Áfram mikil fjölgun íbúða og grænar áherslur

Umhverfi Stjórnsýsla

""

Hátt í þrjú þúsund íbúðir eru í byggingu í borginni og fyrirséð að þessi uppbygging mun halda áfram af krafti á næstu árum. Þetta kom fram á árvissum kynningarfundi borgarstjóra um uppbyggingu íbúða í borginni. Það kvað einnig við grænan tón í kynningu borgarstjóra og annarra fyrirlesara og ljóst að breytingar eru að verða.

Tjarnarsalurinn í Ráðhúsinu var þéttsetinn og greinilegt að gestum þótti uppbyggingin áhugaverð. Fundinum var streymt og var metáhorf á miðlum Reykjavíkurborgar. Upptaka af fundinum, glærukynningar og myndbönd eru aðgengileg á vefsíðunni reykjavik.is/ibudir. Í útsendingu var gerð tilraun með sjálfvirka textun og vonum við að þau nýmæli falli vel í kramið.

Rúmlega 10 þúsund íbúðir í nýrri 10 ára áætlun bætast við

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynnti nýja úthlutunaráætlun lóða fyrir íbúðarhúsnæði og gerir hún ráð fyrir 10.260 íbúðaeiningar til ársins 2030. Þessa lóðir koma til viðbótar því sem þegar hefur verið úthlutað. Þessi 10 ára áætlun er nýbreytni og er hún gerð til að auka fyrirsjáanleika meðal húsnæðisfélaga og annarra uppbyggingaraðila. Af nýju lóðunum verður  3.536 úthlutað til húsnæðisfélaga, lóðir undir 1.406 íbúðir verða notaðar í verkefni tengdum hagkvæmu húsnæði og grænum húsnæðislausnum og síðan verður byggingarréttur á lóðum fyrir 5.318 íbúðir seldur með útboðsfyrirkomulagi.

 „Sögulega séð er mikið verið að byggja í Reykjavík,“ sagði Dagur. Markmið Reykjavíkurborgar er að fjórðungur nýrra íbúða verði á vegum húsnæðisfélaga sem eru ekki rekin í ágóðaskyni.  Borgarstjóri fór einnig yfir grænar áherslur Reykjavíkurborgar og kynnti verkefnið Grænt húsnæði framtíðarinnar.

Borgarstjóri kynnti uppbyggingarsvæðin hvert af öðru og þar var af nægu að taka. Í dag eru 2.698 íbúðir í byggingu og þar með eru ekki taldar þær 1.167 íbúðir sem á þessu ári fram til 1. október komu á húsnæðismarkaðinn.  Markmið Græna plansins er að árlega verði byggðar 1.000 íbúðir og fjórðungur þeirra verði á vegum húsnæðisfélaga. Þessum markmiðum Græna Plansins var þegar náð 1. október og er húsnæðishluti Græna plansins því á áætlun.

Tengt efni: