að ráða fólk inn á leikskólana. Um leið er mikilvægt að ljúka því að ráða í öll stöðugildi til þess að hægt sé að bjóða fleiri börnum pláss á leikskólum borgarinnar. 

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lýsa áhyggjum af mönnunarvandanum, en erfitt verður að leysa leikskólavandann ef ekki verður tekið á mönnunarvandanum.

  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Mikilvægt er að bæta kjör og starfsaðstæður í leikskólum. Miðað við 11. október 2022 er staða mönnunar sú að ennþá er eftir að ráða í 83 grunnstöðugildi í 67 borgarreknum leikskólum. Í minnisblaðinu kemur fram að það sem af er hausti hefur verið nokkur starfsmannavelta, þ.e. að starfsfólk hafi staldrað stutt við í starfi og að það skýri að hluta til af hverju mönnun hefur í heildina lítið breyst undanfarnar vikur. Miðað við 13. október 2022 er fjöldi lausra plássa 222. Af þessum plássum eru 187 laus vegna mönnunarvanda.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Staða mönnunar í leikskólum er slæm, verri en Flokkur fólksins átti von á. Tölur þessa mánaðar eru að ennþá á eftir að ráða í 83 grunnstöðugildi í 67 borgarreknum leikskólum. Fólk staldrar stutt við. Af hverju skyldi það vera? Þetta þarf að skoða. Alls eru laus 449 pláss í 69 leikskólum, mest vegna mönnunarvanda og vegna þess að ekki er hægt að nota húsnæðið. Mönnunarvandi hefur fest rætur í Reykjavík og breytir þá engu hvernig árferði er, hvort það er næg atvinna eða atvinnuleysi. Leikskólar virðast ekki laða að starfsfólk. Flokkur fólksins var með tillögu sem gæti hjálpað. Sú tillaga laut að því að ráða eldra fólk sem það vill og getur, fólk yfir sjötugu til að vinna í leikskólum. Í þeim aldurshópi er mikill mannauður.

  Fylgigögn

 11. Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 17. október 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ávinning af sameiningu leikskóla og grunnskóla, sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. apríl 2019.

  Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS22080089

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Þessi fyrirspurn var lögð fram í apríl 2019. Hér er við hæfi að spyrja um hvert vandamál stjórnsýslu sviðsins er, að svara fyrirspurn þremur árum eftir að hún er lögð fram. Fyrirspurnin var um ávinning af sameiningu leik- og grunnskóla, fjárhagslegan ávinning og faglegan. Ef litið er til svars er farið yfir sameiningar  á leik- og grunnskólum síðustu 10 ára. Niðurstöður um fjárhagslegan ávinning á þeirri umdeildu breytingu sem gerð var á  skóla- og frístundastarfi í norðanverðum Grafarvogi þegar Víkurskóli, Engjaskóli og Borgaskóli urðu til liggja ekki fyrir, hvað þá faglegan ávinning ef einhver er. Sama má segja um niðurlagningu Háaleitisskóla þegar til urðu Álftamýrarskóli og Hvassaleitisskóli. Leikskólar hafa verið sameinaðir í stórum stíl og alveg á eftir að sjá hver ávinningur er þar af. Reikna má með fjárhagslegum ávinningi þar sem yfirbygging minnkar og er það gott svo fremi sem það komi ekki niður á faglegum ávinningi.

  Fylgigögn

 12. Lagt fram að nýju bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 18. ágúst 2022, sbr. afgreiðslu skóla- og frístundaráðs á tillögu Sjálfstæðisflokksins um bakvarðasveit leikskóla, sbr. 20. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. ágúst 2022. Einnig lögð fram umsögn skóla- og frístundasviðs og fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 13. september 2022.

  Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga formanns borgarráðs:

  Lagt er til að borgarráð samþykki að fela afleysingastofu Reykjavíkur að leita til og hvetja leikskólamenntaða kennara sem sinnt hafa öðrum störfum og sömuleiðis þá leikskólakennara sem eru komnir á eftirlaun, leikskólakennaranema, tómstundafræðinga og aðra uppeldismenntaða einstaklinga auk almennra starfsmanna til að skrá sig til tímabundinna starfa við leikskóla borgarinnar. Mikil þekking og reynsla felst í þessum mannauði sem getur nýst vel á meðan verið er að tryggja mönnun leikskólanna til frambúðar. Þar sem afleysingastofan er nú þegar starfrækt og nú þegar eru til staðar ferlar og verklag við að ráða starfsfólk í hin ýmsu tímabundnu störf þá hentar vel að fela henni þetta verkefni.

  Breytingartillagan er samþykkt með sex atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokksins Íslands. 
  Tillagan er samþykkt svo breytt með sex atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokksins Íslands

  Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS22080115

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að jákvætt sé tekið í tillögur þeirra að lausn leikskólavandans, en þær eru hver um sig mikilvægur liður í því að leysa þennan bráðavanda.

  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Skoða þarf rót vandans í því af hverju það gengur ekki að fullmanna leikskóla. Mikilvægt er að fullmanna leikskóla með því að tryggja góð kjör og starfsaðstæður. Margir hafa lokið störfum vegna þess að þau eru afar slítandi, enda erfiðisvinna. Það sést á hlutfalli þeirra sem búa við stoðkerfisvandamál eftir störf í leikskóla. Fulltrúar sósíalista geta ekki tekið undir útvíkkun á afleysingastofu eins og fjallað er um í umsögn skóla- og frístundasviðs með tillögunni. Þar kemur fram að vel væri hægt að útfæra efni þessarar tillögu innan afleysingastofu. Slíkt byggir á „sveigjanlegum vinnutíma“ en í raun er ekki hægt að ganga að því vísu að alltaf sé hægt að fá fullt starf eða skilgreint og ákveðið vinnuhlutfall í gegnum slíkt sem svipar til núll vinnutíma samninga (e. zero hour contract), og hefur fengið gagnrýni frá samtökum launafólks. Þar er enginn lágmarksvinnutími skilgreindur og vinnan gjarnan kynnt sem sveigjanleg og eftirsóknarverð fyrir manneskjuna sem vinnur starfið og getur ráðið sínum tímum. Fulltrúar sósíalista ítreka mikilvægi þess að fullmanna leikskólana með starfsfólki sem sér fram á að vera þar í föstu starfshlutfalli til lengdar. Það er betra fyrir starfsfólk og það er miklu betra fyrir börnin.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Á haustdögum stigu foreldrar leikskólabarna, sem boðið hafði verið leikskólapláss í leikskólum sem ekki voru til, fram og mótmæltu kröftuglega. Borgarstjórnarflokkar lögðust á eitt að reiða fram tillögur til lausna og létu minnihlutaflokkar ekki sitt eftir liggja. Flokkur fólksins lagði fram tillögu um að veita skyldi foreldrum sem eru í mestri neyð aðstoð í formi sérstaks styrks á meðan verið er að ljúka framkvæmdum við leikskóla. Einnig að bjóða foreldrum sem það hentar mánaðarlegan styrk (heimgreiðslur) sem jafngildi niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar fyrir leikskólapláss fyrstu tvö árin á meðan Reykjavíkurborg getur ekki veitt yngstu börnunum leikskólapláss. Ekkert hefur spurst til þessara tillagna en á dagskrá fundar borgarráðs eru til afgreiðslu sjö tillögur Sjálfstæðisflokksins sem lúta að leikskólamálum. Ein af þeim er að komið verði á fót bakvarðasveit til að tryggja mönnun leikskólanna. Um yrði að ræða bakvarðasveit t.d. leikskólakennaranema og annarra uppeldismenntaðra einstaklinga sem leikskólar geti leitað til. Flokki fólksins finnst þessi hugmynd góð og líst vel á að henni sé stýrt af afleysingastofu Reykjavíkurborgar sem hefur verið starfrækt frá 2018. Afleysingastofan hefur fyrst og fremst horft til háskólanemenda en með þessari tillögu væri hópurinn stækkaður og næði til breiðari hóps.

  Fylgigögn

 13. Lagt fram að nýju bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 18. ágúst 2022, sbr. afgreiðslu skóla- og frístundaráðs á tillögu Sjálfstæðisflokksins um starfsnám nemenda í leikskólaliðanámi og leikskólakennaranámi, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. ágúst 2022. Einnig lögð fram umsögn skóla- og frístundasviðs og fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 14. september 2022.
  Samþykkt.
  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

  Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS22080116

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að jákvætt sé tekið í tillögur þeirra að lausn leikskólavandans, en þær eru hver um sig mikilvægur liður í því að leysa þennan bráðavanda.

  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands og áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Mikilvægt er að fá umsagnir frá hluteigandi aðilum og félögum inn í þessa vinnu. 

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Til að tryggja mönnun leikskólanna er lagt til að skóla- og frístundasvið leiti samstarfs við menntamálaráðuneytið og þá framhaldsskóla sem bjóða upp á leikskólaliðanám, um að komið verði á starfsnámi fyrir þessa nemendur á leikskólum. Flokkur fólksins styður þessa tillögu því það eru örugglega einhverjir nemendur sem gætu vel hugsað sér að starfa á leikskólum án þess að ljúka háskólaprófi. Mögulega gæti slíkt nám verið fyrir suma nemendur brú eða hvati til frekara náms í umönnun eða menntun barna. 

  Fylgigögn

 14. Lagt fram að nýju bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 18. ágúst 2022, sbr. afgreiðslu skóla- og frístundaráðs á tillögu Sjálfstæðisflokksins um heilsdags- og heilsársstörf í leikskólum og frístundaheimilum, sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. ágúst 2022. Einnig lögð fram umsögn skóla- og frístundasviðs og fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 14. september 2022.
  Tillögunni er vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
  Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS22080117 

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Tillögunni er vísað til meðferðar hjá skóla- og frístundaráði. Mikilvægt er að leita sjónarmiða fagstétta sem málið varðar. Í umsögn sviðsins kemur fram að starfsfólki frístundaheimila sem er í hlutastarfi gefst þegar kostur á að vera í fullu starfshlutfalli og starfa í viðkomandi grunnskóla eða annarri starfsemi skóla- og frístundasviðs.

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að jákvætt sé tekið í tillögur þeirra að lausn leikskólavandans, en þær eru hver um sig mikilvægur liður í því að leysa þennan bráðavanda.

  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands og áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Mikilvægt er að fá umsagnir frá hluteigandi aðilum og félögum inn í þessa vinnu. 

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Lagt er til að starfsmönnum frístundaheimila verði boðið upp á heilsdags- og heilsársstörf í leikskólum. Þannig gætu starfskraftar þeirra nýst fyrri hluta dags við leikskólana en seinni hlutann við frístundaheimilin. Flokki fólksins finnst þetta góð tillaga sem vert er að skoða. Flokkur fólksins hefur einnig bent á að bjóða mætti fólki um og yfir sjötugu hlutastörf/heilsdags störf í leikskólum borgarinnar. Í þeim hópi er mikill mannauður enda fólk með langa reynslu að baki.

  Fylgigögn

 15. Lagt fram að nýju bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 18. ágúst 2022, sbr. afgreiðslu skóla- og frístundaráðs á tillögu Sjálfstæðisflokksins um rýmkun rekstrarheimilda leikskóla, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. ágúst 2022. Einnig lögð fram umsögn skóla- og frístundasviðs og fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 13. september 2022.
  Tillögunni er vísað frá með fimm atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

  Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS22080118

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja mikilvægt að til staðar sé heimild til rýmkunar á rekstrarleyfum sem hægt er að grípa til þegar á þarf að halda. Það er því miður að meirihlutinn vísi þessari tillögu frá sérstaklega í ljósi þess að þetta úrræði nýttist vel nú á haustdögum þegar hægt var að hraða opnun leikskólans við Nauthólsveg með rýmkun rekstrarleyfa.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Dæmi eru um það að hægt sé að útbúa leikskólalóð við nýja leikskóla til bráðabirgða. Það er metið hverju sinni og mun vera þannig áfram.

  Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

  Sósíalistar leggja áherslu á að hlustað sé á starfsfólk leikskólanna, það er ekki ákjósanlegt að auka streitu eða vinnuálag á hóp sem nú þegar mótmælir vegna vinnuálags og slæmra starfsaðstæðna, og þar sem enn meira brottfall úr störfum er líklegt með aukningu þess, bæði vegna álagsins og líkamlegs slits. Óöruggt umhverfi barna eykur gríðarlega á álag þeirra sem annast þau. Ef farið yrði í lausn af þessum toga er jafn líklegt að umtal um starfið yrði mjög neikvætt á opinberum vettvangi og þar af leiðandi myndi umsóknum um störf fækka til lengdar. Umfram allt á að bæta kjör og aðstæður starfsfólks, ekki rýra þau með skammtímamarkmið að leiðarljósi.

  Fylgigögn

 16. Lagt fram að nýju bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 18. ágúst 2022, sbr. afgreiðslu skóla- og frístundaráðs á tillögu Sjálfstæðisflokksins um færanlegar kennslustofur við leikskóla, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. ágúst 2022. Einnig lögð fram umsögn skóla- og frístundasviðs og fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 14. september 2022.
  Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

  Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS22080119

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja mikilvægt til að bregðast við leikskólavandanum, að kannaðir verði allir möguleikar á því að koma fyrir færanlegum kennslustofum við leikskóla þar sem aðstæður leyfa. Mikilvægt er að þessari vinnu verði hraðað og sett í deiliskipulagsferli sem fyrst þannig að hægt sé að nýta þennan möguleika þegar á þarf að halda. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  TIllögunni er vísað frá enda kemur fram í umsögn sviðsins að stýrihópur um uppbyggingu leikskóla hefur unnið að þessu verkefni síðan 2018 og mun halda áfram að skoða þörfina á leikskólarýmum og rýna í ákjósanlegar staðsetningar fyrir færanlegar kennslustofur á lóðum leikskóla í borginni. Þá er einnig verið að tryggja kaup á lausum kennslustofum í ljósi þess að á undanförnum misserum hefur þurft að loka einstaka hlutum leik- eða grunnskóla vegna rakavandamála. Þá getur verið mikilvægt að eiga lausar stofur á lager. 

  Fylgigögn

 17. Lagt fram að nýju bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 18. ágúst 2022, sbr. afgreiðslu skóla- og frístundaráðs á tillögu Sjálfstæðisflokksins um mælaborð um stöðu leikskólamála, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. ágúst 2022. Einnig lögð fram umsögn skóla- og frístundasviðs og fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 21. september 2022.
  Samþykkt.

  Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS22080120

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að jákvætt sé tekið í tillögur þeirra að lausn leikskólavandans, en þær eru hver um sig mikilvægur liður í því að leysa þennan bráðavanda.

  Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Tillagan er samþykkt með vísan til umsagnar sviðsins. Verkefnið hangir í raun á stafræna innritunarkerfinu og ætti að vera hægur leikur að hafa slíkar rauntímaupplýsingar á vef borgarinnar með fyrirvara um útfærslu þjónustu- og nýsköpunarsviðs á málinu. 

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Tillaga um mælaborð um að upplýsingar um laus leikskólarými og stöðu biðlista verði settar í svokallað mæliborð á vef Reykjavíkurborgar. Þar komi fram aðgengilegar sundurgreindar og auðskiljanlegar upplýsingar eftir leikskólum og hverfum um stöðu biðlista og laus leikskólarými. Flokkur fólksins telur að þetta stafræna verkefni hefði átt að vera sett í forgang. Reykjavíkurborg er verulega aftarlega hér miðað við önnur sveitarfélög. Ennþá er það þannig að prenta þarf út umsóknareyðublað, fylla það út og fara með það í leikskólann. Spor foreldra eru ómæld í stað þess að geta setið heima hjá sér við tölvu og afgreitt svo einfalda hluti sem þetta er og sem finna má víðast. Upplýsingaflæði milli borgarkerfisins og borgarbúa er slakt. Önnur alls konar mælaborð hafa hins vegar verið sett í forgang, s.s. viðburðardagatal og sorphirðudagatal sem og COVID mælaborð. Það ætti að vera sjálfsögð og eðlileg krafa að tölulegar upplýsingar um jafn mikilvæga þjónustu við borgarbúa sem leikskólarnir eru séu opinberar og aðgengilegar á hverjum tíma þannig að foreldrar geti betur gert ráðstafanir og fylgst með stöðunni í stað þess að þær séu lagðar fram tvisvar til þrisvar á ári á fundi í skóla- og frístundaráði til upplýsingar.

  Fylgigögn

 18. Lagt fram að nýju bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 18. ágúst 2022, sbr. afgreiðslu skóla- og frístundasviðs á tillögu Sjálfstæðisflokksins um að fé fylgi barni í leikskóla, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. ágúst 2022. Einnig lögð fram umsögn skóla- og frístundasviðs og fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 3. október 2022.
  Frestað.

  Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS22080121

  Fylgigögn

 19. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 10. október 2022. MSS22010020

  Fylgigögn

 20. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 13. október 2022. MSS22070029

  Fylgigögn

 21. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 13. október 2022. MSS22010006

  Fylgigögn

 22. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts frá 11. október 2022. MSS22010026

  Fylgigögn

 23. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 12. október 2022. MSS22010027

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar: 

  Flokkur fólksins tekur undir ábendingar sem tengjast strætó í Mjódd en þær fjalla um aðgengi að strætósamgöngum almennt séð í Mjódd. Bókað er m.a. um aðgengi frá aðalbyggingu í strætó (í hjólastól). Taka þarf niður kant við  húsið sjálft, eyjuna þar sem strætó stoppar beggja megin við og líka eyjurnar tvær sem tengjast göngustíg og gangbraut upp í Álfabakka. Margt er hægt að segja um aðstæður biðsalar strætó í Mjódd. Flokkur fólksins hefur áður lagt til að ráðist verði í allsherjar umbætur í biðsalnum. Þarna fer um fjöldi farþega. Lágmark er að hafa opið á kvöldin og þrifum verði gerð betri skil. Árið 2019 lagði Flokkur fólksins fram eftirfarandi tillögu: Lagt er til að biðsalur Strætó bs. í Mjódd verði opinn lengur en til klukkan 18 á kvöldin. Eðlilegt er að biðsalurinn sé opinn eins lengi og vagnar Strætó ganga. Í salnum þarf að vera viðunandi aðstaða, næg sæti og aðgengileg salernisaðstaða. Nefnt hefur verið að þarna þyrfti að vera læst hjólageymsla. Það myndi nýtast t.d. farþegum sem koma lengra að, þ.m.t. frá nágrannasveitarfélögum. Umbætur á þessum stað eru liður í að gera almenningssamgöngur að fýsilegri kosti.

  Fylgigögn

 24. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 13. október 2022. MSS22010031

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 10. lið fundargerðarinnar:

  Gefið er út starfsleyfi fyrir skotvöll á Álfsnesi. Þetta leyfi er í óþökk margra. Starfsleyfið gildir frá 26. júlí 2022 til 31. október 2026 og gildir fyrir rekstur skotvallar utandyra og allra mannvirkja er tengjast skotiðkun. Fulltrúa Flokks fólksins finnst óskir íbúa í þessu máli hafi gróflega verið hunsaðar og samráð hvorki fugl né fiskur.  Í svari Heilbrigðiseftirlitsins við fyrirspurn Flokks fólksins um samráð við íbúa í nágrenni við svæðið vegna veitingu starfsleyfis fyrir skotvöll í Álfsnesi segir að „starfsleyfistillagan hafi verið auglýst á heimasíðu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og tilkynning send til íbúa. Á auglýsingatímabilinu var heimilt að gera skriflegar athugasemdir.“ Telja má víst að að skriflegar athugasemdir hafi borist og þær ófáar enda íbúar langþreyttir á starfsemi skotvallarins.

  Fylgigögn

 25. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 10. október 2022. MSS22010032

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðarinnar:

  Umræða um  um umferðaröryggi fótgangandi í Vogabyggð. Flokkur fólksins tekur undir bókun íbúaráðs Laugardals um öryggi fótgangandi í Vogabyggð. Í júní lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að strax yrði hafist handa við að byggja bráðabirgðagöngubrú yfir Sæbraut við gatnamót við Skeiðarvog/Kleppsmýrarveg, sem eru ein hættulegustu gatnamót Reykjavíkur. Vogabyggð er orðin fjölmenn byggð, en þannig er málum háttað að börnin í hverfinu þurfa daglega að fara yfir Sæbrautina til að sækja skóla, frístundir og fleira. Íbúar Vogabyggðar gera kröfu um að borgaryfirvöld standi við áform og gefin loforð um göngubrú. Samkvæmt þinglýstu samkomulagi við lóðarhafa frá 2016-17 mátti gera ráð fyrir göngubrú þegar árið 2019. Enn bólar ekkert á þessari brú. Nú fá íbúar þær fréttir að ekki verði af þessari göngubrú vegna þess að það eigi að setja Sæbraut í stokk. Framkvæmdir við stokk eiga ekki að hefjast fyrr en eftir tvö ár og klárast 2027. Samkvæmt áætlun á að koma bráðabirgðagöngubrú árið 2026, sem getur gagnast hverfinu. Krafa íbúa í Vogabyggð er skýr og afdráttarlaus: Göngubrú yfir Sæbraut strax. Þörf er á skjótu viðbragði til að bregðast við þeirri stöðu sem hefði átt að vera allri stjórnsýslunni fyrirsjáanleg.

  Fylgigögn

 26. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 19. október 2022.
  B-hluti fundargerðarinnar er samþykktur. MSS22060175

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar: 

  Skipulagsyfirvöld leggja til að reglur um bifreiðar sem eiga rétt á visthæfum skífum verði ekki endurnýjaðar þegar þær renna út í árslok 2022. Þetta eru vonbrigði. Flokkur fólksins hefði frekar talið nauðsynlegt að útvíkka þessar reglur til þess að hvetja þá sem það geta að kaupa vistvæna bíla og flýta enn frekar fyrir orkuskiptum. Með því að endurnýja ekki þessar reglur er í raun verið að refsa þeim sem eiga vistvæna bíla. Meðal raka skipulagsyfirvalda er að nú sé hlutfall rafmagnsbíla mun hærra en þegar reglurnar voru settar. Flokki fólksins finnst þá enn frekar ástæða til að þessar reglur um ívilnanir séu í gildi. Visthæfar skífur eru enn mikilvægar sem hvati fyrir íbúa til að ferðast um á vistvænum ökutækjum. Við eigum langt í land með að ná fullnægjandi árangri í orkuskiptunum og því er hvorki tilefni né ástæða til að slaka neitt á í þeim efnum. Í þessu sambandi tala sumir um að bílastæði séu dýr. Bílastæði eru hluti af því að lifa í borg. Fólk kemur á farartæki og þarf að geta geymt það einhversstaðar á meðan það er að sinna vinnu eða öðru. Bílastæði eru hluti af grunnþjónustu, eins og að bjóða upp á almenningssamgöngur.

  Fylgigögn

 27. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. MSS22090188

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið yfirlitsins:

  Það verður að ganga röskar til verks í miðbæjarmálum vegna hávaða eins og svo vel er lýst í erindi íbúa Grjótaþorps. Við höfum verið að skoða þessi mál frá öllum sjónarhornum en ljóst er að nota þarf heimildir betur enda skorta þær ekki hjá Heilbrigðiseftirliti. Þetta er spurning hvað pólitíkin vill gera en búið er fyrir löngu að keyra yfir íbúa miðbæjar sem búa í nágrenni diskóstaða. Gargandi hávaði er að gera alla vitlausa. Fólk er búið á taugum og klisja eins og „þú vissir að hverju þú gekkst þegar þú keyptir fasteign í bænum“ er ekki bara út í hött heldur dónaleg. Erindi íbúa Grjótarþorps er að fara fram á að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur stöðvi eða takmarki starfsemi American Bar í Austurstræti og Pablo Discobar við Veltusund, enda hljóðvist húsnæðisins í engu samræmi við núverandi starfsemi, og eigendur staðanna hafa brotið nánast allar reglur sem gilda um hávaðamörk. Fleiri staðir eru til ama. Heilbrigðisnefnd getur beitt sér af meiri krafti og lagt t.d. á dagsektir, allt að kr. 500.000 á dag, þar til úr er bætt í samræmi við reglugerð um hollustu og mengunarvarnir frá 2008. Krafan er að Heilbrigðiseftirlitið nýti þessar heimildir til að stöðva brotastarfsemi bara og skemmtistaða Reykjavíkurborgar.

  Fylgigögn

 28. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS22100008

  Fylgigögn

 29. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks kalla eftir upplýsingum um fjölda barna sem voru á biðlista eftir plássi á frístundaheimilum borgarinnar þann 1. september 2022, 1. október 2022 og 20. október 2022. Í framhaldi er óskað upplýsinga um mánaðarlegan kostnað borgarinnar við hvert barn á frístundaheimili. MSS22100202

  Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

 30. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Nú stendur til að leggja niður Bókabílinn. Ákveðnar ástæður liggja fyrir því. Verst kemur þessi ákvörðun niður á íbúum á Kjalarnesi en þeir hafa nýtt þessa þjónustu vel. Þar hefur bókabíllinn gegnt hlutverki bókasafns. Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hvernig meirihlutinn hyggst tryggja íbúum á Kjalarnesi aðgang að bókum á svæðinu. Þetta hefði kannski átt að hugsa áður en Bókabíllinn var lagður niður. Sá niðurskurður sem nú ríður yfir í þjónustu hjá Reykjavíkurborg kemur verst niður á þeim sem síst skyldi, börnum og öðrum viðkvæmum hópum. Í þessu tilfelli kemur þjónustuskerðingin niður á öllum aldurshópum á Kjalarnesi því bækur eru jú eitthvað sem langflestir hafa bæði gagn og gaman af. MSS22100199

  Vísað til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs.

 31. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Flokkur fólksins óskar upplýsinga um eftirfarandi atriði sem lúta að leik- og grunnskólastarfi: Hver er þróun námsárangurs og vellíðunar i skólunum og hver er staðan núna? Til stóð að mæla árangur sérkennslu og lagði Flokkur fólksins fram tillögu þess efnis fyrir alllöngu. Hefur árangur af sérkennslu verið mældur? Hversu margir starfsmenn leikskóla eru íslenskumælandi? Hversu margir starfsmenn leikskólans uppfylla C2 viðmið evrópska tungumálarammans? Hver er fjöldi menntaðra leikskólakennara núna og hvað vantar marga? MSS22100200

  Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

 32. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Nú var að koma hækkun á niðurgreiðslu til dagforeldra vegna barna hjá dagforeldrum. Hækkunin er óveruleg, 3220 kr. sem hækkunin hljóðar uppá hjá giftum/sambúðarfólki með vistun í 8,5 tíma. Flokkur fólksins óskar eftir viðbrögðum og svörum frá skóla- og frístundasviði um hvernig talið er að þessi litla hækkun á niðurgreiðslu eigi eftir að skipta sköpum að heitið geti. Í raun er þetta nánasarleg hækkun og eins og margir hafa orðað það, dugar ekki fyrir einni pizzu. Fulltrúi Flokks fólksins taldi, miðað við umræðu í ágúst og september að hækkunin yrði talsvert hærri, í það minnsta að hún skipti sköpum í lífi fjölskyldna sem hér um ræðir. MSS22100201

  Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

 33. Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Hver eru afdrif tillögu Vinstri grænna sem var lögð fram 7. júlí sl. um að beina umferð á einkaþotum og þyrluflugi annað en um Reykjavíkurflugvöll? MSS22070063

  Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar.

  -    Kl. 11:00 víkur Hildur Björnsdóttir af fundi.

Fundi slitið kl. 11:10

Einar Þorsteinsson Alexandra Briem

Heiða Björg Hilmisdóttir Marta Guðjónsdóttir

Sanna Magdalena Mörtudottir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir