Borgarráð samþykkti í dag áætlun um úthlutun lóða undir íbúðarhúsnæði fyrir 10.260 íbúðaeiningar til ársins 2030. Þessi 10 ára áætlun er nýbreytni og er hún gerð til að auka fyrirsjáanleika meðal húsnæðisfélaga og annarra uppbyggingaraðila.
- Lóðum undir 3.536 íbúðir verður úthlutað til húsnæðisfélaga
- Lóðum undir 1.406 íbúðir verður úthlutað í verkefni tengdum hagkvæmu húsnæði og grænum húsnæðislausnum
- Byggingarrétti á lóðum fyrir 5.318 íbúðir verður seldur með útboðsfyrirkomulagi
Markviss uppbygging íbúðarhúsnæðis
Mikil uppbygging síðustu ára skapar sterkar forsendur fyrir áframhaldandi byggingu íbúðarhúsnæðis, segir í húsnæðisáætluninni og er minnt á að snúa þurfti vörn í sókn eftir hrunið með markvissri húsnæðisáætlun. Markmið Reykjavíkurborgar er að fjórðungur nýrra íbúða verði á vegum húsnæðisfélaga sem eru ekki rekin í ágóðaskyni.
Þessi mikla uppbygging sést vel þegar fjöldi íbúða í byggingu er skoðaður og hve margar eru í skipulagsferli. Þessar tölur eru dregnar saman í yfirliti húsnæðisáætlunar 2021:
- Á þessu ári til 1. október komu 1.167 nýjar íbúðir á húsnæðismarkaðinn
- Á sama tíma við lok þriðja ársfjórðung hafði byggingarfulltrúi samþykkt áform um uppbyggingu 1.147 íbúða og framkvæmdir höfðu á árinu hafist við byggingu 880 íbúða.
- Á þessu ári hefur þegar verið úthlutað lóðum fyrir 294 íbúðir og er áætlað að fyrir árslok verði búið að úthluta 450 íbúðum.
- Markmið Græna plansins er að árlega verði byggðar 1.000 íbúðir og fjórðungur þeirra verði á vegum húsnæðisfélaga.
- Þessum markmiðum Græna Plansins var þegar náð 1. október og er húsnæðishluti Græna plansins því á áætlun.
Þéttari byggð og öflugri hverfi
Ártúnshöfðinn er stærsta svæðið í húsnæðisáætlun með nær 6.000 íbúðir. Þar mun rísa fyrsta heildstæða græna borgarhverfi Reykjavíkur, byggt samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum um sjálfbærni. Framkvæmdir eru hafnar á fyrsta svæðinu, Bryggjuhverfi, og deiliskipulag fyrir næstu tvö er í kynningu en það eru Krossmýrartorg og Vogar.
Húsnæðisáætlun Reykjavíkur dregur fram að með þéttingu byggðar og hverfa borgarinnar sé stuðlað að aukinni sjálfbærni hverfanna og borgarinnar allrar.
Nánar í gögnum borgarráðs:
- Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar – uppfærsla 2021. Lögð fram í borgarráði 28. október 2021.
- Græna planið – húsnæðisáætlun – yfirlit þriðja ársfjórðungs
- Húsnæðisáætlun – úthlutunaráætlun 2022 og 10 ára úthlutunaráætlun