Fundur fyrir íbúa vegna breytinga á deiliskipulagi og aðalskipulagi fyrir Sjómannaskólareit ásamt kynningu á aðalskipulagi fyrir Veðurstofuhæð var haldinn 14. maí í Borgartúni 14. Ágæt mæting var á fundinn og var honum einnig streymt. Hér má finna helstu upplýsingar.
Myndir: Teiknaðar/samsettar skýringarmyndir í þrívídd /A2F. Horft úr suðri á Sjómannaskólann og íbúðir námsmanna.
Á fundinum kom fram að auglýsingatími skipulagsins er ekki hafinn og málið yrði í fyrsta lagi lagt fyrir skipulags- og samgönguráð 29. maí. Eftir að það verður það samþykkt í auglýsingu, tekur við um sex vikna auglýsingaferli þar sem öll gögn eru birt og hagsmunaaðilum gefinn kostur á að koma með athugasemdir og ábendingar.
Kynningar og skipulag fundar
Dagskrá fundar var sú að Haraldur Sigurðsson deildarstjóri kynnti drög að breytingu á aðalskipulagi fyrir Sjómannaskólareit og Veðurstofuhæð. Aðalheiður Atladóttir og Falk Krüger arkitektar kynntu drög að deiliskipulagi fyrir Sjómannaskólareit og Anna Lísa Guðmundsdóttir hjá Borgarsögusafni kynnti menningarminjar.
Eftir það gafst um klukkustund í umræður, fyrirspurnir og svör. Til svara á fundinum voru auk frummælenda: Björn Axelsson, skipulagsfulltrúi Reykjavíkur, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir hjá samgöngustjóra, Daði Baldur Ottósson hjá Eflu, Ásgeir Björgvinsson hjá skóla- og frístundasviði, Harri Ormarsson lögfræðingur, Rúnar Gunnarsson hjá frumathugun mannvirkjagerðar og Óli Örn Eiríksson hjá skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar. Gunnar Hersveinn var fundarstjóri og Guðlaug Erna Jónsdóttir verkefnisstjóri var ritari.
Fram komu áhyggjur af hæðum húsa og svöruðu arkitektar því að húsin sem standa næst Sjómannaskóla hafi verið lækkuð, einnig hafa þau verið færð svo þau ekki skyggi ekki á framhlið hússins og því teljist andrými skólans gott. Forsvarsfólk Sjómannaskólans (ríkið) eru sátt við tillöguna. Fram kom einnig á fundinum að Veðurstofureitur verður kynntur síðar þegar drög að deiliskipulag verða tilbúin. Prestur Háteigskirkju upplýsti að kirkjan ætlaði ekki að nýta byggingarreit móttökuhúss næst Nóatúni.
Umferðarmál
Umferðarmál voru til umræðu en áætlað er að viðbótarumferð vegna uppbyggingarinnar séu um 1200 ökutæki á sólarhring sem dreifist á þrjár tengingar við svæðið. Áhrif þessarar viðbótarumferðar eru mest á Háteigsveg, en þau minnka eftir því sem fjær dregur.
Gerð var ítarleg greining á nýtingu núverandi bílastæða, þörf fyrir bílastæði vegna uppbyggingarinnar og möguleikum á samnýtingu. Skoðunin náði ekki einungis til deiliskipulagssvæðisins heldur einnig til nágrennis þess. Nýting bílastæðanna var skoðuð á mismunandi tímum, á virkum dögum og um helgi, að morgni, miðjan dag og síðdegis, m.a. meðan jarðaför fór fram í Háteigskirkju. En eins og við aðra hönnun á innviðum þá er ekki hægt að gera ráð fyrir að hægt sé að taka við allra mestu mögulegum toppum.
Stefnt er að því að gera lagfæringar á Háteigsvegi með það að markmiði að bæta öryggi og aðgengi skólabarna sem þurfa að fara yfir götuna. Þær lagfæringar eru óháðar uppbyggingu á Sjómannaskólareitnum. Vonanandi verður búið að ráðast í þær lagfæringar að hluta eða öllu leiti fyrir uppbyggingu. Ef ekki þá yrði það gert sem hluti af verkefni vegna frágangs borgarlands inni á reitnum.
Skólamál
Skólabygging Háteigsskóla er byggð fyrir u.þ.b. 400 nemendur út frá viðmiðum þágildandi aðalnámskrár. Ekki var gert ráð fyrir aðstöðu fyrir starf félagsmiðstöðvar og frístundaheimilis. Nemendafjöldinn í skólanum hefur aukist töluvert seinasta áratuginn, var í u.þ.b. 360 haustið 2009 en fór yfir 400 haustið 2012. Seinustu tvö haust hefur fjöldinn verið í 450. Vegna þess að tiltölulega lítill 10. bekkur er að fara úr skólanum í ár en líklega að koma inn stærri hópur í 1. bekk, og því gæti nemendafjöldinn farið í 470-480 nemendur næsta skólaár. Miðað við árgangastærðir í hverfinu sem nú eru á leikskólaaldri er hinsvegar ólíklegt að fjöldinn fari yfir það á næstu 2 -5 árum heldur frekar að fjöldinn nálgist það sem nú er. Tvær færanlegar kennslustofur eru komnar á lóð skólans sem teknar verða í notkun næsta haust. Þær ættu að gera það að verkum að staðan inni í skólabyggingunni verði þannig að ekki verði enn þrengra um nemendur en nú er.
Til eru hugmyndir af viðbyggingu við Háteigskóla og hefur skýrsla um nemendatölur- og spár ásamt lýsingu á viðbyggingarþörf verið send borgarstjóra. Með viðbyggingunni ætti heildarskólabyggingin að geta rúmað yfir 500 nemendur. Mikilvægt er einnig að byggja við skólann til að mæta mikilli þörf fyrir aðstöðu frístundaheimilis og félagsmiðstöðar.
Ráðgert er að byggja um 600 íbúðir á næstu árum á svæðum sem eru innan skólahverfis Háteigsskóla, þ.á.m. Sjómannaskólareit. Miðað við hlutföll sem í dag eru í skólahverfinu sem og reynsluna af nýbyggingum á svipuðum svæðum, gæti fjöldi grunnskólabarna af þessum tilteknu uppbyggingarsvæðum orðið á bilinu 50-80. Þessi hópur kæmi þó ekki inn í Háteigsskóla fyrr en eftir nokkur ár.
Hverfisvernd
Lagt er til hjá Borgarsögusafni að stakkstæði og vatnsgeymarnir tveir njóti hverfisverndar. „Fiskþurrkunarreiturinn, stakkstæðið (1974-1) er sjaldgæfur og einstakur minjastaður. Margir slíkir reitir voru víða í Reykjavík fyrr á tímum bæði náttúrulegir við ströndina og manngerðir eins og á Rauðarárholtinu, en hann er eini sjáanlegi reiturinn sem eftir er í Reykjavík.“ „Vatnsgeymarnir hafa mikið sögulegt og umhverfislegt gildi.“ Skilgreining á hverfisvernd er: ákvæði í svæðis-, aðal- eða deiliskipulagi um vernd á sérkennum eldri byggðar, annarra menningarsögulegra minja eða náttúruminja.
Markmið uppbyggingar
Markmiðið er m.a. að uppbygging á Sjómannaskólareit verði á forsendum þeirrar byggðar sem fyrir er. Tekið er tillit aðliggjandi húsa bæði hvað varðar form og hlutföll og staðsetningu á lóð. Menningarminjar og friðlýstar byggingar eru virtar.
Aukin gæði hins manngerða umhverfis koma fram, þar sem götur og bílastæði verða fyrirferðaminni en áður og göngu- og hjólaleiðir bættar með tilheyrandi bættri hljóðvist og loftgæðum. Reiturinn fær heildstæðara yfirbragð en áður.
Tími til stefnu
Fram kom hjá skipulagsfulltrúa á fundinum að það eigi eftir að taka málið fyrir í skipulags- og samgönguráði og samþykkja í auglýsingu. Þegar að það verður gert þá taki við sex vikna auglýsingatími þar sem hagsmunaaðilum gefst kostur á að koma með formlegar athugasemdir við deiliskipulagið.
Tenglar
Kynning á aðalskipulagi - Sjómannaskólareitur - Veðurstofuhæð
Kynning arkitekta á deiliskipulagi
Drög að breytingu á aðalskipulagi vegna Sjómannaskólareitar og Veðurstofuhæðar
Drög að uppdætti - ósamþykkt, getur tekið breytingum:
1. SJÓMANNASKÓLAREITUR 1.254 - BREYTING Á DEILISKIPULAG
2. SJÓMANNASKÓLAREITUR 1.254 - BREYTING Á DEILISKIPULAG
3. SJÓMANNASKÓLAREITUR 1.254 - BREYTING Á DEILISKIPULAG