Sérstakur húsnæðisstuðningur | Reykjavíkurborg

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Reykjavíkurborg veitir sérstakan húsnæðisstuðning, sem kemur í stað sérstakra húsaleigubóta. Hér að neðan getur þú kynnt þér hvað er sérstakur húsnæðisstyrkur.

Opna reiknivél fyrir sérstakan húsnæðisstuðning og húsnæðisbætur

 

Hvað er sérstakur húsnæðisstuðningur?

Það er fjárstuðningur til greiðslu á húsaleigu umfram húsnæðisbætur sem er fyrir fjölskyldur og einstaklinga sem eru ekki  á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði vegna lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og félagslegra aðstæðna. 

Hver getur sótt um sérstakan húsnæðisstuðning?

Sá sem er skráður fyrir leigusamningi að íbúðarhúsnæði getur sótt um sérstakan húsnæðisstuðning.  Aðrir íbúar teljast heimilismenn í umsókn. Séu fleiri en einn heimilismaður aðilar að leigusamningi um íbúðarhúsnæðið er gert ráð fyrir að heimilismenn komi sér saman um hver þeirra skuli vera umsækjandi um sérstakan húsnæðisstuðning. Athuga að fyrst þarf að sækja um húsnæðisbætur hjá Íbúðalánasjóði

Hvar sæki ég um sérstakan húsnæðisstuðning?

Þjónustumiðstöðvar velferðarsviðs Reykjavíkurborgar annast afgreiðslu umsókna um sérstakan húsnæðisstuðning. Umsóknin á að vera skrifleg á sérstöku eyðublaði og henni á að skila á þjónustumiðstöð í því hverfi sem umsækjandi á lögheimili. Umsækjandi og heimilismenn, 18 ára og eldri, skrifa undir umsókn.  Með umsókn skulu fylgja öll nauðsynleg gögn. Við afgreiðslu umsóknar á þjónustumiðstöð fer fram mat á aðstæðum umsækjanda sbr. matsviðsmið í fylgiskjali með reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning.

Hvenær þarf ég að skila inn umsókn um sérstakan húsnæðisstuðning?

Það er hægt að sækja um á þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar. Réttur til greiðslu sérstaks húsnæðisstuðnings myndast í þeim almanaksmánuði sem umsókn er móttekin á þjónustumiðstöð séu skilyrði reglna um sérstakan húsnæðisstuðning uppfyllt.

Hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að fá sérstakan húsnæðisstuðning?

Umsækjandi skal uppfylla öll eftirfarandi skilyrði til að umsókn verði samþykkt og verða skilyrðin að vera uppfyllt á meðan umsækjandi fær greiddan sérstakan húsnæðisstuðning:

 • Réttur umsækjanda til húsnæðisbóta skal hafa verið staðfestur.
 • Umsækjandi skal vera orðinn 18 ára á umsóknardegi og eiga lögheimili í Reykjavík þegar sótt er um. Heimilt er að veita undanþágu vegna 15-17 ára barna sem leigja herbergi á heimavist eða námsgörðum hér á landi vegna náms fjarri lögheimili.
 • Leiguhúsnæði skal vera í Reykjavík nema um sé að ræða húsnæði fyrir 15-17 ára börn.
 • Staða umsækjanda verður að vera metin að lágmarki til sex stiga í matskerfi, þar af að lágmarki til tveggja stiga hvað varðar félagslegar aðstæður.
 • Samanlagðar tekjur umsækjanda og annarra heimilismanna, 18 ára og eldri, séu undir efri tekjumörkum samkvæmt 5. gr. reglna um sérstakan húsnæðisstuðning. Reglur er hægt að sjá hér til hliðar.
 • Samanlagðar eignir umsækjanda og annarra heimilismanna, 18 ára og eldri, á síðastliðnu ári séu ekki hærri en 5.510.000 kr.

 Á ég rétt á húsnæðisbótum?

Til að eiga rétt á húsnæðisbótum þarf að uppfylla nokkur skilyrði. Frá þessum skilyrðum eru undanþágur, t.d. fyrir námsmenn og fólk sem býr á sambýlum eða dvelur tímabundið á áfangaheimilum. Þá eru einnig sérstakar undanþágur fyrir þá sem dvelja fjarri lögheimili vegna veikinda eða tímabundið vegna vinnu.

 • Vera búsettur í íbúðarhúsnæðinu og eiga þar lögheimili.
 • Umsækjandi þarf að vera18 ára eða eldri.
 • Íbúðarhúsnæðið þarf að hafa að lágmarki eitt svefnherbergi ásamt séreldhúsi eða séreldunaraðstöðu og sérsnyrtingu og baðaðstöðu.
 • Umsækjandi þarf að vera aðili að þinglýstum leigusamningi  til a.m.k. þriggja mánaða. Þeir sem búa á námsgarði, sambýli, áfangaheimili, eða í húsnæði í eigu ríkis eða sveitarfélags eru undanþegnir því að þinglýsa leigusamningi.
 • Umsækjandi og aðrir heimilismenn sem eru eldri en 18 ára gefi samþykki sitt til upplýsingaöflunar. Upplýsingar sem sóttar eru til annarra stofnana eru t.d. upplýsingar um tekjur og eignir frá Ríkisskattstjóra, um lögheimili frá Þjóðskrá og um þinglýsingar frá sýslumönnum og sveitarfélögum.

Get ég sótt um sérstakan húsnæðisstuðning þó að ég sé ekki með leigusamning?

Heimilt er að samþykkja umsókn um sérstakan húsnæðisstuðning þó svo að ekki liggi fyrir leigusamningur þegar liggur fyrir að umsækjandi er í húsnæðisleit. Gildistími umsóknar er þrír mánuðir frá samþykkisdegi en greiðsla sérstaks húsnæðisstuðnings hefst ekki fyrr en réttur til húsnæðisbóta hefur verið staðreyndur.

Þarf ég að þinglýsa húsaleigusamningi?

Allir umsækjendur sem leigja íbúðarhúsnæði á almennum leigumarkaði þurfa að hafa þinglýstan húsaleigusamning til að eiga rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi.

Þeir sem þurfa ekki að þinglýsa húsaleigusamningi eru:

 • Þeir sem taka á leigu íbúðarhúsnæði sem er í eigu ríkisins eða sveitarfélaga.
 • Námsmenn sem taka á leigu herbergi eða íbúð á heimavist eða námsgörðum sem tengjast viðurkenndum menntastofnunum innan hins almenna menntakerfis. Þessi regla gildir þó ekki um námsmenn sem leigja herbergi á almennum markaði eða hluta af íbúð á almennum leigumarkaði.
 • Þeir sem hafa tímabundin afnot af húsnæði til eigin nota í kjölfar nauðungarsölu. Ákvörðun sýslumanns þess efnis þarf þá að liggja fyrir. 
 • Þeir sem dvelja á áfangaheimilum.

Skiptir máli hvað ég er með miklar tekjur?

Já, þær skipta máli. Ef um er að ræða einn heimilismann skerðast greiðslur ekki ef tekjur eru undir 3.622.600 kr. á ári eða 301.883 kr. á mánuði. Þegar tekjur eru orðnar hærri en 4.528.250 kr. á ári eða 377.354 kr. á mánuði fellur réttur til sérstaks húsnæðisstuðnings niður.

Ef um er að ræða tvo heimilismenn skerðast greiðslur ekki ef samanlagðar tekjur eru undir 4.791.180 kr. á ári eða 399.265 kr. á mánuði. Þegar tekjur eru orðnar hærri en 5.988.975 kr. á ári eða 499.081 kr. á mánuði fellur réttur til sérstaks húsnæðisstuðnings niður.

Ef um er að ræða þrjá heimilismenn skerðast greiðslur ekki ef samanlagðar tekjur eru undir 5.609.187 kr. á ári eða 467.432 kr. á mánuði. Þegar tekjur eru orðnar hærri en 7.011.484 kr. á ári eða 584.290 kr. á mánuði fellur réttur til sérstaks húsnæðisstuðnings niður.

Ef um er að ræða fjóra eða fleiri heimilismenn skerðast greiðslur ekki ef samanlagðar tekjur eru undir 6.076.620 kr. á ári eða 506.385 kr. á mánuði. Þegar tekjur eru orðnar hærri en 7.595.775 kr. á ári eða 632.981 kr. á mánuði fellur réttur til sérstaks húsnæðisstuðnings niður.

Tengill í reiknivél. 

Skiptir máli hvað ég á miklar eignir?

Já. Samanlagðar eignir umsækjanda og annarra heimilismanna, 18 ára og eldri, á síðastliðnu ári skulu ekki vera hærri en 5.510.000 kr. Um er að ræða nettó eign, þ.e. allar eignir að frádregnum skuldum.

Eignir eru t.d. innistæður á bankareikningum, bílar, hjólhýsi, mótorhjól, fasteignir og hlutabréfaeign, samkvæmt skattskýrslu.

Skuldir eru allar skuldir í árslok samkvæmt skattskýrslu.

Tengill í reiknivél. 

Skiptir máli hvað ég borga háa leigu?

Já, þeir sem greiða 40 þúsund og minna í leigu á mánuði geta ekki fengið sérstakan húsnæðisstuðning.

Skiptir máli hvernig húsnæði ég leigi?

Já. Íbúðarhúsnæðið þarf að uppfylla lágmarksskilyrði, þ.e. eitt svefnherbergi ásamt séreldhúsi eða séreldurnaraðstöðu og sérsnyrtingu og baðaðstöðu. Ekki er hægt að sækja um húsnæðisbætur ef um er að ræða atvinnuhúsnæði skv. fasteignaskrá.

Námsmenn sem taka á leigu herbergi eða íbúð á heimavist eða námsgörðum sem tengjast viðurkenndum menntastofnunum innan hins almenna menntakerfis hafa undanþágu frá þessari reglu og geta fengið húsnæðisbætur fyrir leigu á herbergi.

Það sama á við um sambýli fatlaðs fólks í húsnæðisúrræðum og sambýli einstaklinga á áfangaheimilum.

Hvað fæ ég greidda háa fjárhæð?

Það fer eftir aðstæðum, tekjum og eignum allra heimilismanna eldri en 18 ára.

Sérstakur húsnæðisstuðningur er reiknaður sem ákveðið hlutfall af húsnæðisbótum þannig að fyrir hverjar 1.000 kr. fær leigjandi greiddar 1.000 kr. í sérstakan húsnæðisstuðning, að teknu tilliti til lækkunar samkvæmt öðrum skilyrðum reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðnings og að teknu tilliti til áhrifa tekna.

Húsnæðisbætur og sérstakur húsnæðisstuðningur geta aldrei numið hærri fjárhæð en samtals 90.000 kr.

Upphæð sérstaks húsnæðisstuðnings tekur mið af tekjum allra heimilismanna eldri en 18 ára.

Tengill í reiknivél.

Hvað gildir umsókn um sérstakan húsnæðisstuðning lengi? Þarf ég að endurnýja hana?

Umsókn um sérstakan húsnæðisstuðning gildir í 12 mánuði frá umsóknardegi. Til þess að viðhalda gildi umsókna þarf umsækjandi að endurnýja umsókn innan 12 mánaða frá umsóknardegi og síðan á 12 mánaða fresti frá þeim degi. Endurnýjun umsóknar skal vera skrifleg.

Hvenær fellur sérstakur húsnæðisstuðningur niður?

Greiðsla sérstaks húsnæðisstuðningur fellur niður frá og með næstu mánaðamótum eftir að skilyrði reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning eru ekki lengur uppfyllt, þegar leigusamningur fellur úr gildi eða ef umsókn er ekki endurnýjuð innan 12 mánaða frá umsóknardegi og síðan á 12 mánaða fresti frá þeim degi.

Hvenær fæ ég sérstakan húsnæðisstuðning greiddan?

Sérstakur húsnæðisstuðningur greiðist umsækjanda í fyrstu viku hvers almanaksmánaðar og er greiddur eftir á fyrir leigutíma undanfarandi almanaksmánaðar eða hluta úr almanaksmánuði, hefjist leigutími síðar en fyrsta dag almanaksmánaðar eða ljúki fyrir síðasta dag almanaksmánaðar. Samningur sem kann að vera í gildi milli umsækjanda og leigusala eða þriðja aðila um fyrirframgreiðslu húsnæðiskostnaðar breytir engu hér um.

Hvernig fæ ég sérstakan húsnæðisstuðning greiddan?

Sérstakur húsnæðisstuðningur er greiddur inn á þann reikning sem umsækjandi tilgreinir í umsókn. Heimilt er að greiða sérstakan húsnæðisstuðning til leigusala samkvæmt skriflegri beiðni umsækjanda. Sérstakur húsnæðisstuðningur er greiddur beint til Félagsbústaða hf. ef umsækjandi leigir íbúð á vegum Félagsbústaða hf.

Þarf ég að borga skatt af sérstökum húsnæðisstuðningi?

Nei. Sérstakur húsnæðisstuðningur er undanþeginn skatti.

Er sérstakur húsnæðisstuðningur greiddur afturvirkt?

Sérstakur húsnæðisstuðningur er ekki greiddur lengra aftur en frá þeim almanaksmánuði sem umsóknin er móttekin. Óheimilt er að greiða sérstakan húsnæðisstuðning lengra aftur í tímann, þrátt fyrir að leiga hafi hafist fyrr og leigusamningur liggur fyrir því til staðfestingar.

Er sérstakur húsnæðisstuðningur greiddur til barna?

Veita skal sérstakan húsnæðisstuðning til foreldra eða forsjáraðila 15–17 ára barna sem leigja herbergi á heimavist eða námsgörðum hér á landi vegna náms fjarri lögheimili. Sérstakur húsnæðisstuðningur skal vera óháður tekjum og eignum foreldra eða forsjáraðila og nemur 60% af leigufjárhæð. Með umsókn um slíkan stuðning skal leggja fram húsaleigusamning og staðfestingu á námi barns.

Hægt er að nálgast allar nánari upplýsingar á þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

2 + 14 =