Þörf fyrir meiri sveigjanleika í byggingarreglugerð

Umhverfi Skipulagsmál

""

Meiri sveigjanleika vantar í byggingarreglugerð til að geta mætt þörf fyrir fleiri litlar og ódýrar íbúðir.  Þetta var það sem fram kom á málþingi Reykjavíkurborgar og Mannvirkjastofnunar sem haldið var síðasta fimmtudag. Ánægja var með málþingið og kallað var eftir nánara samráði fagaðila um þessi mál.

Áhersla á þéttingu byggðar og aukið hlutfall leiguhúsnæðis í hverfum borgarinnar er hluti af nýju aðalskipulagi, sem Páll Hjaltason formaður skipulags og byggingarráðs kynnti . Borgarstjórn hefur samþykkt nýja aðalskipulagið og er það nú í umsagnarferli hjá Skipulagsstofnun.

Mannvirkjastofnun vill fá ábendingar

Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunnar kynnti nýja byggingarreglugerð sem hefur verið yfir 10 ár í mótun. Kom fram hjá honum að ýmsir vankantar hefðu komið strax í ljós til dæmis varðandi einangrunargildi eigna og hefðu þeir verið lagaðir strax. Helstu umkvartanirnar sem komið hafa fram snúa að kafla 6 um aðgengi og rýmisstærðir. Björn kallaði eftir því að aðilar sem hefðu verið að vinna með reglugerðina og rekið sig á flækjur myndu hafa samband við stofnunina og kæmu jafnvel með tillögur að breytingum.

Friðrik Ólafsson hjá Samtökum iðnaðarins fór yfir athugasemdir byggingaaðila við byggingarreglugerðina. Taldi hann margt gott vera í henni en þó mætti enn bæta ýmislegt. Sérstaklega tiltók Friðrik að það er jafn flókið að sækja um leyfi fyrir litlum breytingum og stærri verkefnum.

Kostnaðarauki vegna reglugerðar um 9%

Guðrún Björnsdóttir framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta ræddi um upplifun FS af því að byggja 299 stúdentaíbúðir við Eggertsgötu eftir nýrri byggingarreglugerð. Mat Guðrún kostnaðarauka reglugerðarinnar í kringum 9%. Sérstaklega gagnrýndi Guðrún atriði sem væru tekin inn í reglugerðina á þeim rökum einum að þau væri að finna í öðrum reglugerðum Norðurlanda. Sem dæmi nefndi Guðrún að í byggingarreglugerð þyrfti ein íbúð af hverjum átta að vera fyrir fatlaða námsmenn. Þetta væri tekið upp frá öðrum Norðurlöndum en mjög lítil eftirspurn er eftir þessum íbúðum þar sem þær væru stærri og dýrari en aðrar stúdentaíbúðir og engin rök virðast finnast fyrir því af hverju nákvæmlega þetta hlutfall er notað. Guðrún benti einnig á að krafa um minni, ódýrari íbúðir á miðlægum svæðum væri ekki einskorðuð við stúdenta heldur væru nýjar kynslóðir með annað gildismat en þær sem á undan hefðu komið og vildu ekkert endilega búa í úthverfi með stóran garð.

Bætt hljóðvist, inniloft og aðgengi

Guðrún Ingvarsdóttir hefur umsjón með uppbyggingarverkefni Búseta við Einholt/Þverholt þar sem verið er að byggja rúmlega 200 búseturéttaríbúðir. Taldi Guðrún ljóst að byggingarreglugerðin myndi auka kostnað en hefði ýmis jákvæð áhrif í för með sér varðandi bætta hljóðvist, bætt inniloft og bætt aðgengi. Guðrún lagði áherslu á að leggja áherslu á aukinn sveigjanleika reglugerðarinnar þannig að taka mætti meira tillit til svæðisbundinna aðstæðna.

Neyðarástand á leigumarkaði

Síðastur tók til máls framkvæmdastjóri Félagsbústaða, Auðun Freyr Ingvarsson sem fjallaði um stöðu Félagsbústaða sem stærsta leigufélag landsins og framtíðarsýn þeirra en stefnt er á stóraukna uppbyggingu húsnæðis á komandi árum. Samkvæmt Auðni þá búa um 20% íbúa Reykjavíkur í leiguhúsnæði í dag. Það ríkir neyðarástand á leigumarkaði þar sem mikil vöntun er á litlum hagkvæmum eignum til leigu. Stór hluti ungs fólks á ekki eigið fé til íbúðakaupa og stór hluti vill ekki hætta sparnaði sínum í fasteignir heldur frekar leigja. Taldi Auðun ljóst að hið opinbera þyrfti að skerast í leikinn til þess að auka framboð á langtímaleiguhúsnæði. Sérstaklega litlum, ódýrum íbúðum.

Lóðaverð og fjármagnskostnaður einnig hindranir

Að framsögum loknum var pallborð þar sem gestir úr sal komu með fyrirspurnir. Var þar mikið rætt um þörfina fyrir litlar, ódýrar íbúðir og hvaða þættir kæmu í veg fyrir frekari uppbyggingu þeirra. Kom fram hjá fundarmönnum að fleiri þættir en reglugerð stæðu á bak við háum kostnaði svo sem lóðarverð og hár fjármagnskostnaður.

Einnig koma fram ótti manna að kærumál íbúa gætu tafið og jafnvel haldið uppbyggingaráformum og fyrirætlunum um  þéttingu byggðar í gíslingu. Nú þegar eru dæmi um slíkt og nauðsynlegt væri að skoða þessa ferla í samræmi við áættlanir um þéttingu byggðar.

Megin lokaniðurstöður fundarins voru eftirfarandi:

• Mikil þörf er á fleiri litlum ódýrum íbúðum.

• Endurskoða þarf byggingarreglugerðina og auka sveigjanleika t.d. með því að taka út fyrirskriftarákvæði og setja markmið í staðinn.

• Auka þarf samráð við fagfólk innan byggingariðnaðarins um byggingarreglugerðina. Opnir umræðufundir mættu gjarnan vera fleiri enda um að ræða mikið hagsmunamál fyrir þjóðina alla.

 

Fyrirlestrar - glærur: