Félagslegur stuðningur vegna heilabilunar
Fólk með heilabilunarsjúkdóma og fjölskyldur þeirra þurfa oftar en ekki á auknum stuðningi að halda til að mæta ýmsum áskorunum í daglegu lífi. Félagslegum stuðningi vegna heilabilunar er ætlað að létta álagi af heimilum fólks með heilabilunarsjúkdóm og bæta lífsgæði þess og aðstandenda.
Hvernig virkar félagslegur stuðningur vegna heilabilunar?
Stuðningurinn er við fólk með heilabilunarsjúkdóm og fjölskyldur þeirra, þar sem aðstæður eru með þeim hætti að viðkomandi getur búið heima þrátt fyrir sjúkdóminn.
Starfsfólk veitir stuðning í tvær til þrjár klukkustundir í eitt til tvö skipti í viku, í senn um kvöld og helgar í samræmi við þarfir hvers og eins. Starfsfólk fær þjálfun og fræðslu til að veita fólki með heilabilun markvissan stuðning, en jafnframt er lögð áhersla á að ráða inn starfsfólk með þekkingu á heilabilunarsjúkdómum og reynslu af þjónustu við fólk með heilabilun.
Hverjir geta fengið stuðning?
Umsækjendur þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
- Eiga lögheimili í Reykjavík
- Vera í sjálfstæðri búsetu (ekki búsettir á sjúkrahúsi, hjúkrunarheimili eða í sértæku búsetuúrræði)
- Hafa fengið læknisfræðilega greiningu á heilabilun
- Vera metnir í þörf fyrir félagslegan stuðning um kvöld eða helgar
Hvernig er sótt um stuðning?
Sótt er um stuðning á Mínum síðum
Einnig er hægt að fylla út umsókn á PDF-formi og senda á heima@reykjavik.is eða skila á þjónustumiðstöð í þínu hverfi.
Stefna og samstarf
Í stefnu Reykjavíkurborgar um málefni eldri borgara fyrir árin 2018-2022 kemur fram að bjóða eigi upp á mismunandi valkosti í stuðningi fyrir heilabilaða og taka sérstakt tillit til álags á aðstandendum. Í ljósi þessara markmiða var ákveðið að fara af stað með þróunarverkefni um aukinn félagslegan stuðning við fólk með heilabilun.
Við þróun verkefnisins er leitað eftir áliti frá Alzheimersamtökunum, forstöðufólki sérhæfðra dagþjálfana og sérfræðinga frá Landspítala-háskólasjúkrahúss og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Hvar fæ ég frekari upplýsingar?
Sérfræðingar í öldrunarráðgjöf á þjónustumiðstöðvum veita nánari upplýsingar um verkefnið.
Einnig er hægt að hringja í þjónustuver Reykjavíkurborgar í s: 4 11 11 11.