Innheimta fasteignagjalda

Fjármála- og áhættustýringarsvið Reykjavíkurborgar annast álagningu, reikningagerð og fruminnheimtu fasteignagjalda.

Gjalddagar

Fasteignagjöld ársins 2023, yfir 25.000 kr., greiðast með ellefu jöfnum greiðslum á gjalddögum, 30. janúar, 4. mars, 2. apríl, 2. maí, 3. júní, 2. júlí, 2. ágúst, 2. september, 2. október, 1. nóvember og 3. desember

Gjalddagi fasteignagjalda undir 25.000 kr. er 30. janúar.

Eindagi

Eindagi fasteignagjalda er 30 dögum eftir gjalddaga og reiknast dráttarvextir frá gjalddaga. Dráttarvextir reiknast frá gjalddaga ef gjöldin eru ekki greidd á eindaga. Ef eindagi ber upp á lokuðum bankadegi þarf að greiða kröfuna fyrir kl. 21:00 síðasta opna bankadag til að komast hjá greiðslu dráttarvaxta.

Vanskil

Innheimtuviðvörun er send út 10 dögum eftir eindaga og er gjaldendum gefinn kostur á að greiða kröfuna svo unnt verði að komast hjá milli- og löginnheimtu gjaldanna sem felur í sér aukinn kostnað fyrir gjaldendur.

Kröfur sem eru í vanskilum 55 dögum frá gjalddaga eru sendar í milliinnheimtu til Momentum greiðslu- og innheimtuþjónustu. Í lok árs eru fasteignagjöld sem enn eru í vanskilum send í löginnheimtu hjá Gjaldheimtunni.

Greiðsluseðlar

Greiðsluseðlar vegna fasteignagjalda eru ekki sendir út til greiðenda fæddir 1943 eða síðar nema þess sé sérstaklega óskað. Hægt er að óska eftir greiðsluseðli í Rafrænni Reykjavík, í síma 411 1111 og í netfanginu upplysingar@reykjavik.is.

Fasteignagjöldin eru innheimt í netbönkum, en jafnframt er bent á boðgreiðslur af greiðslukortum eða beingreiðslur hjá öllum bankastofnunum.

Boðgreiðslur

Boðgreiðslur eru einföld og þægileg leið til að greiða fasteignagjöld. Gjöldin skuldfærast sjálfkrafa af kreditkorti viðskiptavinar. Í Rafrænni Reykjavík geta handhafar Mastercard og Visa kreditkorta skráð fasteignagjöld í boðgreiðslur. Ekki er hægt að greiða þegar útgefna gjalddaga með boðgreiðslum.

Vinsamlegast athugið að fái boðgreiðslukrafa synjun um heimild við innheimtu hjá færsluhirði stofnast innheimtukrafa í banka, óheimilt er að reyna að afla heimildar vegna kröfunnar aftur.   

Beingreiðslur

Flestar bankastofnanir bjóða viðskiptavinum sínum upp á að skrá greiðslur líkt og fasteignagjöld í beingreiðslur. Greiðendum fasteignagjalda er bent á að hafa samband við sinn viðskiptabanka til að skrá fasteignagjöld í beingreiðslur.

Breytingar á greiðendum

Hægt er að færa óútgefnar kröfur fasteignagjalda yfir á meðeiganda fasteignar. Til þess þarf meðeigandi að óska sjálfur eftir greiðandabreytingu með því að senda tölvupóst á netfangið fasteignagjold@reykjavik.is. Greiðandabreyting tekur aðeins til óútgefinna gjalda. Vinsamlegast athugið að eigandi fasteignarinnar ber eftir sem áður ábyrgð á greiðslu gjaldanna.

Fjármála- og áhættustýringarsvið Reykjavíkurborgar veitir upplýsingar um álagningu fasteignagjalda og breytingar á þeim í síma 411 1111 og í netfanginu fasteignagjold@reykjavik.is.

Vakin er athygli á því að eigendur geta nálgast álagningarseðla í Rafrænni Reykjavík eða á Ísland.is

Álagningar- og breytingarseðlar eru ekki sendir í pósti í samræmi við breytingu sem gerð var á lögum nr. 4/1995 sem tók gildi 1. janúar 2019, en þá er sveitarstjórn heimilt að senda tilkynningu um álagningu fasteignaskatts rafrænt.

Innheimtureglur