Aðgerðir Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi
Reykjavíkurborg leggur mikla áherslu á að vinna gegn allskyns ofbeldi.
Aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2022-2024
Aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi veitir yfirsýn yfir þau fjölmörgu verkefni sem borgin sinnir í vinnu gegn ofbeldi. Hún er einnig vegvísir borgarinnar í baráttunni gegn ofbeldi og er ætlað að tryggja að þau verkefni sem eru tilgreind verði framkvæmd á tímabilinu. Aðgerðaráætlunin var unnin af ofbeldisvarnarnefnd Reykjavíkur og borgarstjórn samþykkti hana á fundi sínum þann 1. febrúar 2022.
Saman gegn ofbeldi
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti vorið 2014 að fara í átak gegn heimilisofbeldi í samstarfi við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, Kvennaathvarfið og Heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu. Samstarfið á að tryggja öryggi borgarbúa á heimilum sínum, veita þolendum og gerendum betri þjónustu og bæta stöðu barna sem búa við heimilisofbeldi.
Þjónustusamningar
Reykjavíkurborg er með þjónustusamninga við Kvennaathvarfið og Stígamót, sem eru grasrótarsamtök sem vinna með brotaþolum ofbeldis. Markmiðið með þjónustusamningunum er að veita borgarbúum sem hafa orðið fyrir ofbeldi stuðning, ráðgjöf og meðferð ásamt því að efla fræðslu og umfjöllun um eðli og afleiðingar ofbeldis. Þá tekur borgin einnig þátt í rekstri Bjarkarhlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis.
Þarft þú hjálp, til dæmis vegna ofbeldis sem þú hefur orðið fyrir eða vegna sjálfsvígshugsana?
Á plakatinu eru tengiliðaupplýsingar þjónustumiðstöðva Reykjavíkurborgar, Réttindagæslu fatlaðs fólks, 112, Stígamóta, Bjarkarhlíðar, Kvennaathvarfsins og Píeta samtakanna þurfir þú hjálp.
Plakatinu var dreift meðal annars til allra íbúðakjarna og vinnustaða fatlaðs fólks á vegum Reykjavíkurborgar.