Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar

Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar eru veitt ár hvert í minningu Tómasar Guðmundssonar fyrir óprentað handrit að ljóðabók. Dómnefnd verðlaunanna er skipuð af borgarráði og er hún skipuð þremur einstaklingum.

Hvernig tek ég þátt?

Senda skal inn til Reykjavíkurborgar áður óútgefið handrit að ljóðabók, frumsamið á íslensku. Handritum sem keppa til verðlaunanna þarf að skila í þremur eintökum, merktum dulnefni, en nafn og símanúmer fylgi með í lokuðu umslagi.

Handrit berist í síðasta lagi mánudaginn 1. apríl 2024.

Utanáskrift sendinga:

  • Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar
  • b.t. Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO
  • Borgartúni 12-14
  • 105 Reykjavík

Útgáfuréttur verðlaunahandrits er í höndum höfundar eða þess forlags sem hann ákveður að starfa með. Sé dómnefnd á einu máli um að ekkert þeirra verka sem borist hafa fullnægi þeim kröfum sem hún telur að gera verði til verðlaunaverka, má fella verðlaunaafhendinguna niður það ár.

Hver eru verðlaunin?

Verðlaunahafi hlýtur verðlaunafé. Það er greitt af Reykjavíkurborg og eru ein verðlaun veitt árlega í vetrarbyrjun. Árið 2024 verður upphæð verðlaunanna 1.000.000 krónur.

Hver skipar dómnefnd?

Dómnefnd til verðlaunanna er skipuð af menningar- og ferðamálaráði til eins árs í senn. Hana skipa þrír fulltrúar, þar af einn samkvæmt tilnefningu Rithöfundasambands Íslands, annar samkvæmt tilskipun Félags íslenskra bókaútgefenda og þriðji samkvæmt skipun Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO, sem jafnframt skipar formann.