Kattahald í Reykjavík

Hér má finna allar helstu reglur um kattahald í borginni. Eigendum katta er skylt að láta örmerkja ketti sína og tilkynna númer örmerkis til umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar.  Einnig ber að láta gelda alla fressketti sem ganga lausir.
 
Til að draga úr fjölda óskilakatta er eigendum katta skylt að merkja þá varanlega með örmerki. Örmerki er lítill kubbur sem dýralæknir kemur fyrir undir húð í herðakambi kattar og geymir 15 stafa númer. Umhverfis- og skipulagssvið heldur skrá yfir merkta ketti og þangað verða eigendur að tilkynna númer örmerkisins og nafn eiganda. Upplýsingum um númer örmerkis og nafn eiganda má koma til sviðsins í síma 4 11 11 11 eða með skráningu á þessari síðu. Til að almennir borgarar geti komið óskilaköttum til eigenda sinna er jafnframt nauðsynlegt og skylt að merkja ketti með hálsól þar sem fram kemur heimilisfang og símanúmer eiganda.
 

Í sátt við umhverfið

Samkvæmt samþykkt skal halda ketti þannig að það valdi ekki hávaða, ónæði, óþrifnaði eða óhollustu. Ef köttur veldur nágranna ónæði, óþrifum eða tjóni, ber eiganda eða forráðamanni að koma í veg fyrir slíkt.  Til að lágmarka tjón sem kettir geta valdið fuglalífi í borginni ber eigendum að hengja bjöllu á ketti á varptíma fugla eða takmarka eftir atvikum útiveru katta.  Fresskettir merkja sér yfirráðasvæði sitt með illa lyktandi þvagi sem oft veldur miklu ónæði og óþrifnaði. Til að stemma stigu við óhóflegri fjölgun katta í borginni og til að draga úr ónæði og óþrifnaði af völdum fresskatta er eigendum þeirra nú skylt að láta gelda ketti sína eftir að þeir ná sex mánaða aldri gangi þeir lausir utandyra.  Samkvæmt lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994 þarf samþykki þeirra eigenda sem hafa sameiginlegan inngang, stigagang eða annað sameiginlegt húsrými, fyrir kattahaldi í fjöleignarhúsi.

Heilsa og hollusta

Til að fyrirbyggja sýkingar í mönnum af völdum spóluorma í köttum skal ormahreinsa alla ketti árlega frá fjögurra mánaða aldri.

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Vakni spurning um kattahald í borginni sem ekki er að finna svar við á þessari síðu er hægt að hafa samband í síma 4 11 11 11 eða senda tölvupóst á netfangið gudmundur.th.bjornsson@reykjavik.is
 
 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

2 + 1 =