Vöggustofunefnd

Reykjavíkurborg semur um geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónustu fyrir vöggustofubörn

Reykjavíkurborg hefur samið við Kvíðameðferðarstöðina og Líf og sál sálfræði- og ráðgjafastofu, um þjónustu við einstaklinga sem voru vistaðir á vöggustofunni að Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldssensfélagsins. Þessi þjónusta hefst fimmtudaginn 9. nóvember klukkan 10.

Þetta er ein af þeim aðgerðum sem borgarráð samþykkti að fara í eftir útgáfu skýrslu um starfsemi vöggustofa í Reykjavík á árunum 1949-1973. Vöggustofubörn geta óskað eftir þjónustunni í gegnum símanúmerið 411-1400 hjá Reykjavíkurborg með því að láta vita að erindið snerti vöggustofur, eða  í gegnum netfangið voggustofur@reykjavik.is sem starfsmaður Reykjavíkurborgar vaktar.

Þegar vistun á vöggustofu hefur verið staðfest mun starfsmaður Reykjavíkurborgar senda nauðsynlegar tengiliðaupplýsingar um viðkomandi til sálfræðistofu sem samið hefur verið við. Sálfræðistofan sér um öll samskipti eftir það. Í inntökuviðtali leggur stofan sjálf mat á þjónustuþörf hvers einstaklings og vísar í viðeigandi bráðaþjónustu eða aðra heilbrigðisþjónustu ef talin er þörf á slíku. Reykjavíkurborg greiðir fyrir allt að 10 viðtöl fyrir hvern einstakling.

Sálfræðistofurnar ábyrgjast að veita þjónustuna á skilvirkan hátt og að viðkomandi einstaklingar fari framarlega á biðlista til að halda bið eftir þjónustu í algjöru lágmarki. Mælst er til þess að teymi sálfræðinga með  breiða þekkingu veiti þjónustuna til að tryggja að fólk hljóti viðeigandi þjónustu og að fyrrum vöggustofubörnum standi til boða að hitta sálfræðing af sama kyni ef þess er óskað. Gert er ráð fyrir að veitt sé meðferð sem byggir á gagnreyndum aðferðum og klínískum leiðbeiningum.

Nefnd um heildstæða athugun á starfsemi vöggustofa að Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins.

Þann 10. mars 2022 samþykkti borgarráð að setja á stofn nefnd þriggja óháðra sérfræðinga sem hafi það verkefni að gera heildstæða athugun á starfsemi Vöggustofunnar að Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins sem reknar voru í Reykjavík á síðustu öld.

Þá hefur Alþingi sett lög nr. 45/2022, um heimild til Reykjavíkurborgar til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa fyrir börn sem reknar voru í Reykjavík á síðustu öld. Nefndin skal vera sjálfstæð og óháð í störfum sínum.

Nefndarmenn

Um sérstakt hæfi nefndarmanna fer eftir sömu reglum og koma fram í 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Nefndarmönnum er skylt að leggja fram skrá um hagsmunatengsl sín, sbr. reglur Reykjavíkurborgar um hagsmunaskráningu embættismanna.

Samkvæmt ákvörðun borgarráðs 21. júlí 2022 voru eftirfarandi skipaðir í nefndina:

  • Kjartan Björgvinsson héraðsdómari, formaður
  • Urður Njarðvík prófessor í barnasálfræði 
  • Ellý Þorsteinsdóttir félagsráðgjafi

Nefndin hefur heimild til að ráða sér starfsmann. Nefndinni verður heimilt að kalla eftir aðstoð og upplýsingum frá aðilum innan og utan stjórnkerfis Reykjavíkurborgar við einstaka þætti athugunarinnar.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 45/2022 skal nefndin hafa óheftan aðgang að öllum gögnum í vörslum stjórnvalda sem varða starfsemi þeirra vöggustofa sem lögin gilda um. Þar á meðal eru gögn sem hafa að geyma almennar og viðkvæmar persónuupplýsingar. Þá skulu stjórnvöld, sé þess óskað af hálfu nefndarinnar, taka saman skriflegar greinargerðir um einstaka þætti könnunarinnar.

Markmið og meginverkefni

  1. Að lýsa starfsemi vöggustofanna, hlutverki þeirra í barnaverndar- og/eða uppeldismálum og tildrögum þess að börn voru vistuð þar á því tímabili sem um ræðir.
     
  2. Að leitast við að staðreyna eins og kostur er hvort og þá í hvaða mæli börn sem vistuð voru á stofnuninni hafi sætt illri meðferð eða ofbeldi meðan á dvölinni stóð.
     
  3. Að lýsa því hvernig eftirliti Reykjavíkurborgar og ríkisins með vöggustofunum var háttað.
     
  4. Að lýsa öðrum atriðum sem tengjast starfsemi vöggustofanna og nefndin telur þarfnast skoðunar, þar á meðal eins og kostur er afdrifum þeirra barna sem vistuð voru á vöggustofunum eftir að dvölinni lauk.
     
  5. Nefndin skal skila skýrslu um störf sín til borgarráðs.
     
  6. Leggja grundvöll að tillögum til borgarráðs um frekari viðbrögð ef ástæða þykir til.

Fundir nefndarinnar skulu vera lokaðir.

Nefndarmenn og starfsmaður hennar eru bundnir þagnarskyldu um hvaðeina er varðar einkalíf manna sem þeir fá upplýsingar um við störf nefndarinnar. Þagnarskylda um slík atriði helst þegar störfum nefndarinnar er lokið.

Formanni nefndarinnar er heimilt að veita almennar upplýsingar um störf nefndarinnar og verklag meðan hún starfar.

Ýmsar samþykktir

 

Uppfært í október 2023*

Rannsókn á vöggustofum

Sjálfstæð og óháð nefnd sem Reykjavíkurborg skipaði til að rannsaka starfsemi vöggustofa sem reknar voru í Reykjavík árin 1949 til 1973 kynnti niðurstöður sínar á fundi borgarráðs fimmtudaginn 5. október 2023. Skýrsla nefndarinnar var svo kynnt á blaðamannafundi sem haldinn var í Ráðhúsi Reykjavíkur sama dag. Kjartan Björgvinsson formaður nefndarinnar ræddi niðurstöðurnar ásamt þeim Urði Njarðvík, prófessor í sálfræði og Ellý Þorsteinsdóttur félagsráðgjafa sem jafnframt áttu sæti í nefndinni.

Niðurstaða nefndarinnar er að börn hafi sætt illri meðferð á Vöggustofunni Hlíðarenda á tímabilum yfir árin 1949 til 1963. Þá hafi börn í ýmsum tilvikum einnig sætt illri meðferð á Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins á tímabilum frá 1963 til 1967.

Tengsl við foreldra og fjölskyldur rofin

Alls voru 1083 börn vistuð á vöggustofunum frá 1949 til 1973. Vöggustofunefnd telur ljóst af skriflegum heimildum og frásögnum fyrrverandi starfsfólks að foreldrum barna á vöggustofunum hafi á tímabilum í reynd almennt verið meinað að umgangast börn sín á meðan þau voru á vöggustofunni, hvort sem var að halda á þeim eða snerta með öðrum hætti. Foreldrar hafi almennt einungis mátt sjá börnin í gegnum gler og gilti sú regla óháð því af hvaða ástæðum barn var vistað á vöggustofu. 

Með þessum starfsháttum voru tengsl barns við foreldra, og eftir atvikum systkini, rofin á mjög löngum tímabilum án þess að börnum væri veitt persónuleg umönnun sem var til þess fallin að draga úr skaðlegum áhrifum tengslarofs við foreldra eða aðra umönnunaraðila. Að mati nefndarinnar teljast slíkir starfshættir, með hliðsjón af öðrum aðstæðum á vöggustofunni, til illrar meðferðar í skilningi laga. Lítur nefndin þá sérstaklega til aldurs barnanna og þeirra afdrifaríku afleiðinga sem skortur á tengslamyndun við umönnunaraðila, sem og skortur á örvun og skynáreitum, getur haft á heilbrigði og þroska barna. Nefndin leggur áherslu á að þessi atriði voru vel þekkt meðal fagfólks í málefnum barna á þeim tíma sem vöggustofurnar störfuðu. 

Starfsemi ekki alltaf í samræmi við lög

Nefndin telur einnig að eftirlit með vöggustofunum hafi verið hverfandi á því tímabili sem var til athugunar. Þá telur nefndin jafnframt liggja fyrir að málsmeðferð barnaverndarnefndar Reykjavíkur var oft og tíðum ekki í samræmi við lög þegar börn voru vistuð á vöggustofunum. 

Afdrif barnanna

Nefndin kannaði einnig afdrif barnanna sem vistuð voru á vöggustofunum. Í skýrslunni má finna upplýsingar um hversu mörg börn voru vistuð á öðrum stofnunum og/eða fóru í fóstur. Þá er einnig að finna upplýsingar um dánartíðni- og tíðni örorku í hópnum.