Reglur um íbúakort

Reglur um bílastæðakort fyrir íbúa í Reykjavík. Númer 370/2021.

1. gr. Íbúakort.

Bílastæðasjóður Reykjavíkur gefur út bílastæðakort, hér eftir nefnd íbúakort, til íbúa sem búa á íbúakortasvæðum innan Reykjavíkur, í samræmi við nánari skilyrði sem hér greinir. Íbúakort veitir heimild til að leggja bifreið án endurgjalds í gjaldskylda stöðureiti innan gildissvæðis íbúakorts, með þeim takmörkunum sem greinir í 5. gr.

2. gr. Íbúð.

Aðeins er heimilt að gefa út íbúakort til íbúa í íbúð sem uppfylla öll eftirfarandi skilyrði:

  • Íbúð skal staðsett innan gildissvæðis íbúakorts samkvæmt 5. gr.
  • Íbúð má ekki vera skilgreind námsmannaíbúð, hjúkrunarheimili eða dvalarheimili.
  • Íbúð má ekki fylgja réttur til notkunar á bílastæði innan lóðar, hvort heldur til einkanota eða í sameign, samkvæmt deiliskipulagi, lóðarleigusamningi, mæliblaði eða lóðaruppdrætti.  

Íbúð telst ekki fylgja réttur til notkunar á bílastæði ef í staðfestri eignaskiptayfirlýsingu er kveðið á um að íbúðinni fylgi ekki réttur til notkunar á bílastæði. Þar sem ekki liggur fyrir eignaskiptayfirlýsing og íbúðir eru fleiri en bílastæði innan lóðar, nægir yfirlýsing um afnotaskipti, þar sem taldar eru upp þær íbúðir sem hafa afnotarétt af stæðum í sameign innan lóðar.

Einungis er heimilt að gefa út eitt íbúakort fyrir hverja íbúð sem uppfyllir ofangreind skilyrði.

3. gr. Umsækjandi.

Aðeins er heimilt að gefa út íbúakort til umsækjanda sem uppfyllir öll eftirfarandi skilyrði:

  • Umsækjandi skal vera einstaklingur með skráð lögheimili í íbúð sem uppfyllir skilyrði 2. gr.
  • Umsækjandi skal vera eigandi íbúðarinnar eða hafa skriflega heimild frá eiganda hennar til að sækja um íbúakort.
  • Umsækjandi skal vera skráður eigandi eða umráðamaður bifreiðar samkvæmt 4. gr. eða geta með öðrum hætti sýnt fram á raunveruleg afnot sín af bifreiðinni, til að mynda á grundvelli leigusamnings.
  • Umsækjandi skal ekki vera í skuld við Bílastæðasjóð Reykjavíkur sem komin er til milliinnheimtu eða löginnheimtu.
Einungis er heimilt að gefa út eitt íbúakort til hvers umsækjanda og gildir það óháð fjölda íbúða sem eru í eigu sama umsækjanda.

4. gr. Ökutæki.

Aðeins er heimilt að gefa út íbúakort fyrir ökutæki sem uppfyllir öll eftirfarandi skilyrði:

  • Ökutæki skal bera gild íslensk skráningarmerki.
  • Ökutæki skal vera heimilt að leggja á götum og almennings bifreiðastæðum samkvæmt ákvæðum umferðarlaga og lögreglusamþykktar.
Heimilt er að gefa út fleiri en eitt íbúakort fyrir sama ökutæki, að uppfylltum öðrum skilyrðum reglna þessara.

5. gr. Gildissvæði.

Hvert íbúakort gildir innan skilgreinds íbúakortasvæðis. Svæðin skulu ákveðin af skipulags- og samgönguráði og auglýst með opinberum hætti. Íbúakort veitir þó ekki heimild til að leggja gjaldfrjálst í stöðureiti á svæðum með gjaldskyldu P4. Kortin veita heldur ekki heimild til að leggja gjaldfrjálst á eftirtöldum götum og svæðum:

  • Laugavegi.
  • Skólavörðustíg milli Laugavegs og Bergstaðastrætis.
  • Bergstaðastræti milli Laugavegs og Skólavörðustígs.
  • Bílaplani við Bergstaðastræti 6.
  • Kvosinni, þ.e. Lækjargötu, Kirkjutorgi, Pósthússtræti, Austurstræti, Hafnarstræti, Veltusundi.
  • Kirkjustræti, Aðalstræti, Tryggvagötu og Naustunum.

Bílastæðasjóður Reykjavíkur skal á vefsíðu sinni birta yfirlitsmynd yfir gildissvæði íbúakorta.

6. gr. Umsókn um íbúakort.

Sækja skal um íbúakort með rafrænum hætti á vefsíðu Bílastæðasjóðs Reykjavíkur. Í umsókn um íbúakort skal að lágmarki tilgreina eftirfarandi atriði:

  • Kennitölu umsækjanda.
  • Skráningarnúmer ökutækis.
  • Fasteignanúmer, ef umsækjandi á lögheimili í fjöleignarhúsi.

Ef umsækjandi er ekki eigandi íbúðar samkvæmt 2. gr., skal undirritað samþykki eiganda íbúðarinnar fylgja með umsókn. Bílastæðasjóður Reykjavíkur skal á vefsíðu sinni gera aðgengilegt eyðublað um samþykki íbúðareiganda.

Ef umsækjandi er ekki skráður eigandi eða umráðamaður bifreiðar samkvæmt 3. gr., skal önnur staðfesting á afnotum af bifreiðinni fylgja umsókn, til að mynda samningur um leigu á bifreiðinni. Bílastæðasjóður Reykjavíkur skal afla annarra nauðsynlegra upplýsinga frá umsækjanda og úr opinberum skrám, svo sem þjóðskrá, fasteignaskrá og ökutækjaskrá, eftir því sem við á og í samræmi við gildandi lög. Úthluta skal umsækjanda korti fyrir það gildissvæði þar sem lögheimili hans er. Ef umsækjandi á lögheimili á mörkum tveggja gildissvæða er honum heimilt að velja á hvoru svæðanna íbúakortið gildir. Bílastæðasjóður Reykjavíkur skal birta leiðbeiningar um umsókn og helstu upplýsingar um íbúakort á vefsíðu sinni.

7. gr. Gildistími og notkun.

Íbúakort skulu gefin út með rafrænum hætti til eins árs í senn en þó aldrei til lengri tíma en heimild frá eiganda íbúðar eða samningur um umráð ökutækis bera með sér. Íbúakort verður óvirkt þegar skilyrði fyrir útgáfu þess eru ekki lengur uppfyllt. Handhafa íbúakorts ber að tilkynna Bílastæðasjóði Reykjavíkur, ef skilyrði fyrir útgáfu íbúakortsins eru ekki lengur uppfyllt vegna breyttra aðstæðna korthafa, svo sem vegna flutnings á lögheimili, sölu ökutækis eða annarra sambærilegra atvika.

8. gr. Gjaldtaka.

Fyrir útgáfu, breytingar og endurnýjun á íbúakorti skal greiða gjald samkvæmt auglýstri gjaldskrá. Gjaldið skal greitt þegar umsókn hefur verið samþykkt. Íbúakort er ekki virkjað fyrr en Bílastæðasjóður Reykjavíkur hefur móttekið greiðsluna.

9. gr. Ógilding.

Bílastæðasjóður Reykjavíkur getur ógilt íbúakort ef handhafi verður uppvís að misnotkun kortsins. Handhafi korts sem hefur verið ógilt vegna misnotkunar á kortinu, getur ekki fengið útgefið nýtt kort í tvö ár frá ógildingu útgefins korts. Bílastæðasjóður Reykjavíkur getur einnig ógilt íbúakort ef sjóðnum verður kunnugt um að skilyrði fyrir veitingu íbúakorts eru ekki lengur uppfyllt, án þess að handhafi kortsins hafi tilkynnt sjóðnum um það í samræmi við 7. gr. Bílastæðasjóður Reykjavíkur skal tilkynna handhafa íbúakorts um ógildingu korts samkvæmt ofangreindu.

10. gr. Gildistaka og lagastoð.

Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 2. mgr. 86. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, með síðari breytingum, voru samþykktar á fundi skipulags- og samgönguráðs þann 10. mars 2021 og á fundi borgarráðs þann 18. mars 2021 taka gildi við birtingu. Á sama tíma falla úr gildi eldri reglur um bílastæðakort íbúa í Reykjavík nr. 591/2015.

Borgarstjórinn í Reykjavík, 19. mars 2021.