Ferli við umsókn og úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis
Eftir að umsókn berst um almennt félagslegt leiguhúsnæði er þér boðið í viðtal til ráðgjafa sem leggur formlegt mat á hvort öll skilyrði séu uppfyllt. Matið er unnið í náinni samvinnu við þig og tekur meðal annars mið af núverandi húsnæðisstöðu, tekjum, heilsufari og félagslegum aðstæðum. Umsókn er í kjölfarið samþykkt eða synjað.
Hvað gerist ef umsókn er synjað?
Ef umsókn er synjað og þú telur sérstakar málefnalegar ástæður liggja fyrir því að veita skuli þér undanþágu frá reglum getur þú sent inn beiðni um áfrýjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs.
Hvað gerist ef umsókn er samþykkt?
Samþykktar umsóknir fara á bið eftir úthlutun húsnæðis. Þar til úthlutun fer fram færð þú upplýsingar um þá þjónustu sem þér stendur til boða.
Hvað ef ég fæ ekki húsnæði strax?
Hafir þú ekki fengið húsnæði innan árs frá því umsókn var samþykkt hefur ráðgjafi samband. Í samtalinu er umsókn uppfærð, farið yfir stöðuna og möguleika á úthlutun á næstu 12 mánuðum.
Hvernig fer úthlutun fram?
Samþykktar umsóknir raðast á biðlista í forgangsröð eftir niðurstöðu faglegs mats. Úthlutunarteymi félagslegs leiguhúsnæðis tekur ákvörðun um úthlutun þegar nýtt húsnæði losnar. Umsækjanda er tilkynnt skriflega þegar hann hefur fengið húsnæði úthlutað og fær tíu daga til að svara hvort hann þiggi það. Umsækjandi sem samþykkir húsnæði skrifar í kjölfarið undir leigusamning við Félagsbústaði eða Reykjavíkurborg.