Á undanförnum vikum hefur verið unnið að því að endurnýja gangstéttir á nokkrum stöðum í Vesturbæ.
Um er að ræða samstarfsverkefni umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar, Orkuveitu Reykjavíkur, Gagnaveitu Reykjavíkur og Mílu. Skipt er um lagnir undir gangstéttum og ljósleiðara komið fyrir. Þá hefur lýsing verið endurnýjuð þar sem kominn er tími á slíkt, t.a.m. við Neshaga.
Við Hagamel er verið að leggja nýja gangstétt og hjólastíg, norðan götunnar á milli Reynimels og Kaplaskjólsvegar en þar var gangstétt orðin molnuð og ónýt.
Verkefnin eru eftirfarandi:
- Grenimelur: Gangstétt endurnýjuð beggja vegna götunnar á milli Espimels og Furumels;
- Melhagi: Gangstétt endurnýjuð sunnan götu;
- Neshagi: Gangstétt og lýsing endurnýjuð norðan götu á milli Furumels og Hofsvallagötu;
- Hagamelur: Gangstétt endurnýjuð og nýr hjólastígur lagður á milli Reynimels og Kaplaskjólsvegar;
- Grandavegur: Gangstétt endurnýjuð norðan götu á milli Framnesvegar og Meistaravalla.
Þá hafa víða verið steyptir bútar í gangstéttir sem voru illa farnar. Framkvæmdirnar miða að því að gera hverfið göngu- og hjólavænna í samræmi við nýtt aðalskipulag Reyjavíkur en að auki gefst gott tækifæri til að endurnýja ýmsar lagnir og koma fyrir háhraða gagnatengingum.
Áætlaður kostnaður Reykjavíkurborgar vegna þessa er 30 milljónir króna.