Styrkleikaæfing

Markmið með þessum stutta leik er að nemendur átti sig á styrkleikum sínum og að þeir komi auga á styrkleika annarra nemenda í bekknum.

Styrkleiki minn og styrkleiki þinn

Markmið með þessum stutta leik er að nemendur átti sig á styrkleikum sínum og að þeir komi auga á styrkleika annarra nemenda í bekknum. Kennari getur byrjað kennslustundina á því að minnast á að við eigum mismunandi styrkleika og við erum fjölbreyttur hópur og það er jákvætt og gott. Enginn er góður í öllu en allir eru góðir í einhverju!

  • Hver nemandi fær tvo litla miða, á annan miðann skrifar viðkomandi einhvern styrkleika sem hann telur sig búa yfir. Á hinn miðann skrifar hann bara nafnið sitt. 
  • Miðinn með styrkleikanum fer í vasann, en kennari tekur miðann með nafninu. Þegar kennarinn er kominn með alla nafnamiðana þá hristir hann þá saman og dreifir svo miðunum af handahófi aftur til nemenda. Ef einhver fær sitt eigið nafn þá er skipt um miða. Þegar allir hafa fengið miða með öðru nafni en sínu, þá eiga þeir að velta því fyrir sér hver helsti styrkleiki þess einstaklings sem þeir fengu er og skrifa svo aftan á miðann styrkleikann (Dæmi: Góður vinur, hugrökk, fyndinn, góð í fótbolta…).
  • Þegar allir hafa skrifað á nafnamiðann þá safnar kennari miðunum til baka (bara nafnamiðunum) og dreifir þeim til nemenda. Hver og einn fær til baka miðann með nafninu sínu og nú með skrifaðan styrkleika aftan á. Nemendur eiga nú tvo miða með styrkleikum sínum, þann sem þeir skrifuðu sjálfir í upphafi og þann sem einhver annar nemandi skrifaði. Gaman er fyrir nemendur að sjá hvort það er sami styrkleikinn á báðum miðum eða hvort samnemandi hafi jafnvel komið auga á styrkleika sem nemandi hefur ekki sjálfur áttað sig á að hann búi yfir.