Laun í vinnuskólanum

Hér finnur þú algengar spurningar og svör sem tengjast launum í Vinnuskólanum.

Spurt og svarað

Hvert er tímakaupið?

Tímakaup nemenda í 8. bekk er 766,5 krónur, 9. bekk 1.022 krónur og 10. bekk 1.277,5 krónur.

Mánuði eftir að 16 ára aldri er náð greiða nemendur í lífeyrissjóð. Brú er sá sjóður sem greitt er í. 

Hvert er launatímabilið?

Sumarið 2024 fá nemendur greidd laun 1. ágúst og 1. september.

  • 1. ágúst fyrir dagana 10. júní til 10. júlí.
  • 1. september fyrir dagana 11. júlí til 13. ágúst.

Hvar sé ég launaseðla?

Launaseðlar eru eingöngu birtir á Ísland.is undir „Mínum síðum“ en ekki í heimabanka eins og áður var gert. Þar má nálgast seðlana með rafrænum skilríkjum eða Íslykli.

Hafi nemandi ekki rafræn skilríki er hægt að óska eftir Íslykli á slóðinni https://innskraning.island.is/order.aspx 

Fæ ég orlof?

Orlofsfé er 10,17% og greiðist á alla tímavinnu. Orlof er greitt út með launum.

Þurfa unglingar að greiða skatt?

Á því ári sem ungmenni verða 16 ára byrja þau að greiða skatt en eins og aðrir launþegar eiga þau rétt á persónuafslætti sem er 64.926 kr. á mánuði árið 2024. Sú upphæð nægir til að mæta þeim skatti sem ungmennin myndu annars greiða af sínum launum í Vinnuskólanum.

Vinnuskóli Reykjavíkur mælir með að allir 16 ára nemendur nýti persónuafslátt sinn. Vakin er athygli á því að hjá þeim nemendum sem hægt er að nýta persónuafslátt verður það gert nema sendur sé póstur á launaafgreidsla@reykjavik.is og gerð grein fyrir ákvörðuninni.

Ef nemendur greiða skatt sem þeir ættu ekki að þurfa að greiða geta þeir sótt endurgreiðslu til Ríkisskattstjóra frá og með 1. október. 

Hvað með veikindi og leyfi?

Nemendur vinna sér ekki inn veikindarétt. Veikindadagar eru því ekki greiddir og ekki er hægt að vinna þá upp síðar. 

Hægt er að fá leyfi frá störfum á starfstímabilinu. 

Mögulegt er að fá leyfi frá störfum en nemendum gefst ekki kostur á að vinna upp tapaðan starfstíma síðar. Æskilegt er að foreldrar tilkynni frítöku með fyrirvara til viðkomandi leiðbeinanda.

Eru launin rétt?

  • Foreldrar og nemendur bera ábyrgð á því að kanna tímanlega hvort laun hafa verið rétt skráð.
  • Ef talið er að einhverja tíma skorti upp á þarf að hafa samband við skrifstofu skólans eins fljótt og auðið er. 
  • Leiðbeinendur biðja nemendur um að staðfesta þá tíma sem unnir hafa verið á launatímabilinu með undirritun á tímaskýrslu. Það er gott fyrir nemendur að fylgjast með sinni mætingu og skrá hana hjá sér reglulega.
  • Líði langur tími frá útborgun getur verið erfitt að sannreyna að tíma vanti.