Samráðsgátt

Teikning af fólki tala saman og vinna við skrifborð.

Samráðsgátt Reykjavíkurborgar er notuð til þess að kalla eftir hugmyndum og afstöðu borgarbúa til ýmissa verkefna hjá borginni.

Þar geta borgarbúar sagt sitt álit á þeim fjöldamörgu stefnumótunar- og framkvæmdaverkefnum sem verið er að vinna að hverju sinni.

Notkun samráðsgáttarinnar

Þegar verið er að vinna stefnumótun er samráðsgáttin mjög gjarnan notuð bæði við undirbúning stefnu og þegar óskað er eftir umsögnum um drög að tilbúnum stefnum.

Dæmi um notkun:

  • Þegar verið var að móta lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar var einn liður í samráðsferlinu að kalla eftir ábendingum og tillögum á frumstigum vinnunnar. Þegar drög að stefnunni lágu fyrir voru þau sett á samráðsgáttina og kallað eftir umsögnum.
  • Vorið 2022 var sett af stað mikið samráðsferli um endurgerð Laugardalslaugar. Á samráðsgáttinni óskuðum við eftir því að settar væru inn tillögur og hugmyndir um allt það sem ný Laugardalslaug ætti að innihalda. Boðið var upp á að settar væru inn tillögur í nokkrum flokkum eins og til dæmis um stúkuna, pottana og leiksvæði og svo framvegis. Á sama tíma var hugmyndakassi í lauginni sjálfri og haldnir kaffifundir með gestum og gangandi. Samtals komu inn yfir 1.000 hugmyndir á samráðstímabilinu. Hugmyndirnar voru flokkaðar og settar inn í þau gögn sem þeir arkitektar fá sem vinna tillögur í hönnunarsamkeppni um framtíðarútlit Laugardalslaugar.

Við auglýsum þau verkefni sem við erum með í vinnslu hverju sinni á reykjavik.is og á samfélagsmiðlunum okkar.

Vilt þú vera á póstlista yfir þá sem fá tilkynningar þegar við opnum nýtt samráðsferli? Sendu póst á lydraedi@reykjavik.is