Unnið á kynbundnum launamun með starfsmati

Fjármál Mannréttindi

""

Kynbundinn launamunur minnkaði á milli áranna 2014 og 2015 úr 3,2% í 2,4% hjá þeim starfsmönnum Reykjavíkurborgar sem taka laun samkvæmt starfsmati. Launamunurinn jókst hins vegar á hjá þeim sem ekki falla undir starfsmat og fór úr 4,9% í 5,4%  á heildarlaunum þegar tekið hefur verið tillit til starfaflokkunar, aldurs, starfsaldurs, starfshlutfalls og vinnutíma. Þetta kemur fram í úttekt sem Félagsvísindastofnun vann fyrir Reykjavíkurborg um kynbundinn launamun 2015 og áhrif breytinga á starfsmatskerfi Reykjavíkurborgar á þann mun.

Mikill meirihluti starfsmanna Reykjavíkurborgar, eða tæplega 5.000, tók laun samkvæmt starfsmati og þar hefur kynbundinn launamunur minnkað eins og áður segir.   Þegar tölur fyrir alla starfsmenn Reykjavikurborgar eru skoðaðar stendur kynbundinn launamunur í stað á milli áranna 2014 og 2015 og er 3,5% á heildarlaunum miðað við fyrrnefndar forsendur.  Samantektin náði til 7.715 stafsmanna í október 2015 og þar af voru 5.906 í 70% starfi eða meira.

Eftirfarandi tafla sýnir kynbundinn launamun af heildarlaunum:

  2014 2015
Allt starfsfólk 3,5% 3,5%
Starfsfólk ekki í starfsmati 4,9% 5,4%
Starfsfólk í starfsmati 3,2% 2,4%

 

Árið 2014 stóðu Reykjavíkurborg og viðsemjendur hennar sem samið hafa um starfsmat að sameiginlegri endurskoðun á starfsmatskerfinu og röðun allra starfa sem undir það heyra. Markmiðið var   m.a. að draga úr kynbundnum launamun.  Helga Björg Ragnarsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara segir það vera ánægjulegt að sjá árangur þeirrar endurskoðunar í  þessum tölum. 

„Það hefur  lengi verið  markmið Reykjavíkurborgar að vinna gegn kynbundnum launamun,“ segir hún.   „Þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í  á undanförnum árum hafa  skilað árangri og þokað málum í rétta átt“. 

Tengt efni: