Göngu- og hjólaleiðir endurnýjaðar í Vesturbæ

Skipulagsmál Framkvæmdir

""

Á undanförnum vikum hefur verið unnið að því að endurnýja gangstéttir á nokkrum stöðum í Vesturbæ. 

Um er að ræða samstarfsverkefni umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar, Orkuveitu Reykjavíkur, Gagnaveitu Reykjavíkur og Mílu. Skipt er um lagnir undir gangstéttum og ljósleiðara komið fyrir. Þá hefur lýsing verið endurnýjuð þar sem kominn er tími á slíkt, t.a.m. við Neshaga.

Við Hagamel er verið að leggja nýja gangstétt og hjólastíg, norðan götunnar á milli Reynimels og Kaplaskjólsvegar en þar var gangstétt orðin molnuð og ónýt.

Verkefnin eru eftirfarandi:

  • Grenimelur: Gangstétt endurnýjuð beggja vegna götunnar á milli Espimels og Furumels;
  • Melhagi: Gangstétt endurnýjuð sunnan götu;
  • Neshagi: Gangstétt og lýsing endurnýjuð norðan götu á milli Furumels og Hofsvallagötu;
  • Hagamelur: Gangstétt endurnýjuð og nýr hjólastígur lagður á milli Reynimels og Kaplaskjólsvegar;
  • Grandavegur: Gangstétt endurnýjuð norðan götu á milli Framnesvegar og Meistaravalla.

Þá hafa víða verið steyptir bútar í gangstéttir sem voru illa farnar. Framkvæmdirnar miða að því að gera hverfið göngu- og hjólavænna í samræmi við nýtt aðalskipulag Reyjavíkur en að auki gefst gott tækifæri til að endurnýja ýmsar lagnir og koma fyrir háhraða gagnatengingum.

Áætlaður kostnaður Reykjavíkurborgar vegna þessa er 30 milljónir króna.

Nýr göngu- og hjólastígur við Hagamel.

Endurnýjun gönguleiða 2014.