Innri endurskoðun og ráðgjöf

Teikning af köku með lógó Reykjavíkurborgar, kökusneið og servíettur.

Innri endurskoðun og ráðgjöf Reykjavíkurborgar (IER) annast innri endurskoðun og veitir faglega og óháða ráðgjöf með það að markmiði að bæta rekstur og stjórnsýslu, meta árangur og bæta áhættustýringu. Innri endurskoðun og ráðgjöf tekur jafnframt við ábendingum um lögbrot og aðra ámælisverða háttsemi.

Starfssvið

Starfssviðið nær til A hluta Reykjavíkurborgar eins og hann er afmarkaður í sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011. Að því marki sem A hluti ber ábyrgð á B hluta nær starfssviðið einnig til allrar samstæðu borgarinnar.

Innri endurskoðandi starfar í umboði borgarráðs og í beinum tengslum við æðstu stjórnendur borgarinnar. Hann er innri endurskoðandi Reykjavíkurborgar og störf hans eru hluti af stjórnendaeftirliti Reykjavíkurborgar. Hann er engum háður í störfum sínum og nýtur faglegs sjálfstæðis gagnvart allri stjórnsýslu borgarinnar. Innri endurskoðandi fer með stjórn Innri endurskoðunar og ráðgjafar, ákveður verkefnaskiptingu, skipurit og skipulag. Skrifstofan er staðsett í Guðrúnartúni 1.

Þann 1. apríl 2025 tóku gildi skipulagsbreytingar hjá Reykjavíkurborg. Með breytingunum færðist staða persónuverndarfulltrúa frá Innri endurskoðun og ráðgjöf til skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. Jafnframt voru fagsvið ráðgjafar og starf ráðgjafa borgarbúa lögð niður.

Þeim erindum sem áður heyrðu undir fagsvið ráðgjafar og ráðgjafa borgarbúa skal eftirleiðis beint til þjónustuvers Reykjavíkurborgar.