Umferðarljós
Reykjavíkurborg sér um rekstur umferðarljósa í samstarfi við Vegagerðina og önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, sem má skipta annars vegar í hefðbundin umferðarljós á gatnamótum og hins vegar gönguljós. Umferðarljós eru á 216 stöðum á höfuðborgarsvæðinu.
Umferðarljós samanstanda af misunandi einingum - stjórnkassa, ljóskerjum, skynjurum og hnappaboxum. Einingarnar eru tengdar saman með köplum sem liggja í ídráttarrörum og brunnum neðanjarðar.
Markmið kerfisins
- Að stýring umferðarljósa samræmist umferðinni hverju sinni.
- Að veita Strætó og neyðarakstri forgang.
- Að safna umferðarupplýsingum í rauntíma og lágmarka umferðartafir.
- Að vakta og senda sjálfvirkar tilkynningar ef bilanir koma upp.
Spurt & Svarað
Hver ber ábyrgð á umferðarljósum á höfuðborgarsvæðinu?
Vegagerðin og sveitarfélögin sex á höfuðborgarsvæðinu deila ábyrgð á umferðarljósum og umferðarljósastýringu á höfuðborgarsvæðinu. Þar sem höfuðborgarsvæðið er skilgreint sem eitt samgöngusvæði er stýring umferðarljósanna samvinnuverkefni allra þessara aðila. Umferðarljós innan marka hvers sveitarfélags eru í eign þess en umferðarljós á stofnvegum eru í eigu Vegagerðarinnar. Þá er stór hluti umferðarljósa í sameign sveitarfélags og Vegagerðarinnar en það er í þeim tilfellum sem stofnvegur og gata í eigu sveitarfélags mætast.
Til hvers er umferðarljósastýring?
Í grunninn er tilgangur umferðaljósa að tryggja flæði í umferð á gatnamótum þar sem ökutæki, gangandi og hjólandi vegfarendur mætast. Umferðaljósin stýra umferðinni á gatnamótum og gera farþegum sem koma úr ólíkum áttum kleift að komast leiðar sinnar á sem bestan hátt, m.a. með það að markmiði að:
- tryggja að öll komist leiðar sinnar
- bæta flæði umferðar til að draga úr umferðarteppu
- stytta ferðatíma vegfarenda
- auka öryggi í umferðinni
- tryggja viðbragðsaðilum og almenningssamgöngum forgang á helstu leiðum
Er öllum ljósum stýrt miðlægt?
Rúmlega helmingi allra umferðarljósa á höfuðborgarsvæðinu er í dag stýrt í gegnum miðlæga stýritölvu umferðarljósa. Stýritölvan tekur við umferðarupplýsingum frá viðkomandi gatnamótum í rauntíma og leitast við að aðlaga stýringar á hverjum gatnamótum og umferðarmagni hverju sinni. Áformað er að á næstu árum muni öll umferðarljós á höfuðborgarsvæðinu verða tengd miðlægri stýringu. Jafnframt er stjórnkassi við hver umferðarljós sem er eins og útibú frá stýritölvunni. Hann hefur það hlutverk að liðka fyrir stýringunni auk þess að gera umferðarljósastýringunni kleift að virka áfram ef tenging myndi rofna við miðlæga stýritölvu umferðarljósa.
Hvað gerir stjórnkassinn?
Stjórnkassinn sér um að stýra umferðarljósunum og samanstendur hann af nokkrum einingum. Öll ljósker, hnappabox og skynjarar tengjast í stjórnkassann og sér öryggiskerfi kassans um að umferðarljósin virki rétt, ásamt því að bregðast rétt við truflunum.
Sífellt er unnið að endurnýjun umferðarljósa, en notast er við átta mismunandi tegundir stjórnkassa og eru nokkrir orðnir yfir 30 ára gamlir. Við endurnýjun er forgangsatriði að tengja umferðarljósin við MSU svo hægt sé að vakta umferðarljósin og bregðast skjótt við bilunum.
Hvernig er umferðarljósunum stýrt?
Flest umferðarljós eru umferðarstýrð og stjórnað með skynjara en einnig eru sum ljós forstillt og þá breytist tímalengd grænu, gulu og rauðu ljósanna ekki eftir umferðarmagni. Umferðarljós á helstu svæðum eru samræmd með tímaáætlunum sem eru hannaðar til þess að skapa sem minnstar tafir og tryggja öryggi í umferðinni. Það þýðir ekki að ökumenn lendi á grænu á öllum umferðarljósum, heldur eru stýringarnar til þess að minnka tafir á svæðinu í heild sinni.
Á umferðarstýrðum ljósum er notast við tækni á borð við skynjara, hugbúnað, samskiptanet og gervigreind til að bæta umferðarljósastýringu, ýmist á einstökum gatnamótum eða á tilteknum svæðum. Skynjararnir geta verið á mismunandi formi, til dæmis segulspólur í götunni, radarskynjarar eða myndavélar. Stýringu umferðarljósa á höfuðborgarsvæðinu má skipta í þrennt, fortímastillt, hálf-umferðarstýrð og al-umferðarstýrð.
- Á fortímastilltum umferðarljósum, eins og finna má við gatnamót Nóatúns og Laugavegs eru engir skynjarar til staðar. Það þýðir að tímalengdin á grænu ljósi fyrir mismunandi akstursstefnur og gönguleiðir er fyrirfram skilgreind og breytist ekki eftir umferðarþunga. Hins vegar er í fortímastillingunum gert ráð fyrir að umferð sé mismunandi eftir tíma dags og umferðarljós stillt í samræmi við það. Þannig er stýringin ekki eins t.d. á morgnana þegar umferð er þung og á kvöldin þegar minni umferð er.
- Á hálf-umferðarstýrðum gatnamótum eins og finna má við Bústaðarveg og Grensásveg er notast við skynjara. Þar logar grænt á aðalstefnu ef umferð mælist ekki á hliðargötum eða ýtt er á gönguhnapp.
-
Á al-umferðarstýrðum gatnamótum, senda skynjarar skilaboð í stjórnkassa sem velur úr fyrirfram hönnuðum tímastillingum það sem hentar best hverju sinni miðað við umferðarmagn úr mismunandi áttum. Með tilkomu gervigreindar gefst nú kostur á því að aðlaga ljósastýringuna enn betur að aðstæðum hverju sinni. Búnaður með þessari tækni verður tekinn í notkun á höfuðborgarsvæðinu á næstu misserum. Jafnframt er hægt að uppfæra hugbúnað á nýlegum umferðarljósum til að nýta þessa nýju tækni.
Hvað er miðlæg stýritölva umferðarljósa?
Rúmlega helmingur allra umferðarljósa er tengdur við miðlæga stýritölvu umferðarljósa (MSU), sem er af gerðinni Sitraffic Scala og er markmiðið að tengja öll umferðarljós við MSU.
Einn af kostum þess að tengja umferðarljós við MSU, er að bilunartilkynningar berast um leið og bilunar verður viðvart, þannig að hægt er að bregðast skjótt við.
Er kerfið sjálfvirkt?
Núverandi kerfi er keyrt á sjálfvirkri stýringu sem kallast TASS (e. Traffic-Actuated Selection of Signal Programs) og er helsti ávinningur þess að kerfið velur ljósastillingar út frá umferðarmagni hverju sinni fyrir hvert TASS-svæði.
Höfuðborgarsvæðinu er skipt upp í fimm TASS-svæði:
- Sæbraut
- Miklabraut-Kringlumýrarbraut-Hringbraut-Suðurlandsbraut
- Hafnarfjarðarvegur
- Bústaðavegur
- Breiðholtsbraut-Nýbýlavegur
Hvernig virkar Græna bylgjan?
Til þess að tryggja sem best flæði í umferðinni hafa umferðarljós á ákveðnum leiðum verið samstillt til þess að ökumenn geti ekið á jöfnum hraða án þess að lenda á rauðu ljósi. Þetta er alla jafnan kallað græna bylgjan en hún virkar best ef ekið er á leyfilegum hámarkshraða eða rétt undir honum. Nokkrar grænar bylgjur eru skilgreindar á höfuðborgarsvæðinu, t.d. eftir Sæbraut, Bústaðavegi og Hafnarfjarðarvegi.
Sjaldnast er hægt að hafa grænar bylgjur í báðar áttir samtímis vegna legu og staðsetningar gatnamóta og er því reynt að samstilla ljós í ríkjandi aksturstefnu hverju sinni. Umferðarljós á stofnbrautum eru samstillt þannig að umferð eigi sem greiðasta leið í átt að miðborginni og helstu atvinnusvæðum á morgnana en í hina áttina síðdegis og utan annatíma.
Ég hef tekið eftir því að það hafa verið gerðar breytingar á ákveðnu ljósastýrðu umferðarkerfi, hvað veldur því?
Reykjavíkurborg gerir reglulega breytingar á ljósastýrðum umferðarkerfum borgarinnar.
Þegar breytingar eru gerðar á ljósastýrðu umferðarkerfi, byggist það oftast á því að með tímanum hefur verið skráð breyting á umferðarmynstri eða umfangi umferðar á viðkomandi gatnamótum.
Breytingarnar geta t.d. verið þær að:
- Grænt ljós gefst aðeins ef þörf er á
- Tími græna ljóssins (tímabilið þar sem umferðarljós sýnir grænt í eina átt) er styttur ef lítil umferð er
- Græni tíminn er lengdur í eina átt ef mikil umferð er
Af hverju fæ ég ekki grænt ljós sem hjólreiðamaður?
Við mörg gatnamót greinum við umferðina (þ.m.t. hjólreiðamenn) á leiðinni að gatnamótunum, þannig að við þurfum aðeins að gefa grænt ljós ef einhver þarf á því að halda. Greiningin fer venjulega fram á reitum, þar sem síðasti reiturinn er oftast staðsettur við stoppstrikið. Því er mikilvægt að staðsetja sig fyrir aftan stoppstrikið til að verða greindur og vera viss um að fá grænt ljós.
Ef nemi hefur bilað eða þarf á stillingu að halda getur það haft áhrif á virkni kerfisins, og þú gætir þurft að bíða lengur við rautt ljós en venjulega. Þetta er oft vandamál hjá hjólreiðamönnum, þar sem erfiðara er að greina þá. Ef ljósastýrð kerfi hegðar sér skyndilega öðruvísi en venjulega, eða þú hefur áhyggjur af bilun í kerfinu, geturðu tilkynnt mismunandi bilanir með því að hafa samband við upplýsingarnar efst á síðunni.
Athugaðu: Það er ekki gefið grænt fyrir hjólreiðamenn eftir að bílar hafa fengið grænt ljós.
Af hverju er rautt ljós í allar áttir á sama tíma?
Stundum er upplifunin að umferðarljós sýni rautt í allar akstursstefnur þegar engir umferðarnotendur hafa verið skráðir nálægt kerfinu. Þessi staða er kölluð „allt rautt“.
„Allt rautt“ hefur hraðatakmarkandi áhrif, þar sem ökumenn sem sjá rautt ljós í fjarlægð halda oftast eða minnka hraðann. Hins vegar auka ökumenn, sem sjá grænt ljós í fjarlægð, oft hraðann til að ná yfir gatnamótin. Ökumenn sem keyra yfir leyfilegum hraða á vegi með „allt rautt“ ljósum geta þurft að stöðva alveg áður en ljósið verður grænt.
Ökumenn geta einnig upplifað að það sé grænt í eina átt þótt engir umferðarnotendur sjáist í þeirri átt. Ástæðan getur verið sú að t.d. hjólreiðamaður eða gangandi vegfarandi hafi verið greindur í kerfinu en farið yfir áður en ljósin skiptu yfir í grænt. Þegar kerfið greinir umferð í eina átt verður alltaf að vera grænt tímabil og öryggistímabil, sem getur seinkað grænu ljósi í gagnstæða átt.
Af hverju fær hliðargatan grænt, þó engin umferð sé?
Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að hliðargötur fá alltaf grænt, jafnvel þó engin umferð sé. Ástæðurnar geta meðal annars verið:
- Hátt þjónustustig fyrir gangandi vegfarendur, sem gerir það að verkum að þeir eru alltaf skráðir og fá grænt ljós.
- Ósk um jafnt þjónustustig fyrir báðar akstursstefnur á gatnamótunum.
- Bilun í greiningu umferðar frá einni átt. Ef bilun er á búnaðinum, er umferð frá þessari átt skráð í hverri umferðarlotu til að tryggja að umferðin komist áfram.
Af hverju fæ ég ekki græna bylgju?
Það geta verið margar ástæður fyrir því að þú, sem ökumaður, upplifir að þú fáir ekki græna bylgju á vegaköflum þar sem samhæfing er í raun til staðar. Ástæður geta meðal annars verið:
- Fjarlægð á milli ljósakerfa gefur ekki alltaf möguleika á bestu samhæfingu í báðar áttir. Á sumum stöðum er því forgangsraðað þannig að græn bylgja sé aðeins í eina átt á morgnana og í hina áttina síðdegis.
- Hraði þinn er mun meiri eða minni en gert var ráð fyrir við tímasetningu ljósaskiptanna.
- Stór munur er á stærð mismunandi ljósakerfa á samhæfðu vegakafli. Á gatnamótum með minni hliðargötum getur verið langur græntími, en á gatnamótum með stærri hliðargötum er græntíminn styttri.
- Þegar við höfum samhæfingu er fastur græntími í hverju ljósakerfi, sem verður að vera á ákveðnum tíma í hverjum hring. Til að auka þjónustu við vegfarendur greinum við umferð frá hliðargötum, og ef hún er fljótt afgreidd eða engin til staðar, getum við gefið grænt áður en við náum þessum „fasta“ tíma. Þegar við gerum það, getum við hins vegar ekki verið viss um að næstu gatnamót fylgi með (t.d. ef þar er mikil hliðargötuumferð), og þá fáum við aukastopp.
- Bilanir geta verið á skynjurum sem hafa áhrif á virkni ljósakerfisins.
Hvað þýðir það að ljósakerfi sé stjórnað af umferðinni?
Í umferðartengdu ljósakerfi greinum við umferðina og reynum að gefa grænt í samræmi við þann umferðarþunga sem er til staðar á hverjum tíma.
Söfnun umferðarupplýsinga er grundvallaratriði í miðlægri stýringu umferðar. Til að skynja og meta magn umferðar hefur umferðarskynjurum verið komið fyrir á nokkrum talningastöðum. Skynjararnir eru tengdir við MSU og þar eru upplýsingar úr skynjurum notaðar til að velja hentugasta ljósaforritið hverju sinni.
Upplýsingar um þjónustustig umferðarflæðisins í rauntíma
Upplýsingar um umferðarmagn og hraða á völdum stöðum í rauntíma
Hvað þarf til að Reykjavíkurborg setji upp ljósakerfi?
Reykjavíkurborg setur venjulega upp ljósakerfi á stærri gatnamótum þar sem umferðarþungi og flækjustig krefjast ljósastýringar til að tryggja hratt og öruggt flæði umferðar. Þetta er gert þar sem almennar reglur um forgangsrétt virka ekki lengur á hagkvæman hátt.
Auk skilvirkrar umferðarstýringar veita ljósakerfi oft betri öryggistilfinningu í umferðinni, þar sem vegfarendur vita að þeir komast yfir gatnamótin þegar grænt ljós kemur, og geta treyst á að mótakstursumferð stöðvi fyrir þeim.
Uppsetning ljósakerfa verður að vera í samráði við lögregluna í samræmi við reglugerð um vegamerkingar.
Hver eru viðmiðin fyrir uppsetningu hljóðmerkja fyrir blinda og sjónskerta í ljósakerfum?
Borgin er í samráði við íslenska blindrasambandið til að greina og forgangsraða hvaða ljósakerfi ættu að fá hljóðmerki. Venjuleg hljóðmerki eru yfirleitt virk frá 07:00 til 22:00 til að draga úr hávaðamengun.
Hver er ávinningur góðrar umferðarljósastýringar fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur?
Í eðli sínu eru umferðarljós fyrst og fremst til staðar til að tryggja að öll komist leiðar sinnar, sama hvaða samgöngumáta er notast við. Þetta felst til dæmis í að gefa gangandi vegfarendum kost á að fara á öruggan hátt yfir umferðarþunga götu og að vegfarendur hafi nægan tíma til að koma sér yfir.
Í stefnuskjali um umferðarljósastýringu á höfuðborgarsvæðinu verður til framtíðar lögð aukin áhersla að hönnun umferðarljósastýringa geri gangandi og hjólandi hátt undir höfði, t.d. með því að lágmarka biðtíma gangandi og hjólandi eins og unnt er og að þeir fái upplýsingar með niðurtalningu á ljósunum eins og gert er í Lækjargötu í dag. Auk þess að gert sé ráð fyrir hnappaboxi alls staðar þar sem gangandi og hjólandi vegfarendur fara um til að þeir geti kallað eftir grænu ljósi.
Umferðarljósastýring er fyrst og fremst til að bæta umferðaröryggi og gera vegfarendum kleift að komast leiðar sinnar á sem öruggastan hátt. Ein og sér mun umferðarljósastýring ekki leysa allan vanda til framtíðar heldur þarf einnig að huga að öðrum lausnum á borð við öflugar almenningssamgöngur, greiða fyrir umferð gangandi og hjólandi sem og að ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vinni saman að því að tryggja skilvirka umferð um stofnvegi.
Hvers vegna er biðtími við umferðarljós ekki alltaf sá sami?
Umferðarljós eru mismunandi eftir svæðum og tímum enda er umferðarþungi ekki alltaf sá sami. Tilgangur umferðarljósastýringar er einmitt að bregðast við þessu og lágmarka tafir allra vegfarenda. Biðtími á hliðargötum er yfirleitt lengri en á stofnbrautum, þar sem þær síðarnefndu fá yfirleitt lengri græntíma. Lotulengd umferðarljósa, þar sem ein lota er sá tími sem líður frá því umferðarljós verða rauð þar til þau verða rauð aftur, er þó aldrei lengri en 90 sekúndur og styttri utan annatíma.
Hafa viðbragðsaðilar forgang á umferðaljósum?
Sjúkra- og slökkvibílar fá forgang á umferðarljósum á ákveðnum leiðum. Búnaði hefur verið komið fyrir í bílunum sem kallar sjálfkrafa eftir forgangi á umferðarljósum þegar bifreiðarnar aka með kveikt á forgangsljósum. Markmið forgangskerfisins er að tryggja aukið öryggi í neyðarakstri, bæði fyrir þau sem eru í neyðarakstrinum en ekki síður almenna umferð sem neyðaraksturinn snertir hverju sinni.
Strætó á einnig greiðari leið um gatnamót með stýringunni, þó það sé ekki forgangsstýring eins og hjá slökkviliðinu. Stýringin virkar þannig hjá Strætó að tæki í vagninum skynjar þegar vagn nálgast gatnamót og þá framlengist tíminn sem grænu ljósin loga í akstursstefnu þeirra.
Markmið forgangskerfisins er að tryggja aukið öryggi í neyðarakstri, bæði fyrir þá sem eru í neyðarakstrinum en ekki síður almenna umferð sem neyðaraksturinn snertir hverju sinni. Einnig er lykilatriði þegar fólk er í lífshættu að stytta viðbragðstíma, ekki síst þegar umferð er mikil. Reynslan af kerfinu er mjög góð.
Hvernig ljósker eru notuð?
Við endurnýjun umferðarljósa er eingöngu notast við LED. Auk þess að vera orkusparandi, eru LED ljósin mun áreiðanlegri og með lægri bilanatíðni en hefðbundnar glóperur. Meira en helmingur umferðarljósa er með LED ljósum.