Almennar leiðbeiningar um veggi, girðingar og gróður á lóðamörkum

Teikning af afleggjara í blómapotti.

Markmiðið með leiðbeiningum er að skýra og einfalda  viðmið um veggi, girðingar og gróður á lóðamörkum og afstöðu Reykjavíkurborgar sem aðliggjandi lóðarhafa. Ennfremur að tryggja umferðaröryggi allra ferðamáta.

Frágangur

Frágangur á lóðamörkum samliggjandi lóða skal unninn í samráði við nágranna og skal ekki skerða nýtingu aðliggjandi lóða. Girðing eða skjólveggur á mörkum lóða er alltaf háður samþykki beggja lóðarhafa óháð hæð girðingar eða skjólveggs og skal samþykkis leitað áður en hafist er handa við smíði girðingar eða skjólveggs sbr. 7.2.3. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Í

Þinglýst samkomulag

Íbúum er ráðlagt að þinglýsa samkomulagi aðliggjandi lóðarhafa varðandi veggi og girðingar á og við lóðamörk og skila inn afriti af þinglýstu samkomulagi til byggingarfulltrúa það getur komið í veg fyrir misskilning síðar. Í yfirlýsingu skal koma fram hæð veggjar/girðingar yfir landi.

Ef deiliskipulag eða hverfisskipulag viðkomandi hverfis kveður á um annað en sett er fram í samþykkt þessari gildir viðkomandi skipulag.

Samþykki Reykjavíkurborgar

Ef veggir, girðingar og gróður á lóðamörkum, þar sem Reykjavíkurborg er eigandi aðliggjandi lóðar, uppfylla eftirfarandi skilyrði eða falla undir e- lið 2.3.5. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 þarf ekki að sækja um samþykki Reykjavíkurborgar:

  • Veggir, girðingar og gróður á lóðamörkum sem snúa að götu eða gangstétt/göngustíg skulu ekki vera hærri en 1,20 m. Þetta er gert til að gæta að sjónlínum vegfarenda og til að gæta öryggis þeirra.
  • Veggir, girðingar og gróður á lóðamörkum sem snúa að opnum svæðum skulu ekki vera hærri en 1,50 m.
  • Við skilgreiningu á hæð veggjar/girðingar er miðað við land sem víkur ekki verulega frá hæðartölum mæliblaðs á lóðamörkum eða því landi sem fyrir er ef hæðarblað er ekki til staðar.

Íbúar eru hvattir til að brjóta upp girðingar og veggi að götum og stígum með gróðurhólfum.

Undanþága

Hægt er að sækja um undanþágu í sérstökum tilvikum frá ofangreindum skilyrðum á upplysingar@reykjavik.is. Með undanþágubeiðni skal fylgja teikning eða uppdráttur af viðkomandi vegg/girðingu/gróðri og rökstuðningur fyrir hvers vegna veita eigi undanþáguna og hvernig umferðaröryggi allra ferðamáta verði tryggt þrátt fyrir undanþágu.

Reglur í byggingarreglugerð

  • Sækja skal um byggingarleyfi fyrir gerð og frágangi veggja eða girðinga sem eru hærri en 1,80 m yfir landi. Eftir aðstæðum getur umsókn um byggingarleyfi kallað á skipulagsferli.
  • Stoðveggir eru byggingarleyfisskyldir og skal sækja um byggingarleyfi fyrir þá. Stoðveggur heldur við jarðveg og tekur upp hæðarmun.   

Annað

  •  Landhæð á lóðamörkum er sýnd á hæðarblöðum. G = hæð við götu. L = hæð á lóðarmörkum. Hæðarblöð eru aðgengileg á Borgarvefsjá.
  • G- og L- tölur eru bindandi nema annað sé tekið fram á hæðarblaði eða í deiliskipulagi. Lóðarhafar geta óskað eftir því í sameiningu að vikið sé frá L - tölum.
  • Gildandi deiliskipulagsáætlanir má nálgast á Skipulagssjá Reykjavíkurborgar.
  • Byggingarreglugerð er aðgengileg á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.