Bakarabrekkan

Útivistarsvæði

Bernhöftstorfa
101 Reykjavík

Bakarabrekkan við Lækjargötu.

Um Bakarabrekkuna

Bakarabrekkan er gamalt heiti á Bankastræti en í dag er nafnið notað um grösuga brekkuna fyrir neðan Bernhöftstorfuna á horni Bankastrætis og Lækjargötu. 

Bakarabrekkan setur mikinn svip á Miðbæinn. Ásamt túninu fyrir framan Menntaskólann í Reykjavík og Mæðragarðinum myndar hún nær samfellda græna breiðu meðfram Lækjargötunni austanverðri. Styttan Vatnsberinn eftir Ásmund Sveinsson er í Bakarabrekkunni. Þar er einnig stórt útitafl með taflmenn eftir Jón Gunnar Árnason myndhöggvara.

Grunnupplýsingar

Aldur: Fyrst skilgreind sem almenningsgarður 1943 en svæðið er mun eldra.

Samgöngur:

  • Bílastæði við Lækjargötu og Amtmannsstíg. Gjaldskylda virka daga frá 10-18 og laugardaga frá 10-16.
  • Strætóleiðir: 1-3-6-11-12-13-14. Stöðvar: Lækjartorg – MR.

Þar er að finna: Garðyrkja – Bekkir – Listaverk – Sögustaður – Veitingastaður – Kaffihús - Hátíðahöld

Saga

  • Bakarabrekkan dregur nafn sitt af bakarí danska bakarans Tönnies Daníels Bernhöft sem var á Bankastræti 2. Bernhöftstorfan er einmitt nefnd eftir Bernhöft bakara.
  • Bakarabrekkan var fyrst skilgreind sem almenningssvæði á nýju skipulagi fyrir Reykjavík 1943.
  • Vatnsberinn eftir Ásmund Sveinson var flutt í Bakarabrekkuna úr Öskjuhlíð árið 2011. Upprunalega átti Vatnsberinn alltaf að vera í Bakarabrekkunni en sú staðsetning olli miklum deilum meðal bæjaryfirvalda sem og almennings.
  • Stytta af Friðriki Friðrikssyni presti og stofnanda KFUM og KFUK og Knattspyrnufélaganna Vals og Hauka eftir Sigurjón Ólafsson stendur neðst í  Bakarabrekkunni. Styttan var reist 1954.
  • Bernhöftstorfan var friðuð árið 1979, tveimur árum eftir að húsin þar skemmdust mikið í bruna. 1981 var endurbyggingu Bernhöftstorfunnar lokið og veitingastaðurinn Lækjarbrekka opnaði.
  • Útitaflið var vígt 1981 og líkt og með Vatnsberann stóðu miklar deilur um staðsetningu þess en það átti upphaflega að vera á Lækjartorgi.

Heimildir

  • Bragi Bergsson. 2012. Almenningsgarðar á Íslandi. Ritgerð til MA-prófs. Háskóli Íslands, Hugvísindasvið.